22.07.1913
Efri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

64. mál, friðun æðarfugla

Guðmundur Björnsson:

Eins og hv. deild er kunnugt, hef jeg leyft mjer, að koma fram með ýmsar brtill. við frumv. Jeg tek það fram, að þær eru ekki fram komnar af því, að jeg vilji ónýta mál þetta fyri flutnm., nje af því, að jeg sje mótfallinn nýjum lögum um þetta efni, nje af því að jeg vilji eyða dýrmætum tíma þingsins að óþörfu, heldur af því, að jeg tel frv. með öllu óaðgengilegt, eins og það er nú gert úr garði.

Að svo mæltu sný jeg mjer að brtill. mínum.

Fyrsta tillagan er við 1. gr. og fer fram á, að framan við hana komi svofeld málsgrein: „Æðarfugl skal friðaður á öllum tímum árs. Þó er heimilt að veiða æðarblika frá 15. júlí til 15. september.

Frá því 1787 (sbr. tilskipun 13 júní 1787, III), hefur það verið bannað að drepa nokkurn æðarfugl og háar sektir lagðar við. Allir reyndustu varpeigendur hafa játað, að það væri gagnlegt að fækka blikunum. Frægustu varpeigendur, t. d. Guðmundur Þorvarðsson og Eyjólfur Guðmundsson, drápu blikana í hrönnum. Sú er ástæða til þessa, að meira er til af blikum en kollum. Eftir varpið fara blikarnir út á sjó, en kollurnar eru eftir í hreiðrunum. Það er álit margra manna, að kollurnar falli meira í hörðu árunum. Þetta er aftur talin ein ástæða þess, að meira er til af blikum en kollum. Blikarnir gera stundum usla í varplöndunum, því að þeir fara oft ekki burt nærri allir fyr en varpi er lokið (Sig. Stef.: þeir fara einmitt). Jeg hef þekking mína frá miklu frægari og fróðari varpmanni en hv. þm. Ísf. (S. St.), Eyjólfi Guðmundssyni. Hann gerði sjálfur mikið að því, að fækka blikunum. Og því tel jeg rjettast, að heimila, að veiða þá 3 mánaða tíma, frá 15. júlí til 15. sept.

Þá kemur 2. liður brtill. minnar við 1. gr., og fer hann fram á, að í stað 50 kr. til 100 kr. sektar fyrir dráp á æðarfugl, komi 5 kr. Þessar sektir hafa farið hækkandi. Í tilskipuninni 1787 voru þær 3 mörk. Þessu ákvæði var haldið í veiðitilskipuninni 1849. En 1890 voru þær hækkaðar. En hvað sjáum við. Aldrei drepið meira af æðarfugli, en eftir það. Það er öldungis víst; að því hærri sem sektirnar eru, því meira verður drepið. Þetta stafar af því, að siður er kært, er sektirnar eru háar. Veldur þessu bæði vorkunnsemi, og eins hitt, að menn vilja ekki liggja undir því ámæli, að þeir kæri til að fá uppljóstursfje. Því eru háar sektir ekki hentugar. Það er nóg, að sektin sje svo há, að hún nemi meira en verðmæti fuglsins. Og æðarfuglinn er ekki 5 kr. virði.

Svo framarlega sem sektir eiga að koma að gagni, mega þær ekki vera alt of háar. Þær eru næsta ískyggilegar, þessar 100 kr. sektir, ef ísár og hallæri ber að höndum. Þá kemur það sjer illa fyrir lögreglustjóra, að þurfa að dæma fátækan mann í háa sekt fyrir að hafa drepið æðarfugl sjer til bjargar. Hvað á sýslumaður að gera, þegar slíkan vanda ber að höndum ? Jeg þekki eitt dæmi þess af Norðurlandi, að auðmaður einn átti æðarvarp, og fátæklingur einn, er bjó þar skamt frá, lagði net fyrir fuglinn og fjekk 7 fugla. Þetta var kært, en sýslumaður sinti því ekki. Þá er að því var fundið, að sýslumaður sinti ekki kærunni, svaraði hann: „Hver á fyr að falla, fuglinn eða maðurinn?“ Og mörgum lögreglustjórum mun farast á líkan hátt.

Eftir frv. á það eigi að vera leyfilegt, að selja, kaupa nje láta egg af hendi. Þessu vil jeg breyta, eins og brtill. mín ber með sjer. 1890 var bannað að selja æðaregg. Þó að það sje sagt og sje satt, að allmikið hafi verið gefið af eggjum, þá er það víst, að eggjataka hefur minkað mikið síðustu 20 árin. Ef maður lítur nú á skýrslurnar um útfluttan æðardún, þá sjest, að engar framfarir eru í þessari grein, en að öllum öðrum atvinnugreinum fleygir fram. Hjer stendur alt í stað, þrátt fyrir þessi „spartversku lög“, er vjer höfum um þessi efni. Ef jeg væri þess viss, að lög þessi kæmu að haldi, skyldi jeg greiða atkvæði með þeim, jafnvel þótt ætla mætti, að varpeigendur hefðu vit fyrir sjálfum sjer í þessum efnum. En þingið verður oft að semja lög, er skylda menn til að gera það, er þeim sjálfum er fyrir beztu, og þeir ættu að gera af sjálfsdáðum. En jeg hef engar sönnur heyrt færðar fyrir því, að þessi lög komi að gagni. Og jeg veit með vissu, að margir varpeigendur telja alls ekki skaðlegt, að taka egg. Það sannar ekkert í þessu efni, þótt hægt sje að tilfæra dæmi þess, að varp hafi varið, þar sem egg voru ekki tekin. Það má líka nefna dæmi þess, að varp hafi þróast og þroskast, þar sem egg voru tekin. Og margir beztu varpmenn segja líka, að bezt sje að taka 1–2 egg úr hreiðri. Og gæti menn nú að, hvað bannað er, þá eru það engir smámunir. Eftir því, sem ráða má af dúntekjunni, eru um 300 þús. æðarhreiður í landinu — í minsta lagi. Gerum ráð fyrir, að 2 egg væru tekin úr hverju hreiðri, og metum eggið 10 aura. Það nemur 60 þús. kr. Það er með öðrum orðum 60 þús kr. virði, sem hjer er verið að banna landsmönnum að hirða. Og dúnninn sjálfur gefur ekki af sjer nema 70-80 þús. Það er því stór tekjugrein, sem varpeigendur eru sviftir, er þeim er bannað að selja egg, og mjer virðist þeim hlunnindum vera kastað í sjóinn; það er dálítið skrítið, að þjóð, sem barmar sjer jafnmikið yfir basli og bágindum og Íslendingar, skuli hafa efni á, að kasta jafnágætum mat í sjóinn. Það er skrítinn búskapur. (Sigurður ,Stefánsson: Þetta er alt rangt). Nei, það er rjett, og það skal verða sannað síðar, svo að jafnvel háttv. þm. Ísf. (S. St.) verði að játa, að það er rjett.

Þessi lög geta í framkvæmdinni orðið mjög ómannúðleg, t. d. ef harðindi ber að höndum. Og mig furðar á að heyra og sjá háttv. þm. Ísf. (S. St.) halda þeim fram, eftir þessa hjartnæmu ræðu, sem hann hjelt hjer í gær um bágindi fátæklinganna. Það er eins og hann hafi skilið alla hjartagæzkuna eftir heima í dag.

Yfirleitt hygg jeg, að ekki verði sannað, að bannið gegn eggjatökunni hafi unnið þeirri atvinnugrein, er það átti að vernda, nokkra bót, en hins vegar hefur það orðið atvinnurekendunum til stórtjóns.

Þá kem jeg að þessari dæmalausu lagagrein, að enginn megi hirða, kaupa eða selja dauða æðarfugla. Ein brtill. mín fer fram á að fella hana í burtu. Það vita margir Norðlendingar, að dauðir æðarfuglar liggja oft í hrönnum á ís. Og þetta á að banna mönnum að hirða. Þeir góðu menn, sem berjast fyrir þessu frv. mega þó vita það, að alþýða manna hefur á harðæristímum og ísárum orðið að leggja sjer verra til munns en dauða, helfrosna æðarfugla. Það var ekki fyr en 1890, að farið var að banna mönnum að hirða dauða fugla. Til þess tíma náði bannið aðeins til lifandi fugla. Og þetta bann virðist ekki hafa orðið að neinu gagni. Það er samkvæmt minni skoðun jafn ómannúðlegt, að banna að hirða dauða fugla og að banna varpeigendum að gefa egg. Það er hvorki eggjataka nje byssur, er hafa valdið æðarfuglinum mestum hnekki, heldur hafísinn. Fuglinn hefur fallið í hrönnum í ísárum. Það fellur sjálfsagt meira af honum á einu ísári, en drepið er á 20 árum. Það er eins og nú vanti ekki annað í þessi vitlausu lög, en það, að þau banni líka hafísnum að drepa æðarfugl.

Þá kemur brtill. mín við 5. gr. Í frumv. er enginn munur gerður á smábyssum og stórbyssum. Í tilskipuninni 20. júní 1849 var gerður munur á fallbyssum og öðrum byssum. Það var með öðrum orðum heimtað stærra bil fyrir smáskot en stórskot, og það tel jeg heppilegt. Brtill. mín við 5. gr. fer í þá átt.

Þá kem jeg að síðustu greininni í brtill. mínum, sem fer fram á, að varpeigendur skuli bæta nágrönnum sínum það tjón, sem þeir haka þeim með veiðibanni sínu.

Þetta ákvæði er svo mikil fjarstæða, að engu tali tekur, og jafn mikil fjarstæða er það, þótt nokkur undirstaða þessa ákvæðis finnist í 9. gr. veiðitilskipunarinnar frá 20. júní 1849. Það er heldur engin bót í máli fyrir okkur, þótt óhæfileg ákvæði hafi verið sett í lög 1849, þá að taka hin sömu ákvæði upp í lög aftur á því herrans ári 1913, og ekki nóg með það, heldur önnur stórum verri. Í veiðitilskipuninni 1849 eru sett ýms skilyrði fyrir upptöku nýs æðarfuglaeggvers. Þar er svo fyrir mælt, að vill nokkur taka upp slíkt eggver, og skynsömum mönnum og óvilhöllum sýnist það vel til fallið, þá skuli hann segja sýslumanni til, en hann lýsi friðhelgi varpsins á næstu manntalsþingum, ef hann hefur gert nokkur sýnileg nývirki til, og síðan árlega í þessu frv. eru engin slík skilyrði. Nú er það nóg, að fara til sýslumanns og segja honum: „Jeg ætla að koma upp nýju æðarvarpi“ ; sýslumaður er þá skyldur til að friðlýsa því á næsta manntalsþingi. Nú þarf svo sem ekki að spyrja skynsama menn og óvilhalla, hvort þeim sýnist það vel til fallið. Ekki er heldur verið að leggja þá kvöð á þann, sem segist ætla að koma upp æðarvarpinu, að gera nývirki til undirbúnings varpinu. Með þessu er mönnum í lófa lagið, að taka dýrmæt hlunnindi frá nágrönnum sínum af tómri illgirni eða óvild. Það bætir ekkert úr skák fyrir flutningsmönuum frv., þótt finna megi byrjun vitleysunnar í veiðitilskipuninni frá 1849.

Yfir höfuð minna öll þessi ströngu ákvæði mig á netafarganið við Faxaflóa á árunum, þegar jeg var í skóla. Þá var hvert skilyrðið öðru strangara sett um netalagnir, og öll áttu þau að vera lífsskilyrði fyrir þá, sem við Flóann bjuggu.

Þá reis upp hver fiskispekingurinn á fætur öðrum, og æsingin var svo mikil, að alt ætlaði af göflunum að ganga, Nú er alt þetta fargan dottið um koll, og þegar vjer rennum huganum yfir sögu þess, þá vaknar hjá oss sama hugsunin, sem svo oft endranær, þegar vjer lítum á glapvegu þjóðarinnar. Mikil ógæfa hefur það verið fyrir þjóðina, hvað marga menn hún hefur átt, sem alt hafa þótzt vita, en þó vitað svo sára lítið. alt hafa fullyrt, en ekkert rannsakað til hlítar. Háttv. frsm. (S. St.) sagði sjálfur við 1. umr. þessa máls, að öll hin ströngu ákvæði friðunarlaganna hefðu ekki gert það gagn, sem til hefði verið ætlazt, Þó vill hann enn auka við gagnsleysuna. Jeg er háttv. frsm. (S. St.) alveg samdóma um það, að við þurfum að finna ný ráð til að auka æðarvarpið; gömlu ráðin hafa mjög lítið gagn gert.

Jeg skal vera manna fúsastur til að styðja háttv. frsm. (S. St.) í því, að leyta nýrra ráða til að bæta æðarvarpið og auka. Af því jeg vil máli þessu í sannleika vel, þá hef jeg samið frv. um veiðiskap, og ef það fær fram að ganga, er jeg viss um, að það gerir miklu meira gagn æðarvarpinu, en frv., sem nú er verið að ræða um; og verður æðarfuglinum meir til verndar.

Forseti tilkynti áðan, að komin væri til þingsins áskorun um að stuðla að því, að haldin væru lögin um friðun æðarfugls. Það er einkennilegt, að mennirnir biðja ekki um ný lög með strangari ákvæðum; þess finst þeim ekki þörfin brýnust, heldur hins, að þau lög sjeu haldin, sem til eru. Þetta sýnir, að lögin, sem nú eru til, eru fótum troðin, og koma ekki að fullu gagni, og þó á að halda áfram löggjöfinni í sama anda. Aðeins herða á lögunum. Er nokkuð vit í þessu, að vera altaf að höggva í sama farið, þótt enginn sjáist árangurinn? Það er miklu nær, að reyna nú að leita nýrra ráða. Þykist jeg hafa stigið spor í þá átt með brtill. minni á þgskj. 141. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta, og hef jeg þó ekki orðið nærri eins margorður eins og háttv. frsm. (S. St.).

Jeg geri mjer að vísu ekki mikla von um, að brtill. mínar fái framgang í þetta sinn — því miður — en jeg veit, að að því muni reka síðar, að þær verði teknar upp og fái framgang æðarvarpinu til þrifa og varpeigendunum til gleði og gagns