22.07.1913
Efri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

64. mál, friðun æðarfugla

Sigurður Stefánsson, frsm.:

Jeg þarf nú ekki að bæta nema fáeinum orðum við þessar umræður. — Vegna þess, að háttv. 6. kgkj. er dauður, skal jeg fara mjög mjúkum höndum um hann. Honum fanst ekki mikið að marka, þótt jeg hefði verið að reyna að telja blikann hjá mjer, því að altaf væri svo mikið af blikunum eftir úti á sjó. Veit jeg það, en úti á sjó er líka mikið af kollum, sumum geldum og sumum, sem ekki eru ennþá komnar í gagnið. Það er ekki gott að gera upp á milli, hvort meira er af kollum eða blikum úti á sjó, jeg hygg, að enginn lifandi maður geti sagt það. Þetta blikatal hins háttv. 6. kgkj. þm. hef því við lítið að styðjast. — Þá hefur og háttv. 6. kgkj. gert sjer margrætt um, hvílíkt tjón varpeigendum væri bakað með því, að banna þeim eggjatöku, og var að telja egg í þúsundum, sem gæfu varpeigendum gróða, ef þeir mættu selja þau. En hann gætir ekki að, hve margir æðarfuglar geti komið út af einu eggi. Hver kolla getur orðið 20 ára og hvílíkt gagn getur hún ekki gert á þeim tíma? Og hvað mikið af fugli getur ekki verið út af henni komið á þeim tíma? Þar gæti sjálfsagt komið svipað töluhlaup í andvirði aukins dúns eins og í eggjareikningi hv. 6. kgk. Jeg hlýt því að endurtaka þau orð min, að eggjatakan er litlu betri en dráp á lifandi fugli. Að vísu er bágt að koma við órækum sönnunum fyrir því, hve mikinn skaða eggjatakan geri. En það er svo einfalt mál, að fuglinum hljóti að fjölga því meir, sem minna er drepið af eggjunum, enda sýnir reynslan það. Á þeim 7 árum, sem Eggert Briem bjó í Viðey, voru þar aldrei tekin egg, og varpið óx alt að helmingi. En víða annarstaðar hefur varp vaxið, þótt egg hafi verið tekin. En þá verða menn að athuga, að í því efni getur svo margt annað komið til greina, og að ósannað er, að vöxtur varpsins hefði ekki orðið miklu meiri, ef engin egg hefðu verið tekin. Það sýnist þó vera deginum Ijósara, að því fleiri egg, sem eru tekin, því minna verði um fuglinn. Það er því skoðun mín, að ekki geti verið að ræða um neinn hagnað af eggjatökunni, að minsta kosti ekki nema stundarhagnað, sem ekkert vegur á móti þeim langvarandi hagnaði, sem hægt er að hafa af fuglinum. Jeg get því ekki lagt mikið upp úr þessum 60,000 kr. reikn ingi hins háttv. 6. kgkj.; jeg hygg sem sje, að hægt sje að sýna óþægilegan mótreikning. — Það hygg jeg og hina mestu fjarstæðu, að menn hafi farið að drepa meira af fugli með skotum, þegar þeir hættu að veiða hann í net. Skotin eru bein afleiðing af ólöghlýðni manna og strákskap og engu öðru.

Áður en jeg skilst við háttv. 6. kgkj., skal jeg taka það fram, að það var ekki jeg, sem átti upphafið að orðahnippingunum okkar á meðal. Miklu veldur sá, sem upphafinu veldur, og það var hann, sem byrjaði. Hann var meðal annars í gær, að tala um, að jeg mundi hafa skilið eftir brjóstgæði mín vestur í Vigur. Háttv. þm. var óþarfi að bregða mjer um slíkt, jeg þarf hvorki að blikna nje blána vegna þess, að að jeg hafi sýnt alþýðu í kringum mig harðýðgi.

Jeg hlýddi með hinni mestu ánægju á ræðu háttv. 3. kgkj. Nefndin er þakklát fyrir allar lögfræðislegar bendingar, og ræða hans gekk einmitt í þá átt. Jeg hef þegar áður vikið að því, að nefndin var í talsverðum vafa um það, hvort Lækkunin á sektunum mundi koma að verulegu liði. Jeg ímynda mjer því, að nefndin mundi ekki ófús á, að færa sektirnar nokkuð niður, ef brtill. kæmi fram í þá átt, en þó hef jeg enga heimild til að lýsa slíku yfir fyrir nefndarinnar hönd. — Hinn háttv. þm. gat þess, að ákvæði frv. kæmu í bág við lögmæltan netveiðirjett manna og væri það bagalegt, slíka þýðingu sem hrognkelsaveiðar hefðu fyrir alþýðu víða á landinu, en þessi ákvæði eru tekin upp úr veiðitilskipuninni 1849, og jeg hef ekki heyrt, að þan hafi valdið neinum óþægindum. Nefndin mun kosta kapps um að lagfæra frumvarpið, því að fyrir henni vakir það eitt, að vernda atvinnu varpeigendanna, án þess að skerða rjett annara atvinnurekanda í neinni grein. Við 9. gr. gerði háttv. 3. kgkj. þá athugasemd, að ákvæði frv. um friðlýsing æðarvarps væri alt of ónákvæm, og mun nefndin taka þá athugasemd til ihugunar við 3. umr. — Það getur vel verið, að þessum atvinnuvegi sje gert nokkuð hátt undir höfði með ákvæðum 10. gr. En þess er að gæta, að enginn annar atvinnuvegur er í slíkri hættu af drápgirni landsmanna, enda get jeg ekki sjeð, að tilfinnanlegur kostnaður muni stafa af ráðstöfunum, sem þar eru gerðar. — Það er satt, að vel gæti komið til mála, að leggja útflutningsgjald á æðardún, en þá vildi jeg aðeins, að slíkt hið sama væri gert við fleiri landvörur. Þess má líka geta í sambandi við þetta, að varpeigendur bera hærri byrðar en alment gerist, gjalda hærri gjöld bæði til lands og sveitar, en alment gerist.