10.07.1913
Neðri deild: 8. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (171)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg stend upp að eins til að láta í ljós, að eg skildi ekki vel hugsanaganginn hjá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Eg held hann hafi verið eitthvað óljós. Mér finst þetta vera sama “principið„ eins og þegar við bönnum að skjóta æðarfugl. Það getur verið tjón fyrir einstaklinginn, að mega ekki skjóta æðarfugl fyrir sinni landareign. Og eins er þetta með síldina. Það er þó minna vert, þótt einstaklingurinn fái lítið af síld í smánetjastúfa, í samanburði við hitt, að veiðinni í stórum stíl sé alment spilt. Hvernig veiðin sé notuð eða ágóðanum varið, kemur ekki þessu máli við.

Mér þykir undarlegt að segja, að botnvörpuútvegurinn sé ekki almenn atvinnugrein, heldur að eins gróðavegur einstakra manna. Er ekki allur gróðavegur til eflingar almennri atvinnu, hvurt sem fyrirtækið er eign einstakra manna eða félaga? Og er ekki öll arðsöm atvinna gróðavegur einhvers eða einhverra? Og er ekki öll arðsöm atvinna einnig til gróða fyrir landssjóð? Eg skil ekki hugsunargang ins háttv. þingmanns.