24.07.1913
Efri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

36. mál, nafnabreytingar og ný nöfn á býlum

Jón Jónatansson:

Jeg vil leyfa mjer að minnast lítið eitt á brtill. mína á þgskj. 147. Hún miðar að því, að lögin nái einnig til nafnaupptöku húsa og þurrabúða í kaupstöðum og sjóþorpum. Hún á að stemma stigu fyrir því, að á þessum stöðum sjeu tekin upp leiðinleg eða hlægileg skrípanöfn; það er altítt, að menn í kaupstöðum og sjóþorpum taki upp heiti alkunnra lögbýla á húsum sínum, og það jafnvel lögbýla í sömu sveit og getur það valdið töluverðum glundroða. Að sýslumanni sje heimilt að neita um þinglýsingu nafnsins og banna upptöku þess, er í samræmi við það, sem er í 3. gr., að þyki stjórnarráðinu nýupptekið nafn á býli fyrir einhverjar sakir óheppilegt, þá eigi það að endursenda beiðnina og beið anda gefast kostur á að taka upp annað nafn. Það sýnist fulltryggilegt, að gefa sýslumanni það vald, sem brtill. vill gefa honum, en umsvifaminna fyrir leyfisbeiðanda, en að þurfa að leita til stjórnarráðsins, Eins og sjá má, á brtill., að gera frumvarpið víðtækara, en gert er í 6. gr. frv., og vona jeg, að h. d. geti fallizt á hana.