25.07.1913
Efri deild: 16. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

78. mál, veiðiskattur

Guðmundur Björnsson:

Mjer er ekkert kappsmál um þetta frv., en mjer þótti rjett að hreyfa því, til þess að um það yrði hugsað. Jeg skildi háttv. þm. Barð. (H. Kr.) svo, að honum þætti það sjerstaklega athugavert, að hjer væri verið að leggja á nýjan skatt. En skatturinn er alls ekkert aðalatriði í frv. og með brtill. mætti t. d. veita landsetum undanþágu frá skatti. — Háttv. 1. kgk. þm. (J. H.) var einnig hræddur við þetta frv., af því hjer væri um nýjar álögur að ræða, en um þennan skatt er öðru máli að gegna en flesta aðra, því að hann á að renna í sveitarsjóð, en ekki í landssjóð. Jeg er því ekkert hræddur um, að þetta nýmæli kveiki neina óánægju hjá alþýðu. Hinn sami háttv. þm. hjelt því fram, að ástæðulaust væri að tala um, að fuglum væri farið að fækka hjer vegna ofsókna. Jeg játa auðvitað, að ekki hefur kveðið nærri eins mikið að fugladrápi hjer og víða annarsstaðar, en hitt óttast jeg, að bráðlega fari að sækja í sama horfið hjer eins og í öðrum löndum. Norðmaðurinn Barth, nafnfrægur veiðimaður og fuglafræðingur, heldur því fram í bók, sem hann gaf út um 1580, að fuglum hafi þá fækkað til stórra muna í Noregi frá því um miðja öldina. Það er svo að sjá, sem eyðileggingin hafi byrjað þar urn miðbik síðustu aldar. Samskonar kvartanir heyrast hvaðanæfa að, bæði frá Svíþjóð, Danmörku, Englandi. Þýzkalandi og Frakklandi. Það, sem hlíft hefur fuglunum hjer á landi, eru hinar miklu óbygðir vorar, friðland fuglanna.

Þessi háttv. þingdeild hefur svo rækilega sýnt það á þessu þingi, að henni er ant um friðun og viðhald fuglategundanna í landinu, og vona jeg því, að menn sjái, að þetta frumv. hefur góðan tilgang. Jeg vona, að nefnd verði skipuð í málið, sem breyti því til batnaðar, er miður þykir fara í frv., en láti hitt haldast, sem gagn er að.