25.07.1913
Efri deild: 16. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

128. mál, friðun fugla og eggja

Jón Jónatansson, framsm.:

Nefndin hefur leyft sjer að koma fram með nýtt frumv. í stað þeirra tveggja, sem hún hafði til athugunar. Jeg ætla mjer ekki að verða langorður nú við 1. umr., en vil aðeins með fám orðum gera grein fyrir, hvers vegna nefndin hefur komið fram með nýtt frv. Henni fanst sem sje ástæða til að taka friðunarlögin í heild sinni til íhugunar, til þess að koma þeim öllum í samræmi við þær reglur. sem hún álítur að fylgja beri í löggjöf um slík efni.

Hjer kemur margt til greina og má búat við, að vandratað verði meðalhófið, Fyrst og fremst verður að líta á, hver eigi að vera takmörk friðunarinnar, hvar og hvenær friðun sje þörf. Í öðru lagi verður að hafa vakandi auga á því, annarsvegar að vernda atvinnuvegi manna og hins vegar að skerða ekki um of atvinnufrelsi manna. Jeg býst nú við, að dómarnir verði misjafnir um, hvernig nefndinni hafi tekizt að þræða meðalveginn, en um það hugsa jeg þó að allir sjeu sammála, að það eigi að vera höfuðtilgangur löggjafarinnar, að vernda sem bezt fuglategundirnar í landinu, þó að sitt sýnist hverjum, þegar til framkvæmdanna kemur. Sumir halda því t. d. fram, að það sje tilgangslaust að vera að friða fugla, sem engar nytjar sjeu að, — enginn leggi sig niður við að drepa slíka fugla. En jeg held, að drápgirnin spyrji ekki um nytjar; sumir drepa eingöngu til þess að drepa. Það er fegurðartilfinningin, sem krefst þess, að þessir nytjalausu fuglar sjeu verndaðir; tilfinningin fyrir fjölbreytni og fegurð, sem því miður er á alt of lágu stigi hjá mörgum hjer á landi. Margir þessara veslings fugla eru til hinnar mestu prýði og skemtunur og ættu að hafa sama rjett á sjer, sem karlssonurinn í ævintýrinu:

„Hvar sem jeg sit um hæstan dag og hefst ekki neitt ilt að, þar má jeg vera“. — Þessa reglu, að vernda fjölbreytnina en varna gereyðingunni, vona jeg að sem flestir vilji aðhyllast. En um hitt má auðvitað deila, hverjir fuglar sjeu sjaldgæfir og hverjir ekki, því að mikill mismunur er á því í ýmsum hjeruðum.

Nefndin vonar, að sem flestir verði sammála um, að full þörf sje á að taka í taumana í þessu efni. Skotmennirnir hugsa altaf, að nóg verði eftir, þó að þeir svali veiðifýsn sinni, og svo mun sá einnig hugsa, sem drepur síðasta fuglinn. Annars sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um einstök atriði frv. nú við þessa umr. Það sem mestum ágreiningi veldur, verður að líkindum friðunin á svan og rjúpu. Hvað rjúpuna snertir, fer nefndin skemra en upphaflega frv., — hefur fært friðunartímann úr 5 árum niður í 2 ár. Sjálfsagt verður einnig talsverður ágreiningur um það, hvernig nefndinni hafi tekizt að flokka fugla til friðunar og ákveða takmörk friðunarinnar. Síðan hún lauk störfum sínum, hafa henni borizt ýmsar bendingar, sem hún mun taka til greina og yfir höfuð mun hún taka þakksamlega öllum upplýsingum, sem menn vilja gefa henni, því að hún játar, að hún hefur ekki svo fullkomna þekkingu á þessu efni, sem æskilegt væri. Vil jeg ljúka máli mínu með þeirri ósk, að frv. fái að ganga til 2. umr., og að á því verði gerðar slíkar breytingar til bóta, sem þörf krefur.