29.07.1913
Efri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

128. mál, friðun fugla og eggja

Jón Jónatansson, framsögumaður:

Jeg tel ástæðulaust, að eyða mörgum orðum að þessu fuglafriðunarfrumvarpi. Nefndarálitið um það hefur legið fyrir hinni háttv. deild, og hún hefur sjeð, hvað vakað hefur fyrir nefndinni, er hún flutti þetta frv.

Helztu nýmæli í frv. eru þau, að friða svan og rjúpu. Um friðun rjúpna er það að segja, að ekki er farið fram á hana vegna fuglsins sjálfs, heldur vegna þess arðs, er hafa má og höfð er af rjúpnaveiðum; það er með öðrum orðum gert til þess, að veiðin verði meiri og ábatavænlegri á eftir.

Það má deila mikið um fækkun rjúpunnar, en það er gagnlaust, að þjarka og þrátta um þau efni. Menn vita í rauninni lítið um það.

Það eru komnar fram brtill. við frv. nefndarinnar og getur nefndin yfirleitt ekki fallizt á þær. Þær fara yfirleitt allar í þá átt, að gera engar breytingar við núgildandi friðunarlög. Það er jafnvel lagt til að alfriða ekki þá fugla, er koma hingað sjaldan, og æskilegt væri, að ílendist hjer.

Það hefur verið sagt, að rjettast væri að gera ekki neitt í málinu, fyr en leitað væri álits sjerfróðs manns um þessi efni, t. d. náttúrufræðiskennarans við mentaskólann. Það kemur því heldur kynlega fyrir, að menn skuli koma með brtill. um að fella burt einmitt þann fuglinn, sem hjer er settur eftir tillögum sjerfræðings, náttúrufræðiskennarans við mentaskólann, Þessi fugl er hettumáfur, sem jeg nefndi áðan. Það er undarlegt að koma með slíka tillögu, en þykjast þó í öðru veifinu vilja fara eftir ráðum sjerfræðinga.

Við 1. gr. eru gerðar þær breytingar, að nokkrum nýjum tegundum er bætt inn í, er skuli vera alfriðaðar.

Við 2. gr. er og komin brtill. frá nefndinni. Það þótti ekki rjett, að gera ekki þessa undantekning, enda þótt það sje mjög sjaldgæft nú, að ernir leggist á lömb, síðan þeir gerðust svo fátíðir.

Við brtill. við 3. gr. er það að athuga að himbrimar eru settir í flokk þeirra fugla, er ófriðaðir eru. Það hefur vitnazt, að allmikið er til af þessari fuglategund. Þeir geta og verið skaðræðisgripir, t. d. unnið silungsveiði ógagn.

Brtill við 5. gr. er ekki annað en nafnabreyting. Dúkönd er algengt hjá alþýðu. Brtill. við 6. gr. er breyting á hámarki sekta fyrir brot á lögunum, hækkað úr 60 kr. upp í 80 kr., til þess hámarkið sje bein margföldun af lágmarkinu.

Þá er brtill. við 8. gr. Undanþágan getur eftir því líka náð til þeirra, er safna vilja fuglum handa náttúrugripasafninu í Reykjavík. Þessi brtill. er gerð eftir bendingum, er fram hafa komið, og til samkomulags.

Efnisbreytingar við frv. eru því litlar, eins og háttv. þingdm. sjá. Yfirleitt held ur nefndin fast við hið gamla frumvarp sitt.

Það hafa komið fram tillögur gegn friðun á rjúpum og svönum, en nefndin hefur ekki getað fallizt á þær. En jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það að sinni, fyr en þeir, sem breytingartillögurnar eiga, hafa rökstutt þessar tillögur sínar.