29.07.1913
Efri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

128. mál, friðun fugla og eggja

Guðmundur Björnsson:

Jeg ætla mjer ekki tala um einstakar breyttill. við frv., jeg er samþykkur háttv. flutningsmönnum um, að breyta þurfi lögunum um friðun fugla frá 1909.

En þetta er hið mesta vandaverk. Vandinn er að gera þau þannig úr garði, að þau gangi ekki of nærri atvinnufrelsi manna, en að þau hinsvegar komi að þeim notum, er þeim er ætlað, að friðunin verði meiri en orðin eintóm. Rjett leið er hjer vandrötuð.

Hjer koma ýmsar spurningar til greina, er svara verður, t. d. hvaða fugla eigi að friða; hvort það eigi að vernda að eins nytjafugla, eða auk þeirra skemtilega fugla eða meinlausa. Þá leikur vafi á, hvort það eigi friða þá alt árið eða að eins nokkurn hluta þess, hvort það eigi að friða eggin eða ekki. Alt þetta verður að athuga, og er það hið mesta vandaverk.

Um nytjafugla má geta þess, að þeir eru fleiri en haft er á orði í daglegu tali. Það eru ekki allfáir menn, er hafa allálitlega atvinnu af eggjasöfnum, selja skurnin. Og það er ekki rjett að banna slíkt, ef það stendur ekki fuglategundunum fyrir þrifum. En það er mjög mismunandi, hvað þær þola í þessum efnum. Jeg get t. d. ekki hugsað mjer, að það finnist svo mörg steindepilshreiður, að þeim fugli sje hætta búin; það munar miklu, hve auðvelt er að finna hreiðrin.

Háttv. 1. kgk. þm. (J. H.) þótti einkennilegt að friða ránfugla. En líkt á sjer stað í öðrum löndum. Birnir eru t. d. á sumum stöðum friðaðir (í Sviþjóð). Það þykir ekki hlýða, að þeim sje eytt með öllu.

Það var minst hjer á haftyrðla. Jeg veit ekki til þess, að þeir verpi annarstaðar en í Grímsey. Grímseyingar fá á aðra krónu fyrir skurnið. Þeir hafa farið vel með þá. Jeg hygg, að þeim hafi ekki fækkað. Þeir hafa haft dálitla atvinnu af að taka eggin, en gætt hófs. — Þetta bendir á að fara verði varlega, er slík lög sem þessi eru samin.

Það liggur í hlutarins eðli, að það ætti að vera sjálfsagt, að hagnýta sjer þekking sjerfróðra manna, er svona Iög eru samin. Það vill nú svo vel til, að tveir menn hafa kynt sjer fádæma vel íslenzkt fuglalíf. Annar þeirra er danskur, Hörring, og hjer að góðu kunnur. Hann hefur ferðast um landið fjögur ár í því skyni, að rannsaka háttu þeirra og líf. Hinn maðurinn, sem jeg átti við, er Bjarni kennari Sæmundsson. Hann hefur ferðast víða um land og veitt fuglum nákvæma eftirtekt á ferðalagi sínu. Þótt jeg viti, ef til vill, eins mikið um fugla og aðrir háttv. deildarmenn, þá finn jeg vel, að jeg gæti eigi samið fuglafriðunarlög, sem skyldi, nema með hjálp sjerfræðinga. Ef mjer væri falið að semja íslenzk fuglafriðunarlög, mundi það verða fyrsta verk mitt að leita álits og aðstoðar þessara manna. Jeg vil því leggja til, að háttv. flutningsmenn hætti við frumvarpið nú. Jeg skal aftur styðja þá til þess, að koma fram áskorun til stjórnarinnar um að undirbúa málið undir næsta þing og leita leiðbeininga sjerfræðinga og fleiri um þessi efni. Það mætti þá búa til ein friðunarlög, en ekki ein Iðg um friðun á æðarfuglum, önnur um lunda og svartbak o. s. frv.

Í gær var útbýtt 13 lagafrumvörpum hjer í deildinni. Tíminn er lítill til að gera öll þessi frumv. vel úr garði, og væri nauðsyn á, að fækka þeim. Ef flutningsmenn taka þessi frumv. aftur, skal ekki standa á mjer að draga mig í hlje með veiðiskattinn.