29.07.1913
Efri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Eiríkur Briem:

Jeg stend aðeins upp til þess að taka það fram, að jeg álit það ákvæði stj.frv., sem nefndin með síðustu br.till. sinni vill fella burtu, langmikilsverðasta og þýðingarmesta atriðið í frv. Það sem nefndin heldur fram, er í raun og veru hvorki meira nje minna en það, að allir skulu vera skyldir til þess að vera í einhverjum flokki eða fylgja einhverjum flokki að málum, hvort sem mönnum er það ljúft eða leitt, hvort sem sannfæring manna leyfir það eða ekki. Ef menn ekki geta fylgt neinum flokki, þá verða menn að láta atkvæði sitt ónotað, eða með öðrum orðum, þá missa menn kosningarrjett sinn. Jeg álít það mjög illa farið, ef þessi br.till. yrði samþykt. Hver einstakur kjósandi á að hafa svo frjálsar hendur sem frekast er unt, og það ákvæði, sem hjer er um að ræða, er í fullu samræmi við annað ákvæði í frv., nefnil. að hver kjósandi má strika út hvert það nafn, sem hann getur ekki felt sig við, á lista þeim, er hann kýs. Bæði þessi ákvæði miða að því, að gjöra kjósandann frjálsari og óbundnari um það, hvernig hann notar atkvæði sitt.

Br.till. við 6. gr. þykir mjer ekki máli skifta, en hallast þó heldur að stj.frv. einnig í því atriði. Sömuleiðis er jeg sammála hæstv. ráðh., að heppilegra sje að halda ákvæðum stj.frv. um atkvæðagreiðslu blindra og fatlaðra, því að hættara er við, að atkvæðasmalar misbrúki þá heimild, sem þeir kynnu að geta útvegað sjer til þess að aðstoða slíka menn við kosninguna, heldur en að kjörstjórnir misbeiti þeim rjetti, sem stj.frv. heimilar þeim í þessu efni, þótt það gæti einnig komið fyrir.