30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

64. mál, friðun æðarfugla

Steingr. Jónsson:

Mjer finst h. þm. Vsk. (S. E.) og h. þm. Ísafjk. (S. St.) gleyma því, hvernig málið horfir við fyrir dómaranum. Jeg er leiddur heim á bæ, og mjer sýndur þar dauður æðarfugl, sem einhver hefur hirt. Eftir frv. yrði jeg skilyrðislaust að sekta þann, er fuglinn hirti, í fyrsta sinn 5 kr., annað sinn um 10 kr. og þannig áfram, þangað til hámarki sektanna væri náð. Þetta yrði jeg alveg eins að gera, þótt maðurinn gæti fært óyggjandi sannanir fyrir því, að hann hefði fundið fuglinn dauðan — og jeg hef sýnt fram á með dæmum, að þær sannanir er oft hægt að færa. Þetta er ekki í samræmi við aðra löggjöf vora, og jeg vil, að í þessu máli sem öðrum, sje tekið tillit til fullra sannanagagna, þegar ákveða skal sekt eða sýknun mannsins.