30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

64. mál, friðun æðarfugla

Guðmundur Björnsson:

Jeg átti 8 brtill. við 2. umr. málsins: það var farið miklu ver með þær, en vant er að fara með sjálfan æðarfuglinn. Þó hafa þær tímgast furðu vel, því nú eru fæddar af reim 15 nýjar brtill. og margar svipaðar brtill. mínum. Jeg gæti því verið vel ánægður með áframhaldið, og sagt eins og þar stendur: „Brjánn fjell, en hjelt velli.“

Lítið eitt vil jeg þó minnast enn á hagnýting æðarareggjanna. Það er hjer eins og annarsstaðar, að „varðar mest til allra orða, að undirstaðan rjett sje fundin“. Undirstaðan, sem formælendur frv. byggja á, er þessi: Ef engin egg eru tekin og og enginn fugl drepinn af mannavöldum, þá hlýtur fuglinum að fjölga. Þetta sýnist vera orðið fullkomið trúaratriði þeirra, sem fyrir málinu berjast, og nú seinast kom það fram í ræðu hv. þm. Vsk. (S. E.). En hjer er ekki nóg að trúa, hjer þarf að leita sannfróðleiks, að jeg taki mjer í munn orð h. 2. kgk. (E. Br.) í öðru máli. Hjer eru ritningar, sem ekki er vanþörf á að rannsaka.

Jeg skal benda á eitt eftirtektavert atriði; það er andavarpið við Mývatn. Þar eru árlega tekin andaregg. Jeg hef ekki getað fengið fulla vissu um, hve mðrg, en heyrt hef jeg, að það mundi ekki vera undir 60,000 á ári. Hjer er um lítið svæði að ræða, nálega hverfandi í samanburði við allar Íslands strendur, og væri líklegt, að hjer sæi högg á vatni; að minsta kosti mundu andmælendur mínir fullyrða það, ef um æðaregg væri að ræða. En nú kemur fleira til greina en eggjatakan. Á haustin fljúga endurnar til sævar. Þær eru ófriðhelgar, og ekki hlífzt við að skjóta þær. Haldið þið nú ekki, að andarvarpið við Mývatn gangi fljótt til þurðar ? Jeg hef spurzt fyrir um þetta hjá h. 3. kgk. (Stgr. J.), og ægir hann mjer, að undanfarin ár hafi andavarpið aukizt við Mývatn, þrátt fyrir eggjatðkuna og andadrápið.

Jeg ætla enga ályktun að draga af þessu, en víkja að öðru. Æðarvarpsmennirnir geta brugðið mjer um vanþekkingu, og þeim er það ekki ofgott. En hjer kemur til greina eitt grundvallarlögmál náttúrunnar, það lögmál, að á hverjum ákveðnum bletti getur ekki lifað nema tiltekin tala einstaklinga, sjeu lífsskilyrðin að öðru leyti óbreytt. Þegar út yfir þau takmörk fer, tekur fyrir fjölgunina. Við skulum skoða þetta með dæmum. Bóndi á mátulega vetrarbeit fyrir 10 hesta, þótt vetur sje nokkuð harður. Ef hann nú setti 30 hesta á þetta beitarland, þá er hætt við, að eilthvað fjelli af hrossunum, og geri harðan vetur, á hann á hættu, að þau falli öll.

Ef alt sauðfje okkar væri látið lifa á útigangi, þá er það sjálfsagt öllum ljóst, að það væri miklum takmörkum bundið, hve margt þannig gæti lifað, og ekki mundi því fjölga sí og æ. Einstöku menn sýnast vera svo skammsýnir, að þeir sjái ekki, að líkt muni vera með æðarfuglinn, og það muni vera takmörkum bundið, hvað margir æðarfuglar muni geta lifað hjer við land vetrarlangt. Þó vil jeg ekki fullyrða, að ekki geti lifað hjer fleiri æðarfuglar en nú eru. Það mál er órannsakað, En athugavert er það, að um langan tíma hefur engin dýrategund hjer verið svo vernduð sem æðarfuglinn. Varplandið hefur verið friðað á allan hátt og verndað, fuglinn sjálfur friðhelgur að lögum, og bannað að selja eggin. En þrátt fyrir alt þetta, er ekki útlit fyrir, að þessu fuglakyni hafi verulega fjölgað. Verzlunarskýrslunar sýna, að dúntekjan muni því nær standa í stað. Þegar á alt þetta er litið, fer að vakna efi um, hvort hjer muni geta lifað öllu meira af æðarfugli yfir veturinn en nú er hjer. Þá kemur það til skoðunar, hvort ekki sje óskynsamlegt, að vera að takmarka enn meir hagnýting eggjanna. Öll þessi ströngu ákvæði eru bygð á þeirri óbifanlegu trú, að sje fuglinn verndaður nógu rækilega með friðunarlögum, þá muni hann geta fjölgað takmarkalaust. Þessir menn gera sjer ekki ljóst náttúrulögmál það, sem jeg nefndi áðan, það lögmál að öll fjölgun einstaklinganna er bundin þeim takrnörkunum, sem náttúran sjálf setur henni. Þetta er mjer ljóst, og því er jeg mótfallinn frv., eins og það nú er. Málið þarf miklu meiri rannsóknar við, en hægt er að gera hjer á þingi; því þyrfti að rannsaka það rækilega milli þinga, og fá til þess kunnáttumenn. Þá fyrst getum vjer vænzt þess, að fá skynsamleg friðunarlög.