30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

64. mál, friðun æðarfugla

Sigurður Stefánsson, framsögum.:

Umræðurnar hafa nú varað talsvert lengur, en jeg hafði búizt við, og skal jeg því vera stuttorður. Háttv: 3. kgk. sagði, að ef maður hefði votta að því, að hann hefði fundið fugl í neti, þá gæti hann sannað sakleysi sitt. En þá er eftir að sanna, að það hafi ekki verið af mannavöldum, að fuglinn flæktist í netið. Allir hljóta að vita, að það hefur mjög tíðkazt víða um land, að menn hafa beinlínis lagt net fyrir æðarfugl, engt fyrir fuglinn í netunum með niðurburði, ætu fyrir hann, og sagt svo, að hann hafi komið í netin án þeirra tilverknaðar. Síðan hafa þessir morðingjar gengið með heilar kippur af fugli og boðið hann til sölu og það hafa þeir sagt, að þeir hafi fundið fuglinn dauðan í netunum, en auðvitað þagað yfir hinu, að þeir hafa drepið hann með þessu móti. Þetta, að menn mega ekki einu sinni hirða dauðan æðarfugl, girðir fyrst með öllu fyrir, að menn geti að ósekju drýgt slík lagabrot.

Háttv. 6. kgk. vildi þakka sjálfum sjer óbeinlínis sumar af þeim brtill., sem fram hafa komið. Það getur verið að svo sje, þótt ekki þekki jeg hans mark á neinni —þeirra. En vera má, að brtill. þær, sem hann flutti við 2. umr., hafi vakið menn til umhugsunar um ýmislegt. Háttv. þm. V.-Sk. hefur svarað því, sem háttv. þm. var að tala um skilyrðin fyrir viðhaldi og fjölgun dýrategundanna. Jeg tel svar hans gott og gilt, en vil aðeins bæta því við, að náttúran klekur ekki að jafnaði út fleiri einstaklingum, en hún getur annazt. Þess vegna er ómögulegt, að gera nokkurn samanburð á ótömdum dýrum og húsdýrum að þessu leyti. Húsdýrin hafa mennirnir tekið undir vald sitt og vernd, þar er náttúran ekki lengur einráð. Svo sem kunnugt er, kemur það næstum árlega fyrir hjer og þar um landið, að bændur fella búpening sinn úr hor, en hreindýrin, sem ganga sjálfala hjer á Iandi, falla örsjaldan eða ekki nema í aftaka harðindum, — að minsta kosti hefur það komið miklu sjaldnar fyrir. Vanhöldin í náttúrunni eru miklu minni en í meðferð mannanna á dýrunum.

Jeg vil ennþá einu sinni endurtaka það, sem jeg áður hef sagt um eggjatökuna. Það er ekki eggjagjafirnar, sem jeg hræðist, heldur eggjasalan. Einmitt þess vegna aðhyllist jeg hið upphaflega frv. háttv. 5. kgk. þm. (B. Þ.). Það er óhrakið og óhrekjanlegt, að menn hafa selt egg í stórum stíl undir því yfirskyni, að þeir gæfu þau. Mjer dettur ekki í hug að drótta því ð varpeigendum, að þeir sjeu ekki skynsemi gæddar verur, eins og háttv. þm. Strand. (G. G. j var eitthvað að tala um. En margir vel skynsamir menn geta oft og tíðum verið næstum því ótrúlega skammsýnir menn, og litið fremur á stundarhagnað sinn, en framtíðarvelferð atvinnuveganna eða landsins.

Jeg er þakklátur háttv. 2. þm. N.-Múl. (E. J.) fyrir brtill. hans. Hann gaf ýmsar upplýsingar, sem jeg hygg að geti komið að góðum notum. En ef brtill. hans yrði samþykt, þá er jeg hræddur um, að eftirlitið með þessum lögum yrði mjög erfitt. Og hræddur er jeg líka um það, að varpeigendum reyndist sá maður torfenginn, sem trúa mætti fyrir þessum eggjaflutningi milli hreiðranna. Jeg er viss um, að ekki einn af tíu varpeigendum mundi eiga því láni að fagna, að hafa svo dyggum, gætnum og trúlyndum manni á að skipa, sem til þess starfs þyrfti. Annars getur vel verið, að þessi aðferð, sem háttv. þm. gat um, sje hið mesta happaráð aðeins óttast jeg, að slíkri hirðingin fylgi meira ónæði í varpinu, heldur en vera ber. Vera má líka, að hið sama eigi ekki við í öllum landshlutum; það heyrðist að minsta kosti af ræðu háttv. þm., að varphættir eru talsvert öðruvísi á Austurlandi, heldur en vestanlands og sunnan, því að þar er fuglinn venjulega alorpinn fyrst í júnímánuði.