30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

56. mál, sala á þjóðjörðinni Fossi í Suðurfjarðarhreppi

Hákon Kristoffersson, framsögum.:

Nefndin, sem skipuð hefur verið til þess að athuga þetta frv. hefur nú lokið störfum sínum. Hún hefur orðið á eitt mál sátt um það, að frá laganna hálfu sje því ekkert til fyrirstöðu, að ráðherra geti selt ábúandanum þessa jörð, og leggur hún því það til, að háttv. Ed, vísi málinu til stjórnarráðsins með meðmælum sínum. Jeg vona, að háttv. deild taki vel í þetta og sjái ekkert því til fyrirstöðu, að fallast á þessa tillögu nefndarinnar. Ef ábúandanum verður synjað um kaupið, verð jeg að álíta, að hann sje misrjetti beittur í samanburði við svo marga aðra leiguliða, sem keypt hafa ábýlisjarðir sínar á síðustu árum. Annars skal jeg ekki fjölyrða frekar um þetta mál, nema að svo kunni að fara, að það sæti mótmælum hjer í deildinni.