30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

93. mál, hallærisvarnir

Júlíus Havsteen:

Háttv. flutn.m. (G. G.) gat þess, að hann gæti búizt við, að mónnum mundi ekki geðjast að frv. þessu; og er þess sjálfsagt rjett til getið. Fyrsta ástæðan til þess er sú, að þetta er eitt að hinum mörgu frv., sem fer fram á að leggja nýtt gjald á menn. Það er komið svo, að ekkert þing er háð, án þess að á því sjeu samþykt 2 eða fleiri lagaboð, sem leggja nýja skatta á landsmenn. Jeg hygg, að menn telji sig hafa fengið meira en nógar álögur, og einhversstaðar verður staðar að nema. Gjald þetta er að vísu ekki mjög hátt, en þó getur það orðið full tilfinnanlegt að svara því út, þó ekki sje nema einni krónu, fyrir þá, sem hafa af litlu að taka og eiga í mörg horn að líta.

Jeg vil spyrja: hvað höfum vjer gert til þess að koma í framkvæmd lögunum fra 9. júlí 1909, um samþyktir um kornforðabúr til skepnufóðurs? Ekkert. Og að hvaða haldi hafa oss komið lögin frá 11. júlí 1911 um heyforðabúr? Víst að harla litlu. Hvorttveggju þessi lög voru sett til að koma í veg fyrir hallæri, og svona hafa þan verið hagnýtt. Ætli það væri ekki rjettara að reyna þau dálítið betur, en gert hefur verið, áður en farið er að draga fje út úr vösum alþýðu í sama skyni með nýjum lagaboðum? Háttv. flutn.m. (G. G.) gat þess sjálfur, að nú væru ýmsar varnir fengnar gegn hallæri, sem ekki hefðu verið áður. Má þar til nefna bættar samgöngur. Kringum 1880 fór ekki nema eitt skip kringum landið, og það ekki nema að sumarlagi. Og í þá tíð voru skipin miklu ragari í siglingum hjer við land en nú ; mátti svo heita, að þau hörfuðu undir eins frá, þegar þau urðu vör við ísjaka. Jeg tala ekki um tímann þar á undan, þegar það var ekki ótítt, að skip kæmu eigi til Norður- eða Austurlands fyr en í júnímánuði.

Jeg hygg, að nú sje svo komið, að varla þurfi mjög að óttast hallæri. Það væri annars ekki ófróðlegt að vita, hvað háttv. flutn.m, meina með hallæri.

Er það mannfellir eða skepnufellir eða hvorttveggja?

Jeg hef heyrt árin 1880–87 nefnd hallærisár, en það er ekki rjettnefni. Jeg var þá amtmaður yfir norður- og austur-amtinu, og mjer var vel kunnugt um hag amtsbúa minna. Jeg játa það, að vorið 1887 þrengdi töluvert að mönnum í þrem sýslum, en eiginlegt hallæri gat það ekki heitið. Vorið 1882 var fjarri því, að hallæri væri; það var kalt vor og illviðrasamt, er ísinn dreif að, en enginn sár bjargarskortur.

Það er engin sönnun fyrir hallæri, þótt hallærislán væru tekin. Það var orðinn siður undir aldarlokin síðustu, að grípa fljótt til hallærislána, ef eitthvað bar út af. Ef ekki fiskaðist á Suðurnesjum, þá var þaðan leitað hallærisláns. Svona gekk það þar, þangað til amtsráðið greip í taumana.

Hvernig sem jeg lít á málið, sje jeg ekki nauðsyn á, að taka það fyrir á þann hátt, sem það liggur fyrir í frv. Það sem næst liggur fyrir, er að nota lög þau, sem til eru, og gerð hafa verið til að sporna við skepnufeiti og hallæri, bæði lög þau, sem jeg nefndi áðan, og horfellislögin. Það er betra að hvetja menn til að hjálpa sjer sjálfir og venja þá á það, en að vera að safna fje í sjóð, sem svo er máske útbýtt án þess brýn þörf sje á. Slíkt elur fyrirhyggjuleysi upp í mönnum.

Fyrir norðan er til legat Jóns Sigurðssonar frá Böggversstöðum. Það má ekki til þess taka nema fyrirsjáanlegur mannfellir vofi yfir. Það hefur því í raun rjettri ekki verið hægt að nota neitt af fjenu; eigi að síður hefir verið veittur styrkur af því; en þá hefur því ær verið farið út fyrir ákvæði stofnskrárinnar.

Jeg tek það enn upp: Við ættum að gera eitthvað til að framfylgja þeim lögum, sem þegar hafa verið sett til að sporna við hallæri, áður en við förum að sinna þessu máli.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta meir, en hef gaman af að sjá, hvað nefnd sú, sem líklega verður skipuð í málinu, getur gert.