30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

93. mál, hallærisvarnir

Júlíus Havsteen:

Jeg hefði ekki staðið upp, ef h. 6. kgk. þm. (G. B.) hefði ekki talað persónulega til mín, um að jeg hefði ekki fengið skelli af hallærinu, og hefði því, af því jeg sat í góðri stöðu. ekki haft opin augun fyrir því, er gerðist í umdæmi mínu. Jeg ferðaðist þá, árið 1882, í eftirlitsferð um umdæmi mitt, austur á bóginn, frá Akureyri um Þingeyjarsýslur og Múlasýslur til Eskifjarðar, og vissi því vel, að þar var alt í bezta lagi og hvergi mjög vont ástand; það voru sumstaðar mislingar, nefnilega í Þingeyjarsýslu. Í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum vissi jeg, að enginn leið neyð.

Þessi hafíshræðsla hjá h. 6. kgk. þm. (G. B.), er alveg eins og hann haldi, að við stöndum á sama punkti nú, hvað skipagöngur snertir, og við stóðum um miðja 18. öld. Eða er h. þm. blindur fyrir framförunum ?

Þegar þessi h. þm. (G. B.) er að telja upp tjónið af hafísnum, þá gleymir hann alveg að geta um tekjur þær, er hann færir, en þær ber líka að telja. Þannig man jeg það, að 1882 rak á einum stað í Húnavatnssýslu 40 hvali, og það var miklu meira en Húnvetningar gátu torgað. Það var margra króna virði. Og það rak þá víðar hvali, á Eyjafirði, Tjörnesi og enn víðar. Og hafísinn var ekki svo mikill, að ekki væri hægt að stunda sjó fyrir honum.

Þetta ár ferðaðist jeg, eins og jeg áður sagði, um hálft Norðurland, og var þar heimilisfastur heimilisfaðir, og jeg er því ekki í efa um það, og það eru víst ekki heldur aðrir, að jeg fylgdi þá betur með því, er fram fór, en unglingar, er þá voru að alast upp og voru fyrir innan fermingu eða um það.

Hvað embættisfærslu mína snertir, þá liggur hún undir dóm annara en h. 6. kgk. þm., enda hlýti jeg ekki dómi hans þar um.