30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

93. mál, hallærisvarnir

Hákon Kristoffersson:

Jeg ætlaði aðeins að segja örfá orð, af því að jeg er einn af flutningsmönnum frumvarpsins. Jeg verð að lýsa því yfir, að mjer koma langar og miklar umræður á óvart, gagnstætt því, sem venja er til við 1. umræðu. Mjer kom ekki til hugar, að ekki væru margir og .stórir gallar á frv., og jeg ætlaðist til, að þeir yrðu lagaðir í nefnd, en bjóst ekki við, að það yrði gert við 1. umr. Þessar umræður gera það að minsta kosti varla. Jeg get tekið undir með háttv. þm. V.-Sk. um það, að mjer er skatturinn þyrnir í augum, þótt jeg hafi ekki gert ágreiningsatkvæði, í von um, að samkomulag komist á síðar. Mjer skildist á háttv. síðasta ræðumanni, að hann legði áherzlu á, að skatturinn á eigi að renna í landssjóð, en jeg get ekki betur sjeð, en að einu gildi, hvert skatturinn rennur. Hann verður að gjaldast eigi að siður. En slíkur skattur sem þessi getur orðið til mikillar blessunar, en athugavert er, hvort hann er ekki of hár, þótt hann sje aðeins 1 króna á karlmann og 60 aurar á kvenmann.

Þingmönnum ætti að vera bezt kunnugt um það, að nú þegar hvíla svo miklir skattar á þjóðinni, að varlega verður að fara í nýjum skattaálögum. Það er líka mín skoðun, að nefskattur sje í flestum tilfellum óeðlilegur, því hann kemur jafnt niður á fátækum og ríkum.