30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

24. mál, siglingalög

Sigurður Eggerz, framsögumaður:

Á Alþ. 1909 var samþykt í Nd. þingsályktunartillaga um að skora á stjórnina að semja og leggja fyrir næsta alþingi frumvarp til laga um sjómensku á íslenzkum þilskipum, er stunda fiskiveiðar eða flutninga með ströndum fram. Stjórnin lagði síðan fyrir næsta alþingi (1911) frumvarp til siglingalaga, og var það þýðing á hinum dönsku siglingalögum frá 1. april 1892. Neðri deild alþingis skipaði nefnd í málið, og fjekk hún Jón prófessor Kristjánsson sjer til aðstoðar og benti hann á ýms atriði, sem mikillar lagfæringar þurftu. Var því álinu með rökstuddri dagskrá vísað aftur til stjórnarinnar til ýtarlegri athugunar. Stjórnin lagði síðan frumvarpið að nýju fyrir síðasta þing. Málið varð ekki útrætt, en nefnd sú, sem kosin var til að íhuga það, gerði á því nokkrar breytingar, sem stjórnin fjelst á, og lagði hún því næst frumvarpið þannig breytt fyrir alþingi í sumar.

Frumvarp það, sem hjer liggur fyrir, snertir lítið þá hlið siglinga, er að hinu opinbera veit, enda eru um það efni ýms sjerstök lög, svo sem lög um skrásetning skipa frá 13. desbr. 1895, um mæling skipa tilsk. frá 25. júní 1869, um eftirlit með skipum lög 22. oktbr. 1912, lög um atvinnu við siglingar 10. nóv. 1905, strandlögin frá 14. janúar 1876, og ennfremur lög um botnvörpuveiðar og siglingareglur. Um einkarjettarmálefni siglinga eru aftur á móti að eins til dreifð ákvæði, aðallega í farmannalögunum frá 22. marz 1890 og lögum um veð í skipum, frá 16. nóv. 1907; ennfremur má nefna gamlar tilsk., aðra um bodmerilán, frá 28. desbr.1792 og hina um „respondentia“ frá 14. desbr. 1794 og ýms önnur dreifð ákvæði, svo sem um árekstur skipa í lögum 9. septbr. 1899. Um ábyrgð útgerðarmanna á gerðum skipstjóra og skipshafnar eru engin ákvæði, og ekki um skipstjórasamninga og skyldur skipstjóra. Ennfremur vantar reglur um farmsamninga og farmskírteini, um sameiginlegt sjótjón (Groshaveri) og um skaðabætur fyrir ásiglingar. Úr þessu er bætt með því frumvarpi, er hjer liggur fyrir. Þar er safnað saman í eina heild öllum reglum um einkarjettarmálefni siglinga. Þetta er að vísu mikilsvert, en þó er hitt aðalatriðið, hvernig lögin eru úr garði gerð. Viðfangsefni. löggjafans hjer er allerfitt, því hjer verður að gefa lög, bæði um kaupsiglingar og um fiskiveiðar, sem eru mjög ósamkynja atvinnugreinar. Um kaupsiglingar eru til ýmsar alþjóðarreglur, og verðum vjer eigi síður en aðrar þjóðir að sníða löggjöf vora á þessu sviði eftir þeim. Virðist nefndinni ákvæði frumvarpsins um þetta efni vera fullnægjandi. Mörg þessi ákvæði eru mjög mikilsverð fyrir oss, hvort sem vjer siglum eða ekki siglum, sjá þar til nefnd ákvæði í 6, kafla um flutningssamninga. Ákvæðin um farmskírteini (conossement) taka til alls viðskiftalífs vors.

Það virðist og, sem áhugi sje að vakna hjá íslenzku þjóðinni um að taka kaupsiglingarnar í sínar hendur, og rætist nokkuð úr þeim áhuga, sem vjer allir munum óska, þá er því eigi þörf á lögum þessum. Örðugra er aftur á móti að samrýma kaupsiglingarreglurnar við ákvæðið um fiskiveiðarnar. Að vísu eru nú æðimargar sameiginlegar reglur, sem gilda um allar siglingar, og á því svæði virðast ákvæði frumvarps þessa vera fullnægjandi, en aðalvandinn er, að gæta þess, að setja ekki ákvæði í lögin, miðuð aðallega við kaupsiglingar, sem geti orðið fiskiveiðunum að skaða. Þar sem slík ákvæði hafa komið fyrir, hefur við undirbúning frumvarpsins verið reynt að laga þau eftir hinum sjerstöku kröfum um fiskiveiðarnar.

Jeg vil í þessu sambandi minna á, að skip, sem sigla milli landa, verða að hafa leiðarbók, en um þær eru mjög strangar reglur. Mundi það valda óþægindum fyrir skip, sem stunda fiskiveiðar eða ganga milli hafna innanlands, og því er ákveðið, að þau skuli aðeins halda dagbók. Nefndin lítur yfir höfuð svo á, að í þessu frumvarpi sjeu margar reglur til stór hagsmuna fyrir fiskiveiðarnar og engar, sem geta gert þeim skaða, en er hinsvegar ljóst, að ástæður geta verið til að setja ýmsar sjerstakar reglur fyrir fiskiveiðarnar, en til þess að undirbúa slíkar reglur, þarf menn, sem sjerþekkingu hafa á því máli. Ef þetta frumvarp verður að lögum, mun reynslan skera úr því, hvort í „þeim eru nokkur ákvæði fiskiveiðunum til tjóns og fari svo, verður að undanskilja fiskiveiðarnar frá þeim.

Þá mun og reynslan leiða í ljós, hvort fiskiveiðarnar þurfa ítarlegri reglur, og hvernig þeim yrði varið.

Þar eð í frumvarpinu eru, eins og nú hefur verið skýrt frá, ýms ákvæði, sem eru til stórbóta, bæði fyrir kaupsiglingarnar og fiskiveiðarnar, ræður nefndin háttv. deild til að samþykkja frumv. með þeim breytingum, sem hún hefur lagt til að á því yrðu gerðar.

Frumvarp þetta er í 13 köflum. 1. kaflinn er um skip. Samkv. 1. gr. skulu þau skip teljast íslenzk, sem eiga heimili á Islandi og að 2/3 hlutum minst eru eign manna, sem heimili eiga á Íslandi eða í Danmörku, eða eru þar innbornir, án þess að vera ríkisborgarar annarsstaðar. Við 1. gr. hefur nefndin gert þá brtill., að um hlutafjelög verði sett það ákvæði, að hver stjórnarnefndarmaður skuli fullnægja ofangreindum skilyrðum um heimilisfestu eða rjett innborinna manna, enda sje aðsetur stjórnarinnar og heimilisfang fjelagsins á Íslandi. 2. kafli er um rjettindi yfir skipum. Tekur kaflinn ekki einungis til eignarrjettar, heldur einnig veðrjettar, haldsrjettar og annara takmarkaðra hlutarjettinda. Þó eru sjólánsveð undanskilin. Um þau gilda miklu strangari reglur, en um annan veðrjett. Að því, er snertir stofnun og vernd þessara rjettinda, gilda sömu reglur og um fasteignir, að svo miklu leyti, sem því erður viðkomið.

3. kafli er um útgerð skipa. Eru þar ýms ný ákvæði, mjög þýðingarmikil, bæði fyrir fiskiveiðar og siglingar. Má þar einkum nefna reglurnar um sameign.

Samkvæmt núgildandi lögum getur hver sameigandi hindrað ýmsar nauðsynlegar ráðstafanir yfir skipum og með því bakað sameigendum sínum mikið tjón, en í frumvarpinu er það ákveðið, að um málefni útgerðarinnar skuli meiri hlutinn ráða, ef ágreiningur verður. Við þennan kafla hefur nefndin gert aðalbreytingartillögu sína, og er hún í því ólgin, að ef einhver sameiganda selur skipshlut sinn, skuli hver þeirra hafa rjett til þess að leysa hlutann til sín. Nefndinni þykir það óviðfeldið, að sameigendurnir skuli engu geta ráðið um það hverjir nýir menn gangi í fjelagsskapinn, en hinsvegar treystist hún ekki til að taka upp í frumvarpið ákvæði um forkaupsrjett, því það mundi leggja of mikil bönd á viðskiftalífið. Nefndin valdi því innlausnarrjettinn, sem ekki er eins varhugaverður í þessu efni. Hverjum sameiganda er því heimilt, að selja sinn hluta, en hinum er heimilt, að leysa hann til sín, ef þeir hafa gert það innan ákveðins tíma. Ef ekki fæst samkomulag, skal verðið komið undir mati og má það þó aldrei vera lægra en kaupverð það, sem hinn nýi eigandi greiddi. Hinsvegar fanst nefndinni engin ástæða til þess að ákveða, að matsverðið mætti eigi vera hærra en kaupverðið, því tilgangur ákvæðisins er ekki að stuðla að því, að sameigendur græði á kaupunum, heldur tryggja þá gegn sameigendum, er þeir telja sjer óheppilegri.

Þá kemur 4. kapítuli, um rjett og skyldur skipstjóra, og sje jeg ekki ástæðu til þess að taka neitt sjerstaklega fram um hann, Hjer er þó ein brtill., sem jeg vil minnast á, það er brtill. nr. 17 við 40. gr. Þar er farið fram á, að öll skip, sem eru yfir 12 tonn, haldi dagbók, en samkvæmt frv. hvílir sú skylda eingöngu á þeim skipum, sem eru yfir 30 tonn. Nefndin hefur gert þessa brtill. vegna þess, að henni er kunnugt um, að á Vestfjörðum eru mörg skip undir 30 tonn og er óviðurkvæmilegt, að þau þurfi ekki að halda dagbók. — 5. kapítuli er um skipshöfn. Þar eru flest hin sömu ákvæði og í farmannalögunum, en þó fer ráðning sjómanna hjer eftir óbrotnari reglum, og ákvæðið um viðskiftabækur sjómanna er felt burtu. Brtill. 34 við 75. gr., um að 12 tonn komi í staðinn fyrir 15 tonn, er í samræmi við brtill. við 40. gr. — Þá e r 6. kapítuli um skipsleigu. Jeg drap áðan á, hvað mikla þýðingu þessi kapítuli hefur. Hjer er aðeins átt við kröfurjettarsamning, ekki skipsleigu í venjulegum skilningi. Hjer eru ýms ný ákvæði. Áður var farið eftir hinum almennu reglum kröfurjettarins, en ekki tekið tillit til þeirra sjerstöku ástæðna, sem hjer eru fyrir hendi. Hjer hefur nefndin gert þá brtill. að farmsamningur komi í staðinn fyrir skipaleigusamningur. Ástæðan til brtill. er sú, að slíkir samningar eru aðeins kröfurjettarlegs eðlis. — 7. kapítulinn er um sjólán. Þau verða að vísu sjaldgæfari eftir því, sem samgöngurnar verða betri, en nefndinni þótti þó rjett, að sleppa ekki þessum kapítula vegna þess, hvað margir staðir eru enn þá símalausir hjer á landi. — 8. kapítuli er um sjótjón. Þau ákvæði, sem þar ræðir um, verður að byggjast á alþjóðlegum reglum. En jeg skal geta þess, að í connossementum er það venjulega tekið fram, að farið sje eftir York-Antverpen-reglunum. — Þá eru 9. og 10. kapítularnir, um tjón af árekstri og björgunarlaun. — Þess er getið í nefndarálitinu, að árið 1910 hafi verið gerður samningur um björgunarlaun 24 þjóða í Bryssel. Sá samningur er þó ekki enn staðfestur, og þótti því efndinni ekki ástæða, að taka hjer upp þær reglur, sem þar er farið eftir. En verði hann staðfestur, er sjálfsagt, að taka þær upp. — 11. kapítuli er um sjóveðrjett og fyrning á sjókröfum og sje jeg ekki ástæðu til að taka neitt sjerstaklega fram honum viðvíkjandi. — 12. kapítuli er um yfirsjónir skipstjóra og skipverja við skyldustörf þeirra o.fl. Hjer eru lík ákvæði og í dönskum lögum. Nefndin hefur gert gert brtill. nr. 116 við 270. gr. í greininni er ákveðið, að ef skipverjar krefjist skoðunargerðar, og það reynist við skoðunargerðina, að engin sæmileg rök hafr verið til þess að telja, að skipið hafi verið ósjófært, þá varði það 25–500 kr.. sektum eða fangelsi. Nefndin fer fram á, að sektirnar geti ekki orðið hærri en 100 kr. og að fangelsishegningin falli burt. Ástæðan til brtill. er sú, eð nefndinni þótti íhugunarvert, að hafa hegningarákvæðin svo ströng, að skipverjar fældust frá að neyta þess sjálfsagða rjettar síns, að heimta skoðunargerð, þegar þeir álitu, að hætta væri á ferðum. — Við 13. kapítulann hef jeg ekkert sjerstakt að athuga. Að lokum skal jeg geta þess, að Jón próf. Kristjánsson hefur mætt á fundum nefndarinnar, og á hún honum mikið að þakka. Hann er manna fróðastur í sjórjetti, og á frv. í þessari mynd, sem það nú er, að mörgu leyti rót sína og rekja til hans. Nefndin vill því ljá honum sínar beztu þakkir.