04.08.1913
Efri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

26. mál, sparisjóðir

Þórarinn Jónsson, framsögumaður:

. Frumvarp þetta hefur tekið nokkrum breytingum frá því, er nefndin gerði ráð fyrir, vegna þess, að aðalbreyting nefndarinnar, um umsjónarmanninn, var feld. Þessi atkvæðagreiðsla kom okkur meiri hluta nefndarinnar heldur að óvörum, af því að við höfðum skilið það svo, að allir nefndarmennirnir hefðu orðið sammála um, að reyna þá leið, sem nefndinni kom saman um. Það sem sjerstaklega vakti fyrir mjer, þegar um þetta var að ræða, var, að eftirlitið með sparisjóðunum yrði svo mikið verk, að það yrði ókleyft fyrir einn mann að koma því í gegn nema á mörgum árum, en hins vegar bezt, að lögin kæmu sem fyrst til framkvæmda. Ef umsjónarmaðurinn ætti því að koma lögunum í framkvæmd hvað eftirlitið snertir, þá yrði hann að fela það öðrum mönnum, eða þá aðferðakostnaður hans yrði mjög mikill. Jeg sje ekki ástæðu til þess, að fjölyrða frekar um þetta hjer, vegna þess, að engin breyting liggur fyrir í þessa átt, en vildi þó taka þetta fram, af því að við 1. umr. hreyfði jeg ekkert þessu atriði sökum þess, að jeg vildi ekki að fyrra bragði hefja máls á því, þar sem nefndin hafði öll orðið þarna sammála, eins og nefndarálitið ber með sjer. Atkvæðagreiðslan er því einkennilegri.

Á þingskj. 255 er komin fram brtill. um að fella burtu aðra málsgrein 13. gr. um víxla og sjálfskuldarábyrgðarlán. Nefndin getur ekki fallizt á þessa brtill., því hún fer í bága við þá skoðun nefndarinnar, að það sje fyrsta skylda sparisjóðanna að varðveita innieigendur fyrir tapi, eins og líka tekið er fram í 1. gr., þar sem sagt er, að ávaxta sparisjóðinn á sem allra tryggilegastan hátt, en ef brtill, verður samþykt, þá verður ekki sagt, að tryggingin sje í bezta lagi. Það má segja, að þegar sparisjóðir eru stofnaðir, að þá hafi sparisjóðsstjórnirnar nóga þekking á þeim, er biðja um lánin, og hún lánar þannig, að hún fari ekki lengra en svo, að lánin sjeu trygg, en þegar sjóðurinn stækkar og verkahringurinn vex og nýir stjórnendur taka við, þá má ekki vænta, að svo sje altaf.

Háttv. 2. þm. Árn. (J. J.) gat þess við umræðu þessa máls, að sparisjóður sá, er hann þekti mest og hann þá talaði um, hefði tíðkað það, að lána út á tilvonandi sjávarafla, og finst mjer sparisjóðurinn þar leggja út á hálan ís, og jeg vil meira að segja kalla það bíræfni að lána út á fiskinn í sjónum. Öðru máli væri að gegna, ef fiskurinn væri kominn á land. Setjum svo, að sparisjóður þessi láni 20 mönnum sínar 500 krónurnar hverjum, það verða alls 10,000 krónur upp á 6% vexti, í stað þess að lána þessa upphæð gegn fasteignaveðum með 4%. Á þessu græðir sparisjóðurinn vitanlega 200 kr. á ári, ef alt fer vel. En hann þarf ekki að fá nema tap hjá einum lántakandanum, 500 kr., til þess að allur ágóðinn og helmingi meira sje farið forgörðum. Sparisjóðurinn á hjer alt of mikið á hættu, og það er hin fyrsta skylda sparisjóðsstjórnanna, að gæta þess, að sjóðurinn tapi ekki. Sjóðirnir ávaxta oft ómyndugra fje, og jeg held, að ef gengið væri um á meðal innieigenda sjóðsins, þá vildu þeir heldnr lága en trygga vexti, heldur en háa og ótrygga. Eins er það, að ýmsir sparisjóðir skulda bönkunum, og ef bankarnir þurfa að fá fjeð, þá mega ekki sparisjóðirnir hafa það alt í ótryggum lánum, heldur verða að hafa fje til staðar. Sama er að segja um það, ef stærri inneignum væri sagt upp. — Jeg er ekki að tala um það, að geyma peningana arðlausa á kistubotninum, heldur aðeins að tryggja innlagsmenn sem bezt. Póstsparisjóðirnir á Englandi hafa verið notaðir stórmikið, og eru vextirnir þó mjög lágir, jafnvel 2%, en það er hægt að ná innieignum í öllum pósthúsum landsins, hvenær sem er, og tryggingin er áreiðanleg, stendur á bak við þess vegna gera menn sig ánægða með lága vexti.

Jeg tel, að það sje sjálfsagt, að hafa tryggingar sparisjóðanna sem beztar, og tel því óráðlegt, að samþykkja þessa breytingartillögu.

Á þgskj. 256 hefur nefndin borið fram breytingartillögu um, að 4. málsgrein 13. greinar falli burt, og er það afleiðing af atkvæðagreiðslunni um mál þetta hjer við 2. umræðu. Hin breytingartillagan á sama þingskjali er afleiðing af hinni fyrri.

Jeg vænti, að háttv. deild samþykki frv. með þessum breytingum á þgskj. 256.