04.08.1913
Efri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

26. mál, sparisjóðir

Eiríkur Briem:

Um breytingartillöguna á þgskj. 256, vildi jeg segja nokkur orð, þó að h. frsm. (Þ. J.) gerði mikið góða grein fyrir athugasemdum nefndarinnar um hana.

Að ýmsu leyti, jafnvel flestu leyti, get jeg verið samþykkur flestu af því, er hv. 2. þm. Árn. (J. Jónat.) tók fram, en það er þar við að athuga, að það á ekki heima um sparisjóði. Hjer er um tvenskonar stofnanir að ræða; annarsvegar eru þær stofnanir, er aðallega hafa fyrir augum að útvega mönnum lán, það eru einskonar bankar í smáum stíl, og þeir gætu komizt hjer á fót samhliða sparisjóðunum en eftir því em lagt er í merking orðsins sparisjóður, bæði erlendis í tilsvarandi orð, og einnig hjer á landi, þá er það hlutverk sparisjóðanna, að ávaxta fjeð á sem tryggilegastan hátt. Tryggingin er aðalatriðið, og þeir, sem leggja inn í sjóðinn, eiga að hafa vissu fyrir því að fjeð sje altaf trygt. Hitt er rjett, er hv. 2. þm. Árn. (J. Jónat.) tók fram, að víxlar og sjálfskuldarábyrgðarlán geta verið trygg, en það er undir kunnugleik stjórnendanna komið, og til jafnaðar eru veðin betri og hægra að hafa eftirlit með þeim. Og samkvæmt 1. gr. eru sparisjóðirnir skyldir að ávaxta fjeð á sem tryggilegastan hátt, og aðrar stofnanir ekki nefndar sparisjóðir, en þær, er fullnægja ákvæðum þessara laga, og í 25. gr. er gert ráð fyrir, að þeir geti geymt ómyndugra fje um stundarsakir. Það ákvæði stendur í sambandi við þetta.

Menn mega ekki láta það villa sjer sjónir, að það stendur öðruvísi á, fyrst þegar sparisjóðir eru nýstofnaðir og meðan þeir eru litlir, heldur en síðar. Þeir, sem stofna þá, taka ástfóstri við afkvæmi sitt, og reyna að efla og tryggja það sem allra bezt, og á meðan sjóðurinn er lítill, geta þeir stjórnað honum með mikilli nákvæmni, enda þekkja þá nánar lántakendurna og ábyrgðarmennina. Oft eyða þeir líka miklum tíma og fyrirhöfn í þetta fyrir ekkert. Öðru máli er að gegna, þegar sjóðirnir stækka, þá koma aðrir menn að stjórninni, sem máske láta sjer ekki eins ant um sjóðinn og stofnendurnir, og verkið og starfssviðið er orðið stærra, svo að stjórnendurnir geta ekki þekt lántakendurna og ábyrgðarmennina, nema meira eða minna af afspurn, og lánin verða því ekki eins trygg, í stórum sparisjóðum er það því erra viðureignar að sjá um, að lánin sjeu öll trygg, og ákvæði um sparisjóði eigi ekki við aðrar útlánsstofnanir.

Sjóðir, er hafa aðallega fyrir sugum lánveitingar, eru ekki sparisjóðir eftir því, sem það er skilið. Sparisjóðirnir lána jafnaðarlega út á lægri vexti, vegna þess, að þeir heimta meiri tryggingu og geta ekki ávaxtað fje sitt, svo að þeir eigi neitt á hættu. Það er líka meira erfiði, að lána fje móti víxlum og sjálfskuldarábyrgðum, einkum til stutts tíma.

Það er rjett, er háttv. 2. þm. Árn. (J. J.) tók fram, að það er oft lítil trygging í því, þó að veðrjettur sje látinn með ábyrgðinni; þriðji veðrjettur t. d. er oft lítils virði. En nefndin vildi samrýma þetta sem allra bezt, og vildi ekki leggja meiri hömlur á starfsemi sparisjóðanna, en óumflýjanlega nauðsynlegt væri. Og jeg sje ekki, að það sje hægt að fara lengra í þessu efni, en nefndin gerir, og ef veðin eru notuð eingöngu til þess að reyna að fara í kringum lögin, þá ætti það að koma fram við eftirlitið, og verða þá kipt í lag.

Jeg lít svo á, að það sje hið minsta, er nefndin hefur krafizt, og er stundir líða fram, þá verði heimtuð meiri trygging, en þá ættu líka að koma á fót aðrir sjóðir, er hefðu það hlutverk, að útvega innleggendum sem hæsta vexti og veita lán, og þeir ættu að veita stuttu lánin til sjómannanna, er háttv. 2. þm. Árn. (J. J.) talaði um, en ekki sparisjóðirnir.