04.08.1913
Efri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

26. mál, sparisjóðir

Sigurður Eggerz:

Ögn stutta athugasemd.

Vegna þess, að jeg er einn þeirra manna, er flyt brtill. á þingskjali 255, vildi jeg gera grein fyrir ástæðum mínum.

Sem endurskoðandi hef jeg haft nokkur kynni af sparisjóði. Mjer þótti fyrst vera of mikið af ábyrgðarlánum, en reynslan hefur sýnt mjer, að engin vissa er fyrir, að fasteignarlánin sjeu yfirleitt tryggari en ábyrgðarlánin. Það verður að gæta að því, að flestar jarðir eru festar með 1. veðrjetti í bönkunum, og ef farið er að lána út á 2. og 3. veðrjett, þá er oft lítil trygging að því. Sjerstaklega vil jeg taka það fram, og leggja áherzlu á það, að jeg tel 2. veðrjett í húseignum út um land einhver hin ótryggustu veð, sem hægt er að fá.

Yfirleitt tel jeg það athugavert, að ákveða, að ekki megi lána einhverjar sjerstakar tegundir lána, og jeg tel heppilegast, að sparisjóðsstjórnirnar geti ráðið því sjálfar. En ef reynslan sýnir, að það sje heppilegt, að ákveða svo, þá er á sínum tíma að athuga það.

Það tel jeg mestu skifta í frumv. þessu, að nægilegt og tryggilegt eftirlit sje haft með sparisjóðunum, og það tel jeg að ekki geti orðið á annan veg, en að sjerstakur eftirlitsmaður sje hafður með þeim. Þá tel jeg einnig trygging allmikla fólgna í því, að nokkuð af varasjóðnam sje fólgið í verðbrjefum eða lagt inn í trygga banka, en auðvitað má ekki binda of mikið fje sparisjóðanna. Til sveita er oft mikil þörf á smálánum og lítið um veð, og er því ekki hægt að grípa til annara trygginga en ábyrgðanna. Öll bönd á viðskiftalífinu eru altaf mjög athugaverð.

Jeg vil að lyktum mæla með því, að brtill. á þgskj. 255 verði samþykt.