06.08.1913
Efri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

25. mál, sjódómar og réttarfar í sjómálum

Guðm. Björnsson, framsögumaður:

Það er óþarfi, að fara mörgum orðum um þetta mál. Frumvarpið er lagt fyrir alþingi af stjórninni eftir áskorun síðasta þings, og fylgja því ljós og greinileg rök, sem óþarfi er að hafa upp aftur hjer. Okkur Reykvíkingum er, fremur flestum öðrum landsmönnum, kunnugt, hversu nauðsynlegt þetta nýmæli er. Til þess að dæma sjómál, þarf menn, sem sjerþekkingu hafa á siglingamálum, en þessa sjerþekkingu hafa hinir venjulegu dómarar ekki nærri altaf. Sjóferðaskýrslur eru hvergi nærri í svo góðu lagi, sem skyldi, og á síðustu tímum hefur það viljað brenna við, að tjón, sem orðið hefur á skipum og mönnum, hefur ekki verið rannsakað svo vel, sem æskilegt hefði verið. Nefndin ræður því til, að frumvarpið verði samþykt, en leggur til, að á því verði gerðar nokkrar breytingar, sem flestar eru að eins orðabreytingar og miða að því, að gera fyrirmælin ljósari. Jeg ætla nú að minnast með nokkrum orðum á þær af breytingartillögum nefndarinnar, sem ekki eru orðabreytingar. 1. brtill., a-liður, er um það, að í staðinn fyrir „sveitir“ komi „þinghár“. Nefndin lítur svo á, sem orðið „sveit“ hafi enga ákveðna merkingu í íslenzku lagamáli, og leggur því til, að í þess stað verði notað orðið þinghá, sem á við nákvæmlega tiltekið svæði. Þá er b-liðurinn að í staðinn fyrir „sveitastjórna þeirra“ komi „bæjarstjórna, hreppsnefnda og sýslunefnda“. Með orðinu sveitastjórn er í íslenzku lagamáli átt við hreppsnefndir og bæjarstjórnir, og er því lagt til í c-lið að fella burtu orðin: „eða bæjarstjórna“ sem óþörf Þa kemur d-liður, og vil jeg um leið athuga g-lið, því báðar þessar brtill. stefna að því sama, nefnilega að gera orðalagið ljósara, Í d-lið er farið fram á, að á eftir: „Ráðherra skipar sjódómsmenn“ komi: „í tiltekinni röð“. Þegar á sjódómi þarf að halda, þykir rjett að hjeraðsdómari gangi á röðina, svo að starfið komi jafnt niður á öllum sjódómsmönnum, og breyti ekki út af röðinni, nema nauðsynlegt sje vegna þess, að sjerstakrar þekkingar þurfi við, sem annar hefur en sá, sem næstur er í röðinni. Þetta hyggur nefndin, að verið hafi tilgangurinn í framvarpinu, en álítur, að það komi ekki nógu skýrt fram, og leggur því til, að þessum orðum verði bætt inn í til skýringar, og að upphafi 5. málsgreinar verði breytt á þann hátt, sem farið er fram á í g-lið. 2. brtill. um að fyrir: „muni rækja“ í 4. gr. komi: „skuli rækja“, er aðeins orðabreyting. Svo ætla jeg að minnast lítið eitt á 3. brtill. b-liðs. Nefndinni fanst ástæðulaust að taka það fram, að dómari skuli ekki fá neina sjerstaka þóknun, ef meðdómsmenn eiga heima innan sama þorps, kaupstaðar eða kauptúns, sem dómurinn er háður í. Ef þeir eru búsettir annarsstaðar, er sjálfsagt, að greiddur verði venjulegur kvaðningskostnaður. Nefndin leggur því til, að þetta ákvæði verði felt burtu. Um c-lið skal jeg taka það fram, að nefndin álítur, að hjeraðsdómara beri ekki að kalla saman meðdómsmenn, fyr en eitthvað þarf að gera; en ef hann veit um eitthvert rjettarhald, að þar aðeins verði lögð fram skjöl, þá beri honum ekki að kalla meðdómsmennina saman. Breytingartillaga nefndarinnar er aðeins orðabreyting til þess að gera meininguna greinilegri. Aðrar breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði, eru allar orðabreytingar. — Eins og stjórnin segir í athugasemdum sínum, er frumvarpið sniðið eftir sjódómslögum nágrannaþjóða okkar, þar sem reynsla er fengin fyrir því, að þetta fyrirkomulag gefst vel, og má vænta þess, að sama verði niðurstaðan hjer hjá oss. Nefndin vill því ráða háttv. deild til þess að samþykkja frumvarpið með þeim breytingum, sem hún hefur borið upp að á því verði gerðar.