02.08.1913
Efri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

93. mál, hallærisvarnir

Einar Jónsson:

Gott er að eiga sjóð til að bæta kjör manna, ef að hallæri kemur, en það er erfiðleikum bundið, að koma slíkum sjóð á fót, svo að það sje ekki tilfinnanlegt, en það gæti þó máske orðið tilfinnanlegra, ef að sjóðurinn væri ekki til.

Í frv. er tvent tekið til ráðs til að stofna og efla sjóðinn; annað ráðið er, að leggja. gjald á hvern mann 20 ára, hitt að auka það framlag með tillagi úr landssjóði.

Persónugjald er að ýmsu leyti athugavert. Með breytingartillögu nefndarinnar við 2. grein er ætlazt til þess, að engar undantekningar eigi sjer stað, og kemur því gjald þetta eftir tillögu nefndarinnar niður á hvern mann, sem er 20 ára að aldri, nema hann sje á sveitarframfæri; því að þá á að greiða gjaldið fyrir hann úr sveitarsjóði. Þetta getur orðið allþungt fyrir einstaka menn, þegar litið er á persónugjöld þau, sem eru fyrir: lög um gjald til prests og kirkju og ellistyrktarsjóðslögin. Og þegar þetta bætist við, þá getur það samtals orðið allmikill skattur á einstökum mönnum, og það einmitt oftar á hinum fátækari mönnum.

Jeg get nefnt dæmi þess, hversu þetta getur orðið þungt gjald. Í Kirkjubæjarsókn í Hróarstungu bjó fátækur bóndi, er átti tvö börn. Hjá honum voru foreldrar hans og kona hans og önnur amman. Af þessu fólki átti hann að greiða til prests og kirkju 15 kr. 75 aur. og var þó ekki fært upp kirkjugjaldið, eins og heimilt er og allvíða gert; þetta var lögákveðna gjaldið 1 kr. og 50 aura til prests og 75 aura til kirkju. En auk þess átti þessi bóndi að greiða til ellistyrktarsjóðs 2 kr. 25 aur.; hitt fólkið var eldra en 60 ára, eða undanþegið gjöldum af öðrum ástæðum. Eftir þessum lögum ætti hann að greiða 5 kr. 40 aura í viðbót. Ef þau hefðu þá verið á komin, hefði hann átt að greiða als 23 kr. 40 aur. Þetta dæmi er máske nokkuð skarpt, en það hefir komið fyrir og það getur framvegis komið fyrir. Ekkert af þessu fólki þáði af sveit, og varð hann því jálfur að standa skil á gjöldum þess alls. Sjálfur komst hann hjá því að þiggja sveitarstyrk, meðan jeg vissi til, en erfitt varð honum að komast af. Jeg hef nefnt þetta svona dæmi til þess, að sýna fram á, að persónugjöldin geta orðið æði þungbær; veit að vísu, að það muni vera fremur fátítt, að eins standi á sem hjer, en fyrir kemur það þó. Persónugjöldin verða og þungur skattur á vinnuhjúum í samanburði við kaup þeirra, sjer í lagi á vinnukonum, þegar þetta bætist ofan á annað. Kaup þeirra mun nú vera, þar sem mjer er kunnugt, 60–70 kr., og máske eitthvað af fatnaði sje hann enginn með í kaupinu, þá kann peningakaupið að vera upp að 100 kr. Nú er það svo, að fatnaður kvenna er alldýr, og dýrari að tiltölu en fatnaður karla, og er að jafnaði farið að sagast á árskaupið, þegar vinnukonan hefir fengið sjer það sem hún þarf til ársins af fatnaði: svo koma hin ýmsu skyldugöld, sem greiða verður af afganginum. Sumstaðar verða þær að greiða sveitarútsvar; gjald í prestlaunasjóð er 1 kr. 50, kirkjugjald 75 a., styrktarsjóðsgjald 75 a, og ef svo bætist við þetta hallærisvarnargjald 60 a., þá verða þessi föstu lögskipuðu gjöld 3 kr. 60 a. Þetta yrði nú það lægsta, því sumstaðar er kirkjugjald hærra, jafnvel 1 króna yfir lágmarkið. Þannig hefir kirkjugjaldið í Vopnafirðinum verið 1 kr. 80 a. á mann undanfarið.

Að vísu er það nokkru hærra, sem karlmenn verða að gjalda, en þó ekki að tiltölu við það, sem kaup þeirra er hærra en kaup kvenna; því að kaup vinnumanna er stundum meira en helmingi hærra en vinnukonu kaup, þar sem jeg þekki til; en þessi gjöld þeirra ekki 1/4 hærri. Þegar þessa er gætt, þá ætti þetta gjald, sem hjer á að leggja á konur, helzt að vera lægra en 60 aurar.

Nefndin bætir að vísu nokkuð úr með því, að leggja til, að gjaldið sje ekki fastákveðið persónugjald, heldur vill veita sveitarstjórnum heimild til að jafna því niður eftir efnum og ástæðum. Má búast við, að sveitarstjórnir noti sjer þessa heimild, þar sem þeim finst það hentara og sanngjarnara, og er það góð bót í máli. Þó er ekki víst, að allar sveitarstjórnir notuðu sjer heimild þessa, og væri því í til vill rjettara, að skipa svo fyrir, að víst ákveðið gjald væri greitt beint úr sveitarsjóði. En áður en það er gert, þyrfti þó að athuga, hvað mikil viðbót það mundi verða við aukaútsvörin. Þessi viðbót mundi sjálfsagt verða töluverð, og mönnum finnast til um hana, því að víðast þykja útsvörin fullhá, þótt ekki sje á bætt. Eigi að síður er rjett, að athuga, hvort ekki mundi bezt, að hverfa frá persónugjöldunum, og borga fjeð úr sveitarsjóði, eins og önnur gjöld hans. Annað það, sem á að auka sjóð þennan, er tillagið úr landssjóði. Því verður ekki neitað, að það er landsmál, er hallæri ber að höndum, og því rjettmætt, að seilast í landssjóð, þegar leita á varnar gegn því. En þó verð jeg að geta þess, að jeg er sammála h. 3. kgk. (Stgr. J.) um það, að það sje töluvert varúðarvert, að ganga mjög langt í því að búta landssjóð niður í smásjóði. Nú á þessu þingi er gengið alllangt í þá átt. Fyrst og fremst er hjer gert ráð fyrir, að hallærissjóðurinn fái úr landsjóði 19000 kr. árlega, landhelgissjóðurinn 5000 kr. styrktarsjóður kennara 2500 kr. og bankinn 100000 kr. Þetta alt skerðir landssjóð ekki lítið, og hlýtur að tefja fyrir ýmsum nytsemdar fyrirtækjum. Þó álít jeg það ekki bygt á minni rökum, að leggja fje í hallærissjóðinn, en hina sjóðina, því ð hann á að koma öllu landinu að verulegu haldi, þegar mest á ríður.

Það er auðsætt, að þessi sjóður verður að vera öflugur, ef hann á að geta bætt úr verulegu hallæri, og því á ekki skera tillög til hans mjög við nögl. Þó ætla jeg, að tillag úr sveitarsjóðnum eða frá einstaklingum, og einnig landssjóðstillagið mætti vera nokkru lægra, en til er tekið í frv.

Mjer er ekki fullljóst, hvernig á að skilja 16. gr. frv. Þar er það tekið fram, að ef sjereign einhvers hjeraðs hrekkur ekki til hjálpar í hallæri, þá megi stjórnarráðið með ráði hallærisvarnarstjórnarinnar veita því hjeraði bráðabirgðarlán af sameignarfje sjóðsins gegn veði í hallærisgjaldi hjeraðsins. Að sjálfsögðu á því að greiða fje þetta aftur í sjóðinn og sameignarsjóðurinn því fara sívaxandi. En jeg sje ekki nefnt, hvað gera eigi við vextina. Það á máske að skipa fyrir um það í hallærissamþyktum þeim, sem nefndar eru í 15. gr.

Ef nú kæmi svo mikið hallæri, að allur sameignarsjóðurinn eyddist, þá er það vitanlegt, að mörg ár mundu ganga til að endurgjalda honum lánið, svo hann kæmist í samt horf sem áður; en af því leiddi, að um þetta árabil gæti enginn sjereignarsjóður myndast fyrir sveitirnar.

Það yrði að eins sameignarsjóðurinn, sem magnaðist. Ef þetta er rjett skilið hjá mjer, að vel geti svo farið, að sveitirnar eigi engan sjereignarsjóð svo árum skiftir, þá vaknar sú spurning, hvort nokkuð eigi að ræða um sjereignarsjóð.

Enn gæti það og komið til mála, hvort eigi væri rjett að snúa öllu þessu upp í heimildarlög, og gefi hreppunum að eins kost á að stofna hjá sjer hallærissjóði, en heita þeim jafnframt tillagi úr landssjóði, ef þeir gerðu það. Vera má, að ýmsum þyki þetta ekki nógu ákveðið; en víst ætti það þó að geta vakið hreppana til umhugsunar, og vera þeim hvöt til fyrirhyggju. Og víst mun oss öllum koma saman um, að bezt væri af öllu, ef hægt væri, að glæða þann framsýnis- og fyrirhyggjuanda hjá landsmönnum, að hver og einn byggi svo vel um hag sinn, að ekki þyrfti að óttast stórhnekki af hallæri. Þetta væru beztu og tryggustu hallærisvarnirnar. Jeg get búizt við, að, ef samþyktarlagaleiðin væri farin, muni þykja gefinn of laus taumurinn, og ýmsir telji, að alþingi þurfi að vera eins konar fjárhaldsmaður landsmanna í þessu efni, og það muni sannast, að þjóðin muni síður þakka því fyrir afskifti þess af málinu. Hvað sem þessu líður, þá er þó vert, að athuga þetta atriði. Það var minzt á það síðast hjer í deildinni, að ekki væri rjett, að kalla annað hallæri, en þegar lífi manna væri háski búinn af matarskorti og því, sem honum fylgdi. Jeg er á þeirri skoðun, að fyr geti heitið hallæri, en hætt sje orðið viðheilsutjóni og líftjóni. Í orðinu sjálfu liggur ekki annað, en að halli ári, að það taki að harðna verulega um fyrir mönnum.

Árið 1882 og þar á eftir álít jeg að svo mikið hallæri hafi verið af náttúrunnar völdum, að sjaldan hafi meira verið; en menn voru betur undir það búnir en áður. Menn voru svo vel búnir undir harðærið 1882 frá árunum áður, að ekki varð af stórtjón eða harðrjetti þá í svip, þó að efnahagur versnaði að mun. En það get jeg vottað, að 1887 krepti verulega að fólki, þar sem jeg þekti til. Þá tók jeg tvær manneskjur heim á heimili mitt; hafði önnur þeirra fengið skyrbjúg, og hefði það hæglega getað kostað líf þess manns, ef hann hefði haldið áfram að lifa við sama aðbúnað. Þá sá megurð á mörgum, og bjargarskortur var verulegur, þótt eigi leiddi til manndauða.

Jeg er á því, að rjett sje og sjálfsagt að reyna að fyrirbyggja, að í líkt horf komist aftur eða þaðan af verra. Því er svo langt frá, að jeg sje því móthverfur, að eitthvað sje gert til að fyrirbyggja tjón af hallæri. Jeg er því með því, að málið fái fyrir það fyrsta að ganga til 3. umræðu.

Það, sem mest um varðar, er að sá hugsunarháttur komist inn hjá fólki, að hver og einn leitist við að sjá sjer og sínum borgið, og leitist við að vera viðbúinn að taka á móti óhöppum og harðindum. Og fyrir sveitabóndann verður einna mest undir því komið, að hann búi sig sem bezt undir veturinn, ekki sízt með góðum ásetningi á heyin. Sjálfsagt er heyásetning betri nú en fyrrum var, þó vantar mikið enn á, að vel sje. Eftir einu þykist jeg hafa tekið. Í harðindunum milli 1880 og 1890 og fyrst þar á eftir voru að jafnaði einstakir menn í sveit, sem áttu svo miklar heybirgðir, að þeir gátu hjálpað öðrum til stórra muna, og urðu þannig bjargvættir sveitarinnar. En síðan hefur það breyzt mjög, svo, að nú er varla nokkur maður í sveit, þar sem jeg þekki til, sem eigi eins miklar fyrningar, eins og áður átti sjer stað og geti því hjálpað eins, og þá, það eru aðeins einstakar undantekningar í því efni. Jeg get í þessu sambandi nefnt árið 1910, sem á austurlandi var eitthvert versta ár til sveita síðan harðindabálkinum ljetti af um 1890. Bati kom ekki fyr en undir miðjan maí, þá voru því ær allir að þrotum komnir með hey, enginn mátti heita aflögufær; þeir sem bezt voru staddir, voru að eins sjálfbjarga. Svona reyndist það í það sinn. Jeg veit ekki, hvað breytingunni hefur valdið; en auðsjáanlega þarf fyrirhyggjan fyrir því, að sjá búpeningnum fyrir nægum vetrarforða, að vera; hún er ekki orðin næg enn. Það verkefnið, sem liggur allra næst hendi, er að tryggja búpeninginn gegn fóðurskorti og horfelli; fyndust ráð til þess — og þau eiga að geta fundizt — þá er mjög dregið úr hallærishættunni. Nefndin vill með hallærissamþyktunum vekja þjóðina til umhugsunar um atvinnuvegi sína og áhuga á því, að tryggja þá sem bezt. Jeg er h. n. sammála um það, að mjög miklu skifti, að þessi áhugi geti orðið vel lifandi, og álít, að hann sje meira virði og meiri trygging í honum en nokkrum hallærissjóð.

Það er enginn vafi á því, að ef hallæri ber að höndum, þá muni landssjóður hlaupa undir bagga og leggja sinn skerf fram til að hefta það. Mundi það vera hagfelt, að landstjórnin hefði heimild til að taka lán, þegar svo bæri undir, til að bjarga þeim sveitum, sem verst yrðu úti, því að ekki er víst, að nægt fje sje jafnan fyrir í landssjóði.

Það er töluvert íhugunarefni, hvort rjett er að taka fje smátt og smátt úr landssjóði á þann hátt, sem frv. ætlast til; hvort eigi væri rjettara að verja þessari upphæð til nytsamra framfarafyrirtækja, og efla með því mótstöðukraft þjóðarinnar gegn hallærum. Mundi ekki vera eins heppilegt, að landssjóður legði fram í einu stóra upphæð, ef þörf krefði, en leggja þannig árlega fje fyrir? Jeg varpa þessu fram til íhugunar.