02.08.1913
Efri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

93. mál, hallærisvarnir

Guðmundur Björnsson, framsögum.:

Jeg er þakklátur þeim háttv. deildarmönnum, sem hafa talað svo rækilega og ítarlega um þetta mál og veitt því vo mikla athygli. Það sannar, að það er rjett, sem nefndin hefur haldið fram, að mál þetta sje mikilsvarðandi og þess vert, að það sje sem bezt íhugað.

Jeg veit, að það verður erfitt fyrir mig, að halda samhengi í því litla, sem jeg ætla að segja, og skal jeg því taka það, sem jeg ætla að svara, eins og mjer hefur borizt það til eyrna.

Háttv. 1. kgk. (J. H.) óttaðist, — og margir hafa sagt það sama við mig áður — að þessi sjóður mundi ala upp í mönnum fyrirhyggjuleysi. En þess ber að gæta, að hjer er að ræða um eitt af því, sem kallað er trygging á atvinnuvegum. Við höfum margskonar tryggingar, t. d. líftryggingu, og mætti þá eins segja, að þegar maður tryggir líf sitt, þá falli hann í þá freistni, að drepa sig, svo að ástvinir hans geti notið góðs af tryggingarfjenu. Líftrygging sjómanna ætti þá eins að hvetja sjómennina til þess að kasta sjer í sjóinn. Um heilsutrygginguna mætti — eftir þessum nótum — hugsa sjer, að hún gerði menn fyrirhyggjuminni um heilsu sina. En þessara öfga hefur hvergi orðið vart í heiminum. Ennfremur má minna á eldsvoða-tryggingu; við tryggjum hús vor gegn eldi og látum það ekki fæla okkur, þó að stöku menn ginnist af tryggingunni til að kveikja í húsum sínum. Í frumvarpinu er um að ræða atvinnutryggingu, og þar hygg jeg að þessi hætta sje hvað minst. Það getur sem sje aldrei komið til mála, að menn fái fulla tryggingu. Menn geta aðeins fengið. lítilsháttar bót á tjóninu, svo lítið brot af því bætt. Þessi lög leiða því engan í freistni, engin hætta á því, að þau suki fyrirhyggjuleysi. Sá ótti er alveg ástæðulaus.

Sami hv. þm. áleit rjettara að koma upp forðabícrum. Það er alveg satt; það er eitt af því, sem þarf að gera. En reynslan hefur sýnt, að það hefur gengið illa, mjög illa, að koma þeim á fót. Þau hafa því hingað til orðið að litlu liði. Nei, hjer verður að leita frekari ráða.

Hv. sami þm. áleit, að alment hallæri væri naumast hugsanlegt nú á tímum. Jeg vildi óska, að þetta væri örugt og engum efa bundið. En því miður er þetta ekki víst. Jeg held, að ef menn hugsa þetta mál með gaumgæfni, þá muni hver maður sjá, að það er enganveginn útilokað, að komið geti hallæri, sem baki þjóðinni, allri í heild sinni, ægilegt eigna- og atvinnutjón. Það hafa engar þær breytingar orðið í atvinnuvegum og búskaparlagi þjóðarinnar, sem hægt sje að byggja á þá trú, að hallæri geti ekki borið að höndum. — Hallærin geta komið, og koma oft á versta tíma. Hitt er satt, að þau koma oft misjafnlega hart niður á þjóðinni; í hverju hallæri verða sum hjeruð fyrir þyngri búsyfjum en önnur. En þó svo sje, þá bíður samt öll þjóðin jafnan baga af þeim.

Eitt af því, sem haft er á móti þessu frv“ er það, að samgöngur sjeu nú orðnar miklu betri en fyr á dögum. Satt er það. Skipagöngur eru nú tíðari en áður og gufuskip komin í stað seglskipanna. Og við höfum góða vegi og síma. En mjer er spurn: Er þetta næg trygging fyrir því, að aðflutningar geti ekki hindrast á vetrum, þegar verst gegnir, í hörðu vetrunum. Það mun enginn skynsamur maður neita því, að hjer geti lagzt ís að á útmánuðum og haldist fram á sumar. Þjóðin getur ekki treyst því, að þetta komi ekki fyrir. En hver vill ábyrgjast, að ísalög geti aldrei orðið svo mikil fyrir Norður- og Austurlandi, að þar verði algjör samgönguteppa — þegar verst gegnir. Vegirnir koma þá ekki að haldi. Jeg hef reyndar heyrt menn segja, að það megi flytja matbjörg á hestum norður í land í harðindum; en það er fjarstæða. Símar eru góðir meðan vegir eru færir, en annars eru þeir til þess eins, að aðrir geti fengið að vita um bágindin. (Sig. Eggerz: Að hvaða gagni koma þá sjóðirnir?) Það er alveg rjett hjá háttv. þm. Skfl., að sjóðirnir koma ekki að gagni við þessu, þótt til væru í hverri sveit; fólkið getur ekki jetið peninga. 4 þeirri hættu, sem stafar af samgönguteppu, er ekki hægt að ráða bót, nema annaðhvort með betri samgöngum eða meiri vetrarbirgðum, og það er einmitt ein af þeim sorglegu breytingum, sem orðið hafa hjer á síðustu árum, að haustbirgðir eru nú ekki nærri eins miklar og áður. Vil jeg um það efni vitna til þeirra hv. þm., sem eiga heima á Norðurlandi og Austfjörðum. Þetta hefur aflagast svo herfilega vegna þess, að menn vita af miðsvetrarferðinni og treysta á hana. Kaupmenn birgja sig ekki upp á haustin og eiga því miklu minni vörubirgðir við áramót en áður gerðust. Það getur lukkazt, að miðsvetrarskipið komist inn, áður en ís leggur að, en það getur líka mislukkazt. Þessi breyting á búskapnum og verzlunarháttunum getur orðið mjög hættuleg; en jeg skal ekki tala meira um þetta atriði að sinni. Jeg hef spurt marga menn um þetta atriði og altaf fengið sömu svörin: Ástandið er miklu verra en það var. Úr þessari hættu er aðeins hægt að bæta með frekari samgöngubótum, svo að allir hlutar landsins geti dregið að sjer nauðsynjar sínar jafnt vetur og sumar. En til þess þyrfti járnbrautir — hjeðan sunnan frá sjó og norður í land, (Júl Havsteen: Þær geta tepzt); það er alveg rjett, að járnbrautir geta tepzt. Þær geta tepzt eina klukkustund, hálfan dag eða í mesta lagi einn dag. Það hefir reynslan sýnt t. d. í Noregi, þar sem brautir þó eru lagðar yfir fjöll og firnindi.

Þetta atriði, samgönguteppan, er mál, sem þarf að ráða fram úr alveg út af fyrir sig. Hv. neðri deild hefir nú á prjónunum frumvarp, sem einmitt gengur í þá átt, að auka fyrirhyggju manna um vetrarbirgðir.

Háttv. 1. kgk. sagði, að hann vildi láta þetta mál bíða; og mjer skildist, að hann að vísu áliti það gott mál, en að það megi vel bíða. Það er satt, að sum mál eru svo vaxin, að þau þola bið, en aftur eru önnur þessháttar, að það er blátt áfram hættulegt, að láta þau bíða. Ef trygging væri fyrir því, að næstu harðindin vildu bíða, þá mætti þetta mál bíða. Ef engin hætta er á því, að óáran geti, þegar minst varir, valdið stórtjóni á atvinnuvegum vorum, þá má þetta mál bíða; en hver vill ábyrgjast, að ekki hljótist tjón af biðinni ? Jeg trúi því ekki, að nokkur hv. þm. vilji taka á sig þá ábyrgð. Þjóðin getur fengið stór áföll, áður en varir, þessvegna má þetta mál ekki bíða. Bíða ! bíða ! Það er búið að bíða langt of lengi. — Eftir móðuharðindin prjedikuðu allir beztu menn landsins um það, að fólkið skyldi bæta ráð sitt og auka fyrirhyggjuna, svo slíkt kæmi ekki fyrir oftar. En hvað hafði það að þýða? Ekkert. Allar ræður og skrif manna urðu til einskis. Eftir fáein ár, rjett eftir 1800, kom aftur hallæri, og þá varð aftur skepnufellir og bjargarskortur, Það getur verið stórhættulegt að láta þetta mál bíða. Mörg góð mál þola bið, en sum eru svo nauðsynleg, að þeim má ekki, skjóta á frest.

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. þm. N.-Múl. (E. J.) fyrir hina einkar greinilegu, rækilegu og fróðlegu ræðu hans. Hann mintist á nefskattinn, sem hjer væri verið að leggja á þjóðina. Jeg held, að það sje eitt af því, sem margir hafa mest á móti þessu frumvarpi, að hjer sje verið að leggja á nýjan skatt, ný gjöld á þjóðina. Þetta atriði er þess vert, að það sé íhugað betur. Jeg ætla ekki að fara að þreyta menn með tölum — þeim hv. þm., sem vilja koma heim til mín, get jeg sýnt það og sannað, að á árunum 1881 — 1883 hafi þjóðin beðið 2–3 milj. kr. tjón, og það mjög lágt reiknað. Það er þungur skattur, sem harðindaárin leggja á þjóðina, og það er spursmál, sem þarf að íhuga vel, hvort okkur er betra að láta reka á reiðanum og bíða stórtjón á atvinnuvegum vorum alt í einu, þegar minst vonum varir, eða að deila niður þessum tilkostnaði á góðu árin, svo að við stöndum ekki óviðbúnir þegar óhamingjuna ber að höndum. Jeg hygg, að enginn þurfi langan umhugsunartíma til að sjá, að hjer er ekki um nýja skatta að ræða, heldur útgjöld, sem þjóðin hefur alla sína lífstíð orðið að greiða í rykkjum, og þá orðið svo þung, að henni hefur legið við bana. Frv. vill koma í veg fyrir, að þessi útgjöld komi á hana eins og lausnargjald, sem lagt er á undirokaða þjóð. Hjer er farið fram á, að þjóðin kosti einhverju til þess að efla sjálfstæðisvarnir sínar, svo að hún eigi einhvers sigurs von, þegar ólánið steðjar að henni.

Þetta mál sætir sömu mótbáru, og jeg átti við að stríða, þegar jeg var að koma hjer á sjúkrasamlögum. Þá var sagt, að alþýða þyldi ekki nýja skatta, og það var erfitt að sannfæra menn um það, að ekki væri um nýjan skatt að ræða, heldur um það eitt, að deila niður sjúkdómskostnaðinum, og fá menn til að bera hver annars byrðar. Og fátæklingarnir fóru loksins að sjá, að þeim var hagur í að borga 12 kr. á ári fyrir heilsutryggingu — það geta þeir. Hitt geta þeir ekki, að borga 4-500 kr. alt í einu, ef veikindi ber að höndum. Þetta sáu þeir: þeir sáu veikindahættuna, hættuna á því, að þeir yrðu upp á aðra komnir, mundu missa sjálfstæði sitt. ef þeir yrðu fyrir miklum veikindum. Þeir sáu; að rjettara var að deila niður kostnaðinum og vera við óhöppunum búnir, Þessvegna eru sjúkrasamlög orðin svo afarvinsæl um allan heim, þessvegna munu þau líka verða vinsæl hjer á landi. Hjer er líkt ástatt, um það að ræða, að tryggja sig fyrir óhöppum, sem ekki koma nema einstöku sinnum og þá oft svo mikil, að allir efnalitlir menn geta ekki staðizt þau, ef enginn viðbúnaður er hafður. Einhver var að segja, að það væri hart fyrir bónda, að þurfa að borga 5 kr. 40 a. í hallærissjóð ofan á öll önnur gjöld. En það getur hann þó, ef hann vill. En jeg veit annað, sem hann getur ekki. Þegar strangur vetur kemur, og hann þarf helmingi meira fóður handa skepnum sínum en í meðalári, og svo vont sumar á eftir, svo að hann heyjar helmingi minna en vant er, þá þarf hann að fækka skepnum sínum um helming — minka bústofninn um helming. Það þolir hann ekki.

Þá var líka verið að segja, að það væri miskunnarlaust, að fara að klípa utan af kaupi vinnukonunnar, sem ekki hefur nema 75 kr. um árið, taka af henni 60 aura á ári ofan á alt annað. Samt ómar nú altaf í eyrum, að vinnufólki sje goldið miklu meira kaup en í gamla daga, en þeim mun meiri sje líka eyðslusemin. Ef ný gjöld eru lögð á menn, þá koma þau fyrst niður á óþarfa eyðslunni, því það fje, sem menn eyða í óþarfa, spara menn þó fyrst við sig, þegar að kreppir. Það stakk einhver að mjer miða áðan; þar er reiknað út, hvað heimtað er af vinnukonunni í prestgjöld, kirkjugald, ellistyrktarsjóðsgjald og hallærissjóðsgjald, og hvað halda menn það sje mikið? Það er ekki nema meðalverð á einu kvennslifsi. Og það sem heimtað er af vinnumanninum, er ekki nema það, sem svarar einu og hálfu tóbakspundi.

Þá var einhver háttv. þingmaður að tala um það, að varasamt væri, að taka fje úr landssjóði og láta það liggja aðgerðalaust í sjóði. Þetta er alveg rjett og slíkt má ekki og á ekki að gera, nema brýna nauðsyn beri til. En við skulum hugsa okkur, hvernig fer fyrir landssjóði, ef beðið er og beðið, ekkert aðhafzt í þessum efnum, og alt látið vera með sama gamla ólaginu. Gerum svo ráð fyrir; að hallæri beri að höndum. Jeg vona þó, að þið, herrar mínir, sjeuð svo stórlátir fyrir hönd landsins, að þið kunnið því ekki, að vjer förum aftur að lifa á sníkjum og bónbjörgum ytra, viljið heldur reita landssjóð inn að skinninu, en gerast ölmusumenn útlendinga. En landssjóður á nú alt sitt fje í útlánum, ekkert á reiðum höndum. Hann yrði þá að taka lán — og óvíst að það fengist — en ef það fengist, þá gæti afleiðingin orðið sú, að hætta yrði við öll framfarafyrirtæki um langan aldur.

Háttv. þm. N.-Múl. (E. J.) fór nokkrum orðum um sameignarsjóðinn, og sagði margt rjett um það efni. Það var minzt á það í nefndinni, hvort það væri ekki rjett, að miða þetta landssjóðstillag við tiltekinn tíma, eða þangað til varasjóður hefði náð einhverri tiltekinni upphæð. En við hurfum frá, að gera nokkur ákvæði þaraðlútandi, því að langur tími mundi líða þar til sjóðurinn væri orðinn það stór.

Þá hefur það verið sagt, að það gæti komið fyrir í ísárum, að sjereign hjeraðanna hrykki ekki til. Náttúrlega. En hvernig fer, ef engin sjereign er til? Er ekki betra, að eiga eitthvað til en ekki neitt? Og ef hjeruðin fá lán, er þá ekki betra, að hafa fast skipulag á, hvernig hjálpin skuli veitt, og hvernig lán skuli greitt aftur. Hvernig gekk milli 1880 og 1890? Lán voru tekin, sumstaðar án þess að þörf væri á þeim, og víða engin skinsamleg meðferð á lánsfjenu. Svo urðu sýslurnar að þræla árum saman sveittar og bognar fyrir endurgreiðslu lánanna. Jeg hef heyrt marga menn segja, að það hafi sumstaðar verið óhæfa, hvernig farið var að.

Háttv. þm. N. Múl. (E. J.) mintist á eitt atriði, sem ýmsir góðir menn hafa hugsað um, sem sje að búa til heimildarlög um hallærissjóð, leyfa sveitunum að leggja gjaldið á. Jeg bið menn vel að gæta þess, að heimildarlög hafa einn stórgalla. Og hver er hann ? Sá, að beztu sveitirnar eða beztu hjeruðin verða ein til þess að nota heimildina, en hin verða útundan, sem sízt mega án tryggingar vera. Þegar um nauðsynlega trygging er að ræða, hygg jeg, að allir sjái, hve ótækt það er, að þeir geti skorizt undan, er sízt skyldi. Alstaðar um heim kemur í ljós þessi megingalli á heimildarlögum, að þau eru eigi notuð af þeim, er mest ríður á að nota þau; þetta hefir sannazt á fræðslumálum. Það hefur líka sannazt um heilsutryggingar; þær hafa byrjað með frjálsum samtökum; síðan hefur ríkið stutt þessi samtök og loks hefur tryggingin verið gerð að skyldu. Þessar og aðrar alþýðutryggingar (slysatrygging, öryrkjatrygging, ellitrygging) eru beztu sjálfstæðisvarnir almennings nú á dögum.

Þá hefur það ómað um allar jarðir, að beztu varnir gegn hallærum væru, að ala upp í þjóðinni forsjálni, fyrirhyggju og sparsemi. Síðan á 18. öld hafa allir beztu menn þjóðarinnar prjedikað fyrir henni forsjálni, fyrirhyggju og sparsemi. En þær prjedikanir hafa þotið eins og vindur um eyru þjóðarinnar, — lítinn sem engan árangur borið. Er þjóðin svona heimsk, eða höfum við aldrei ratað á rjettu þrautaleiðina? Jeg svara þessu óhikað og segi: Þjóðin er ekki heimsk, en hún hefur farið villu vegar, ekki komizt á bezta bjargráðaveginn. Hver er hann ? Það er tryggingarvegurinn. Við vitum, að hús eru trygð gegn eldsvoða, skip gegn sjávarháska. En hitt er enn ókunnugra, að í öðrum löndum kaupir öll alþýða sjer nú orðið tryggingar gegn sjúkdómum, slysum, vinnuskorti og ellilasleik. Þar er fátæklingunum orðið ljóst, að tryggingarnar eru þeirra eini sanni og öruggi sjálfstæðisvegur.

Við tölum og skröfum mikið og margt um sjálfstæði? En hvaða sjálfstæði er bezt? Er það ekki bezta sjálfstæðið, að hver almúgamaður sje svo trygður, að hann geti staðizt þau bágindi, sem altaf koma fyrir í lífinu og þurfi þá ekki að vera upp á aðra kominn? Hitt sjálfstæðið, þjóðarsjálfstæðið, er stássmál hjá þessu. Hvað gagnar þjóðarsjálfstæðið, ef að mikill þorri þjóðarinnar er ósjálfbjarga sumingjar eins og á Rússlandi.

Háttv. þm. N.MúI. (E. J.) gat þess, að oftar væri hallæri, en þegar fólk fjelli. Það er alveg rjett. Annars sjest það vel á nefndarálitinu, hvað nefndin á við með hallæri. Hallæri er óáran, sem stafar af óviðráðanlegum orsökum.

Jeg get nú farið að ljúka máli mínu, því að háttv. 5. kgk. þm. (Stgr. J.) talaði í sömu átt og háttv. þm. N.MúI., svo að jeg þarf ekki að svara honum sjerstaklega. Jeg vil að síðustu biðja háttv. þingdeildarmenn, að renna sem skjótast augum yfir sögu þjóðarinnar. Líf hennar og starf hefur verið eins konar Sisyfusar-þraut. Þið kannizt við söguna af þeim ólánsmanni. Það voru hans örlög, að standa eilíft og endalaust í því stríði, að velta þungu bjargi upp háa brekku — og missa það einlægt aftur niður alla brekkuna. Íslenzku þjóðinni hefur farið líkt og Sisyfusi í þessari forngrísku sögu. Hún hefur oft komizt langt upp í brekkuna, en svo hafa einlægt þung og stór áföll velt henni ofan aftur. Það hafa komið góð ár, mörg ágæt ár, efnahagur hennar blómgvast, atvinna eflzt og aukizt, alt í lyndi leikið, en þá hafa hallæri og hörmungar dunið á henni, hafísar hafa girt fyrir aðflutninga, hörkur spilt gróðrinum, svo að það hefur alt gengið til þurðar, er safnað var á góðu árunum; alt horfið aftur í gamla farið.

Og enn verð jeg að biðja menn, að minnast eins: Það hefur áratug eftir áratug verið sagt við stjórnmálamenn þjóðarinnar: „Hættið þið þessu stórpólitíska gargi. Snúið ykkur heldur að atvinnuvegunum og hugsið um þá“. Þetta er alveg rjett. Atvinnuvegirnir, vöxtur þeirra og viðgangur, eru undirrót alls sjálfstæðis, grundvöllur þess. Og hvað leggja ekki aðrar þjóðir á sig til tryggingar lífi sínu og sjálfstæði. Miklu þyngri og stærri eru þær tryggingarkvaðir, sem hvíla á alþýðu í öðrum löndum, og hefur hún þó ekki meira á borð sitt að bera en íslenzk alþýða.

En þyngsta sjálfstæðistryggingin fyrir aðrar þjóðir er þó herkostnaðurinn. Hjer er verið að segja, að það sje varhugavert, að leggja á menn mikil fjárútlát til þess, sem ekki þurfi að nota nema einstöku sinnum. En einmitt þetta á heima um allan herkostnað. Herinn þarf ekki að nota nema einstöku sinnum. Tökum til dæmis Norðmenn. Norska þjóðin er ekki auðugri en vjer til uppjafnaðar. Auk allra annara gjalda kemur þar 8–9 kr. skattur á hvern mann, að meðaltali, til hervarnar. Það er sama sem nálægt því 800 þús. kr. skattur væri lagður á oss Íslendinga. En hjer, í þessu frumvarpi, er ekki um að ræða nema 60 þús. kr. skatt. Og þó eru menn að velta og víla það fyrir sjer, hvort þeir eigi að leggja þetta smáræði í sölurnar fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og framtíðarheill niðja vorra.