08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Jósef Björnsson:

Jeg hef ekki mikla ástæðu til þess að taka til máls, en jeg vil einungis geta þess gagnvart því, sem háttvirtur þingmaður Ísfirðinga sagði, „að þingmenn væru að pota inn á þingið alskonar eftirlauna póstum, enda þótt þeir þættust vilja afnema öll eftirlaun,“ þá get jeg ekki tekið þessi orð hans töluð til nefndarinnar, nje til mín, því hvorki hef jeg nje nefndin verið að flytja inn á þingið neina eftirlaunapósta hvorki fyrir landpósta nje aðra, og um engin eftirlaun er að ræða í frumvarpinu.

Þar sem háttv. þm. Ísafjarðar og fleiri háttv. þingmenn eru að halda því ram, að hjer sje um eftirlaun að ræða, þá verð jeg að halda fast við það, sem jeg áður hef sagt, og er alt hjal þeirra um þetta hinn mesti hjegómi og fjarstæða, því að það, sem hjer er farið fram á, er alt annars eðlis en eftirlaun. Hjer er að eins um það að ræða, að styrkja viðleitni manna, til þess að tryggja sjer hjálp í elli sinni, og þótt þessum lögum og ellistyrktarsjóðslögunum væri breytt á þá leið, að hver maður skyldi í elli sinni verða aðnjótandi styrks úr þessum sjóðum, þá væri hjer þó ekki um eftirlaun að ræða á þeim grundvelli, sem eftirlaun embættismanna eru bygð á, heldur væri það styrkur, sem mennirnir hefðu safnað sjer sjálfir eða saman sparað fje, sem þeir hefðu lagt til hliðar, og álít jeg rjett, að landssjóður styrki viðleitni þeirra í þessu efni. En þetta er í samræmi við kröfur þjóðarinnar um afnám eða breytingu á eftirlaunum, því um leið og menn hafa óskað þess, að eftirlaun væru afnumin, hafa þeir lýst yfir þeim vilja sínum, að embættismenn, sem nú njóta eftirlauna, væru styrktir af landssjóði til þess að safna sjer ellistyrk. Þetta hef jeg heyrt tekið fram aftur og aftur á þingmálafundum. Hvort af þessu verði kostnaðarminna fyrir þjóðina, skal jeg ekki þrátta um, en hitt er víst, að ellistyrkurinn kemur niður á alt annan og heppilegri hátt, en þau eftirlaun, sem nú eiga sjer stað, því að hans eiga aðeins þeir að njóta, sem þurfandi eru fyrir hann.