08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Hákon Kristoffersson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð, því að hv. þm- Húnv. hefur tekið flest fram af því, sem jeg vildi segja. En það sem hv. þm Strand. var að segja um eftirlaunablaður við kjósendur, get jeg ekki tekið til mín, enda mun hann hafa mælt það til þeirra, sem nær honum standa. Jeg hef ekki haft tækifæri til þess að vera með neitt eftirlaunablaður við kjósendur, nje yfir höfuð að tala neinskonar blaður fyr en þá á þessu sumri.

Jeg mótmæli því, að hjer sje um eftirlaun að ræða, því þótt svo sje ákveðið í lögunum, að ekkja og börn kennara skuli njóta styrks úr sjóðnum, ef þau þurfa hans með, þá er hjer um alt annað en eftirlaun að ræða, því þeirra njóta jafnt. þeir, sem þarfnast fyrir þau og hinir, sem ekki þurfa þeirra með. Verðugir og óverðugir. Góðir embættismenn og laklegir. Þetta mál á því ekkert skylt við eftirlaun. Þeir, sem eru málinu hlyntir, hljóta því að vera það, af því að sanngirniskrafa mælir með því, en ekki af þeirri ástæðu, að það eigi neitt skylt við eftirlaun.