08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vildi aðeins taka það fram, að það, sem jeg sagði um að það gleddi mig að þeir þm., sem þættust vilja afnema eftirlaun, en bæru svo fram annað eins frv. og þetta, yrðu sjer til athlægis og minkunar, það meinti jeg ekki til hv. deildarmanna minna eða hv. nefndar, því að jeg veit það vel, að frv. er ekki runnið frá þeim, heldur er það komið hingað frá hv. Nd.

Allir þeir, sem greiða atkv. með þessu frv., en segjast vera á móti eftirlaunum, þeir eiga þetta, er jeg sagði, því þeir sýna með framkomu sinni, að það er svo langt langt frá, að þeir vilji afnema eftirlaun, að þeir koma með ný eftirlaun, og jeg tel það gott, að fá þannig tækifæri til þess, að sjá, hversu hugur fylgir máli; það á helzt að sjást um aldur og æfi.

Og ekki fæ jeg sjeð, að það sje hægt að ganga lengra en hjer er gert, því frv. þetta er frá upphafi til enda nákvæmlega bygt á sama grundvelli og eftirlaunin. Það sýnir því ljóslega, að alt þetta glamur á móti eftirlaununum er eintóm heimska, fáfræði og ósamkvæmni frá upphafi til enda.