08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Steingr. Jónsson:

Háttv. þm. Barð. (H. K.) hefur sett mig í ljóta bobbann með brtill. á þgskj. 318.

Jeg gat þess við 2 umr., að jeg teldi víst, að ef Siglufjarðarsíminn yrði samþyktur, þá hlytu aðrar símalínur að koma á eftir, og hefði jeg vitað, að hv. þm. Barð. mundi koma fram með þessa brtill., þá hefði jeg talið mjer skylt, að koma fram með brtill. um símalínuma frá Breiðumýri til Húsavíkur.

Þegar búið er að samþykkja Siglufjarðarsímann, þá get jeg ekki verið á móti Patreksfjarðarsímanum, því eins og hefur verið tekið fram, þá gefur hann góðar tekjur, og hann hefur ákaflega mikla þýðingu fyrir fiskiveiðaviðskifti milli Suðurlands og Vesturlands, og því mjög ólíku saman að jafna við Siglufjarðarsímann, sem að miklu leyti er fyrir Norðmenn, er stunda þar síldveiði, og hefði því ekki verið nema eðlilegt, að þeir hefðu lagt fram fje til hans, enda býst jeg við, að svo hafi verið, þó jeg hinsvegar ekki viti það, af því jeg er ekki nógu kunnugur.

Jeg get því ekki annað, að svo komnu, en greitt atkvæði með Patreksfjarðarsímanum í þeirri von og í því trausti, að hv. Nd. felli báðar þessar símalínur, eða þá að hún bæti við öðrum þeim símalínum, er bera sig svo vel, að þær verðskuldi og eigi rjett á, samanborið við þessa síma, að verða í 1. flokki.

Annað tveggja af þessu á að gera, og í þeirri von að svo verði, greiði jeg atkvæði með breytingartilögunni á þingskj. 318.