08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jósef Björnsson, framsögumaður:

Það hafa komið fram mörg og hörð mótmæli gegn nefndinni frá ýmsum þingmönnum, og einkum frá háttv. þm. Ísaf. (S. St.) og háttv. þm. Strand. (G. G.), og verð jeg nokkuð að athuga mótmæli þessi.

Háttv. þm. Barðst. (H. K.) vil jeg að eins svara því, að hann hefur enn ekki rökstutt tillögu sína svo, að það sýni glögt, að rjett sje fyrir háttv. deild að samþykkja hana. Þetta hefði þó verið öllu þarfara en ummælin um, að jeg væri tillögunni mótfallinn, af því jeg hefði fengið mitt áhugamál fram, því að ummæli sönnuðu lítið. En það vil jeg segja háttv. þm. Barðst. (H. Kr.) og háttv. 6. kgk., (G. B.), sem tók í sama streng, að jeg skammast mín ekki fyrir það, þótt mjer sje áhugamál það, sem jeg álít rjett vera, hvort heldur er í þessu máli eða öðrum.

Bæði háttv. þm. Ísaf. (S. St.) og háttv. þm. Strand. (G. G.) þykir brydda á stefnuleysi hjá nefndinni, og tala jafnvel um, að hjer komi fram ný stefna, þar sem lagt er til, að Siglufjarðarlínan sje tekin upp í 1. flokk. Nefndin ber það fram máli sínu til stuðnings, að þessi lína gefi meiri tekjur en aðrar aukalínur landsins. Því hefði og mátt bæta við, að landssjóður hefur hjer lagt fram hlutfallslega minst an skerf (Stgr. J.) Þingeyingar lögðu tiltölulega meira til línunnar Breiðamýri-Húsavík). Eftir upplýsingum háttv. þm. (Stgr. J.) mun þar hafa verið um líka upphæð að ræða.

Jeg skal benda á, að þetta stefnuleysi nefndarinnar, sem háttv. þm. tala um, er ekki meira en svo, að það er í fullu samræmi við stefnu háttv. þm. sjálfra á síðasta þingi, þegar þeir voru með því, að Vestmannaeyjasíminn væri settur í fyrsta flokk. Háttv. þm. Strand. (G. G.) var í nefnd þeirri, sem lagði áherzlu á að taka Vestmannaeyjalínuna upp í fyrsta flokk, af því að hún gæfi svo miklar tekjur, og sama skoðun kom fram hjá háttv. Nd. og var glögt tekin fram af framsögumanni nefndar þeirrar, er um málið fjallaði þar, háttv. þm. Vestmanneyinga. Hvernig geta svo hinir háttv. þm. kinnroðalaust haldið því fram, að hjer sje verið að taka upp nýja stefnu. Jeg hef sýnt fram á, að nefndin vill fylgja alveg sömu stefnunni, sem síðasta þing, og þetta er ómótmælanlega rjett. Háttv. þm. Strand. (G. G.) kannaðist við, að Siglufjarðarsíminn gæfi góðar tekjur, en hann vildi halda því fram, að þær væru valtar, þar sem þær væru mestmegnis bundnar við veiðiskapinn, en fiskiveiðar væru breytilegar. Þessu neitar enginn, allir vita, að stundum aflast betur og stundum ver, og enginn nema háttv. þm. Strand. (G. G.) hefur víst heyrt mig halda því fram við 2. umr. málsins, að fiskiveiðar gætu ekki breyzt. eins og hann sagði og taldi heimsku. Þá heimsku má hann sjálfur eiga, hún er hans eigið afkvæmi. Og sje nú litið á þessar tvær línur, sem háttv. þm. Strand. (G. G,) var að bera saman, Vestmannaeyjalínuna og Siglufjarðarlínuna, eiga þær sammerkt í því, að tekjur þeirra eru mjög komnar undir fiskiveiðunum, og í því, að allmikið af brúttótekjunum eru tekjur af símskeytum til útlanda. Háttv. þm. Strand. (G. G.) sagði, að á Patreksfjarðarlínunni væru ýmsar góðar símastöðvar, og stæðu í sambandi við fiskisælar veiðistöðvar, og að samband þeirra við Suðurland væri þýðingarmikið. Þetta efar enginn, en geta ekki fiskiveiðar þar og sambönd miljónafjelagsins tekið breytingum? Um Siglufjarðarlínuna má með rjettu segja svipað um talsímastöðvar og veiðiskap; þar eru ýmsar góðar stöðvar og góðar veiðistöður, og þess er vert að geta, að tekjur af símasamtölum einum hafa verið á þriðja þúsund krónur síðastliðið ár á Siglufirði einum, auk allra annara stöðva á línunni; er það eigi svo lítil upphæð, þótt það sje að vísu minstur hluti af brúttótekjunum, sem eru 11–12000 krónur. Það er sjálfsagt ekki til neins að deila um það, hvernig tekjurnar af Siglufjarðarsímanum muni reynast hjer eftir; reynslan ein getur skorið þar úr til fullnustu, en öll líkindi eru til, að sú lína haldi áfram að vera arðsöm lína, ekki síður, heldur betri en Vestmannaeyjalínan. Þar sem háttv. þm. Strand. (G. G.) hneykslaðist á niðurfærslu nefndarinnar á þóknuninni fyrir starfrækslu símanna, þá verð jeg að játa, að jeg skildi hann ekki vel, enda óvíst, að hann hafi skilið sig sjálfur, þótt skýr sje. Ætli það megi ekki heimfæra þar upp á hann, að „skýzt þó skýr sje“, því yfir þeim hluta ræðunnar var einhver móða. En auðsætt er það; að því minna sem borgað er af símatekjunum til starfrækslu, því meiri verður tekjuafgangurinn til að leggja nýjar línur fyrir, og því minna gætir þá misrjettis þess eða ranglætis, sem háttv. þm. (G. G.) talaði um að þeir yrðu fyrir, sem ekki hafa fengið símalínu. Þetta var vorkunnarlaust fyrir þm. að skilja. Frá sjónarmiði háttv. þm. (G. G.) ætti brtill. því að vera til bóta og er því undarlegt, að hann skuli andmæla henni. Háttv. þm. Strand. (G. G.) kvaðst hafa tekið sjer til inntekta fræðsluna frá háttv. 5. kgk. þm. (B. Þ.) og tekið að prjedika fyrir nágrannahreppum stöðvarinnar, sem hann var að tala um, að þeir skyldu leggja nokkuð fram til starfrækslu hennar, og skildist mjer svo, að árangurinn hefði orðið sá, að hreppurinn, sem stöðin er í, hefði ekki þurft að leggja fram nema einar 5 kr. til starfrækslunnar. Jeg efast ekki um, að háttv. þm. Strand. (G. G.) muni vera góður og áhrifamikill prjedikari, og að honum hafi áunnizt það, sem hann sagði frá. En þessi saga hans snerti ekkert það, sem hjer er farið fram á. Landsjóðstillagið á að vera fastbundið, og ekkert háð því, hvort einn eða fleiri hreppar eða enginn hreppur hleypur undir bagga með hreppnum, sem símastöðin er í. En sennilegt er það, að ýmsir stöðvarstjórar þykist ekki geta stundað símann fyrir 10–20 kr. ársþóknun þar sem minst 7–800 stundir á ári ganga til starfrækslunnar; kemur þá til hreppsins eða hreppanna kasta, að leggja fram það, sem á vantar, og er engum vafa bundið, að það yrði all oft töluvert mikið gjald. Af símatekjunum á ekki að borga meira en þessar 10–20 kr.; og með ákvæðinu er einmitt verið að setja slagbrand fyrir, að hærra gjald verði heimtað, og svo og svo miklu eytt af tekjum símans til starfrækslu þessarar. Jeg skal ekki þrátta um brtill. á þgskj. 318. Um hana verður hver að ráða sínu atkvæði. Að endingu tek jeg það enn fram, að hjer er ekki stefnt inn á nýja braut, þótt farið sje fram á að taka upp í 1. flokk þá línu, sem bezt borgar sig, og ágætar tekjur gefur. Sú stefna var hafin á síðasta þingi, og henni vill nefndin nú fylgja. Jeg verð að neita því fyrir hönd meðnefndarmanna minna, að þeir hafi nokkru sinni sagt, að þeir vildu enga breyting á frumv., eins og það var, þegar deildin tók við því. Þeir hafa báðir neitað því, er jeg spurði þá um það nú á þingfundinum, og það er því ósannindi, sem þingmaðurinn fór með í því efni. Að því er mig sjálfan snertir, tek jeg það fram, að ekki var minst á þetta við mig. (G. G.: Á dagskrárfundi kvaðst háttv. 5 kgk. enga breytingu vilja: á frumvarpinu).