08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Einar Jónsson:

Því hefur verið haldið fram, að í fyrra hafi, þar sem um Vestmanneyjasímann var að ræða, verið gefið fordæmið fyrir brtill. hv. nefndar um Siglufjarðarlínuna. Þar horfði þó öðruvísi við. Nefndin, sem þá fjallaði um símamálið, taldi vist, að símalínan hjer austur og alla leið austur og suður um land ætti að vera 1. flokks lína. Hins vegar bjóst nefndin við, að það gæti dregizt æði lengi, að þessi lína kæmist alla leið. Því ákvað hún, að línan skyldi fyrst um sinn látin enda í Vestmannaeyjum, og teljast til 1. flokks. En línur þær, sem smátt og smátt yrðu lagðar austur á bóginn, skyldu taldar til 2. eða 3. flokks, þangað til línan yrði komin alla leið austur, þar sem henni var ætlað að enda; þá yrði hún öll talin í 1. flokk. Þar er því ekki um reglulegt fordæmi að ræða fyrir því að taka Siglufjarðar- og Patreksfjarðarlínurnar upp í 1. flokk. Jeg er annars þeirrar skoðunar, að síminn allur eigi með tímanum að bera sig sjálfur. Álít jeg því, að smátt og smátt ætti að taka í fyrsta flokk þær línur, sem bezt borga sig, en þó ekki allar í einu.

Siglufjarðarsíminn ætti þá að verða tekinn fyrstur, því hann borgar sig bezt, og hinar línurnar síðan smátt og smátt. Það er of fljótt að taka þær allar nú; meira að segja, ef til vill of fljótt með sjálfa Siglufjarðarlínuna.

Mjer þótti það ekki rjett, er brtill. h. n. við 9. gr. símalaganna var samþykt, og greiddi jeg því atkvæði á móti henni. Því fremur mun jeg greiða atkvæði móti brtill. á þgskj. 322, því hún gerir greinina enn óaðgengilegri í mínum augum, þar sem hún færir starfrækslugjaldið við símana úr landssjóði enn meira niður. Jeg álít stöðvarstjórunum ekki oflaunað, þótt þeir fái þá upphæð, sem upprunalega var tekin til.