08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Steingr. Jónsson; Það eru aðeins tvær athugasemdir, sem jeg vil gera. Hv. frsm. gat þess, að til Siglufjarðarsímans hefði verið lagt mest tillag, en þetta er ekki rjett. Þingeyingar lögðu fram 33%, Vopnafjörður og Fáskrúðsfjörður enn meira. Vopnafjörður lagði fram helming og Fáskrúðsfjörður enn meira. Af línum, sem lagðar voru 1907–1909, þá var það aðeins Barðastrandarsýsla, sem lagði minna til eða 20 %.

Hin athugasemdin, sem jeg vildi gera, er viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N.-Múl. (E. J.) sagði, um að taka lán til símanna. En þetta finst mjer ekki heppilegt. Samkvæmt undanfarinna ára reynslu, þá má ganga að því vísu, að hjeruðin sæki um það, að fá eftirgjöf á tillögum sínum eða að minsta kosti því, sem þá er eftir að borga. Mjer finst það vera herfilegt, að taka yngsta símann fyrst, en láta hina bíða, þar til þeir hafa borgað upp lánin Annaðhvort er að taka alla eða enga.