08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

31. mál, mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundum líkum

Einar Jónsson:

Jeg hef leyft mjer að koma fram með 3 brtill., sem jeg ætla að minnast lítið eitt á. 1. brtill. við 5. gr. er lítið annað en orðabreyting við 3. málsgrein, að í staðinn fyrir: „eða líkið fundizt, en löggæzlumanni ekki tilkynt“, komi „eða líkið hefur fundizt, en löggæzlumanni ekki verið tilkynt“. Mjer finst það muni helzt aldrei koma fyrir, eins og hjer hagar til, að prestur verði beðinn að jarða lík, án þess að hann hafi fengið að vita, að það hafi fundizt einhverstaðar, og því þurfi ekki að gera ráð fyrir, að hann hafi aðeins grun um það.

Brtill. við 6. gr. hljóðar um það, að skjóta inn orðunum „eða var fyrst til bæja flutt“. í frv. er talað um, að þegar lík finst megi ekki flytja það úr þeirri sveit, sam það hefur fundizt í. Ef lík finst á fjöllum uppi, þá getur verið hentugra að flytja líkið í aðra sveit en fjalllendið telst til, ef t. d. þar búa ættingjar hins látna.

Um 3. brtill. hafði jeg ekki átt kost á að tala við nefndina, en nú hef jeg átt tal við framsögumann hennar, og í samráði við hann tek jeg þá brtill. aftur.