09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

93. mál, hallærisvarnir

Júlíus Havsteen:

Það var eitt atriði í ræðu háttvirts 6. konungkjörins (G. B.), sem mig langaði til að minnast á. Það er það, sem hann sagði um hafísinn, því að hann er alt of hræddur við hann. Jeg hef sjálfur tvisvar sinnum verið í hafís, í fyrra skiftið árið 1861, og í seinna skiftið árið 1887 og þá komst jeg að raun um það, að hafísinn er ákaflega fljótur að breytast, hann er farinn frá þegar minst vonum varir. í fyrra skiftið var jeg á. seglskipi og við komum upp undir Langanes og þá var allur sjórinn þar fyrir norðan eins og stór hafísbreiða, sem virtist samfeld svo langt sem augað eygði. En svo fór að næsta dag sigldum við með fram Norðurlandi og komumst þann dag til Eyjafjarðar. Í hitt skiftið var jeg ásamt mörgum þingmönnum á skipinu „Laura“, en við gengum af henni á Sauðárkrók vegna hafíss og riðum suður, en þegar við komum hjer, var gufuskipið komið á undan okkur og hafði þó komið á margar hafnir á Vesturlandi og tafizt við það. Nei, hafísinn er ekki eins hættulegur og margir halda, það segi jeg ykkur alveg satt. Þá var því haldið fram, að hafísnum fylgdu vond veður, sem eyðilegðu grasvöxtinn, en um þetta get jeg ekki verið háttv. þingmanni samdóma. Það eru að vísu oft vond veður, meðan hafísinn er að nálgast landið, helzt á vorin, en það er ekki svo mikið, að það eyðileggi grasvöxtinn. Þegar hafísinn er orðinn landfastur er einmitt oft gott veður, stillur og blíðviðri. Vorið 1882 var að vísu leiðinleg veðrátta, en þó varð heyskapur í Eyjafjarðarsýslu alt að því eins góður og venjulega.

Það er oft gert langt of mikið úr þeirri bættu, sem stafar af hafísnum. Þegar hákarlamenn við Eyjafjörð ætluðu að fara í legur, gengu þeir vanalega upp á fjall á undan, til að gá að ísnum, og þegar þeir komu niður aftur, sögðu þeir sumir, að hafþök væru úti –fyrir, allt væri ein hafísbreiða en þetta var ekki svo, heldur sýndist þeim það vegna þess að þeir stóðu ekki nógu hátt. Þá sýnast þeim allir jakarnir vera samfastir.

Hafísinn er því grýla, sem talað er mikið um, þegar verið er að tala um hallæri. Í nefndarálitinu er heldur ekki minnzt á vonda veðráttu í sambandi við hafísinn, heldur er aðallega talað um samgönguteppuna, sem af honum stafi, en jeg segi, að á suðurströnd landsins er mönnum aldrei hætta búin af hafísnum og sjaldan á Austur nje Vesturlandi. Það er helzt á Norðurlandi, en þó er hún ekki mikil.

Af eldgosum stafar sjaldan alment hallæri, en það getur stafað af þeim hallæri í einstöku hjeruðum.

Hvað snertir útflutninga til Vesturheims héðan af landi árin 1880–90, þá stöfuðu þeir mikið af pólitískri óánægju, og þá komu hingað líka einatt vesturfaraagentar, er töldu menn á að fara til Vesturheims.

Jeg sje því enga ástæðu til þess, að frumvarp það, er hjer liggur fyrir, verði afgreitt af þinginu að þessu sinni.