09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

93. mál, hallærisvarnir

Sigurður Eggerz:

Mjer virðist háttv. framsm. (G. B.) og fjelagar hans hafa alt of mikla tröllatrú á sjóðstofnun sinni. Það er stór misskilningnr, að það sje bezti vegurinn til þess, að landið verði fært um að ganga á móti örðugum tímum, að hallærissjóður sje stofnaður. Það eru margfalt meiri hallærisvarnir í því, að bæta landið og efla atvinnuvegi á sjó og landi. Því betur, sem hver bletturinn er ræktaður, því síður bregst hann, þótt kuldatíð komi og grasbrestur á lítt ræktaðri jörð. Því meiri rækt, sem lögð er við sjávarútvegiun, og af því meiri kunnáttu, sem hann er stundaður, því minni hætta er á fiskileysi. Meira gras og sem misbrestaminst grasspretta, meiri og jafnari fiskiafli, það eru okkar öruggustu hallærisvarnir. Hvorttveggju þessu er hægt að ná, ef eigi skortir fje og fyrirhyggu. Þá eru símarnir. (G. B.: Ekki flytja þeir þó björgina). En við gætum símað eftir björginni, kallað á skip til að færa okkur hana. Hv. framsm. (G. B.) virti mig ekki svo mikils, að hann tæki til íhugunar ítrekaða fyrirspurn mína til hans um það, hvort hann álíti fjenu betur varið með því að leggja það í sjóð, eða með því, að verja því til ræktunar landsins.

Fyrst háttv. framsögumaður (G. B.) vill ekki svara þessu, þá vil jeg beina þeirri spurningu til háttv. bænda á þingi, sem, þótt undarlegt sje, virðast standa í þjettri fylkingu bak við frv. þetta. Mundu þeir heldur kjósa, að þær 54400 kr., sem búnaðarfjelaginu eru ætlaðar á ári, væru lagðar í sjóð, en að þeim væri varið til búnaðarbóta. Hvort hyggja þeir affarasælla fyrir framtíð landsins eða meiri vörn gegn hallæri. En svona fer hugsjónamönnunum. Þeir festa augun á einhverju einu fjarlægu, en gleyma öllu, sem í kring um þá er. Nú er það hallærissjóðurinn, sem þeir hafa komið auga á. Eina leiðin til að bjarga mönnum undan hallæri og harðrjetti er, að gera hann sem stærstan og sem bundnastan. Þeir sjá ekki, að þetta er einhver versta og ópraktískasta leiðin. Það er líkt eins og þegar menn áður fyr grófu fje sitt í jörðu eða Iögðu það á kistubotninn, svo það væri til taks, hvenær sem til þyrfti að grípa. Svona vilja þeir fara með fjeð, í stað þess að verja því til að rækta landið og bæta atvinnuvegina til lands og sjávar. Það er víst, að við stöndum betur að vígi, ef við verjum fje okkar til arðsamra fyrirtækja, en þó við söfnum fjenu í sjóð, og það jafnvel þótt við geymum þann sjóð í landsbankanum.

Það er rjett og satt, að fyrirhyggjuleysi er hættulegt. En það er ekki líklegt, að fyrirhyggja landsmanna vagi við það, að þeir vita, að þeir eiga sjóð, sem þeir geta hallað sjer að, ef á bjátar. Háttv. framsm. (G. B.) kveðst ekki trúa, að þeim sje alvara, sem nú leggjast móti nefskattinum, þar sem þeir hafa ekki komið fram með neina tillögu um að afnema sóknargöldin. Jeg hef tekið það fram, að jeg álit þau afar ósanngjörn. En ástæðan fyrir því, að jeg hef ekki komið fram með beina tillögu um að afnema þau, er sú, að jeg veit, að hugarfar margra háttv. þm. er þannig, að það er ekki til neins annars að bera fram slíka tillögu en að eyða tíma þingsins til einskis. Aftur á móti vil jeg vinna af alefli á móti því, að lengra sje farið út á nefskattabrautina, því að hún er bæði óholl og óheppileg. Það má enginn skilja orð mín svo, þegar jeg var að tala um, að stofnun hallærissjóðsins mundi spilla lánstrausti landsmanna út á við, að mjer hafi komið til hugar, að sá væri tilgangur háttv, flutningsmanna. Fjarri fer því. En hitt er jeg sannfærður um, að þegar það frjettist til útlanda, með hvað miklum krafti og hvílíku ofurkappi er unnið að því, að koma þessum hallærissjóð upp, þá mun það þar verða skoðað sem síðustu örþrifaráð þeirra manna, sem búnir sjeu að missa trúna á landinu, til að bjarga landinu undan bersýnilegum háska. Ætli þetta verði til að auka álit okkar út á við og efla traust á okkur ?

Jeg fyrir mitt leyti hef svo mikla trú á landinu, að ef við leggjum fram alt það fje, sem við megum missa, þá munum við standa svo miklu betur að vígi gegn hallæri, en við nokkurntíma áður höfum gert.