16.07.1913
Neðri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (190)

14. mál, vitagjald

Þorleifur Jónsson:

Það er að eins örstutt athugasemd til að skýra afstöðu mína til þessa máls.

Eins og sjá má á nefndarálitinu, voru ekki allir nefndarmennirnir fullkomlega sammála. Eg er ekki ánægður með, að skip, sem oft fara til útlanda; t. d. botnvörpungar, greiði ekki vitagjald nema einu sinni á ári. Botnvörpungarnir hafa ekki kvartað undan þessu gjaldi hingað til, en eg býst við, að þeir hefðu gert það, ef þeim þætti gjaldið óréttlátt. Eg lít svo á, að botnvörpungarnir þurfi meira á vitum að halda, heldur en önnur Skip, og er því ekki ósanngjarnt að þeir greiði meira vitagjald.

Háttv. framsögum. (B. J.) bar vitana saman við vegi landsins, og tók til dæmis, að vegfarendur þyrftu ekki að greiða neitt gjald fyrir notkun vega. Það er að vísu satt, en einu sinni var þó goldinn brúartollur, þó hann sé nú afnuminn. En það mætti engu síður bera vitana saman við símann, og sjálfsagt þykir, eins og líka rétt er, að borga fyrir notkun hans. Mér getur ekki fundist það ósanngjarnt, að menn borgi fyrir notkun þeirra tækja, sem menn nota, hvort sem er á sjó eða landi. Nú er verið að kappkosta að koma upp nýjum vitum með ærnum tilkostnaði, en landssjóður hefir, svo sem kunnugt er, ekki mikið gjaldþol, og finst mér því ekki rétt að rýra vitagjaldið að mun. Þetta er hvort sem er ekki svo mikið gjald fyrir þá sem það greiða, en getur munað landasjóð töluverðu samlagt.

Eg vildi að eina skýra háttv. deild frá þessu áliti mínu, ef menn vildu koma fram með br.till. til 3. umr., og færa gjaldið í ið gamla horf. Þá myndi eg verða með. Annars vil eg ekki leggja neitt sérstakt kapp á þetta. Og þó eg hefði sérstöðu í nefndinni að þessu leyti, þá geri eg það ekki að beinum ágreiningi, því í öðrum atriðum var eg meðnefndarmönnum mínum sammála.