11.08.1913
Efri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

58. mál, hvalveiðamenn

Eiríkur Briem:

Jeg verð að taka til máls; úr því að enginn annar gerist til þess.

Þá er jeg sá þetta frv., mintist jeg þess, er jeg kom fyrst hingað til Reykjavíkur. Það eru nú yfir 50 ár síðan; það var 1860. Um það leyti voru gufuskip að hefja ferðir sínar hingað. Það var vist 1858 að stöðugar gufuskipaferðir hófust Það vildi svo til, að um sama leyti voru litlar fiskigöngur hjer syðra. Þær hugmyndir höfðu komizt inn hjá mönnum, að gufuskip hefðu ill áhrif á fiskigöngur, að þau fældu fiskinn af miðunum. Og ef kosningar hefðu farið fram hjer í Gullbringu- og Kjósarsýslu um það leyti, er ólíklegt, að nokkur hefði þurft að hugsa til, að ná kosningu, ef hann vildi ekki banna gufuskipunum siglingar um Faxaflóa. Einu sinni áttu netin að valda feiknaskaða, og miklar samþyktir voru gerðar um þau efni.

Þetta frv. er sprottið af sömu rótum og þessar samþyktir. Hinar og þessar hugmyndir hafa alt af komið fram til að gera sjer grein fyrir, hvað væri þess valdandi, að fiskigöngur brygðust. Það væri t. d. buslið í skrúfunni, reykurinn úr „skorsteininum“ og eimyrjan, sem áttu að valda því, að fiskurinn fældist burt af miðunum, Menn hræðast sitt í hvert sinn í þessum efnum. Menn hafa skapað sjer þá hugmynd, að hvalir hafi mikla þýðing fyrir fiskigöngur. Þetta hjeldu menn á Vestfjörðum fyrir nokkrum árum, og menn halda nú hið sama á Austfjörðum. Og það hefur ógnarþytur verið gerður af þessu, Hugir manna ern æfinlega æstastir, þegar sem minst er á að byggja, því minni sem rökin eru, og því meira trúaratriði sem eitthvað er. — Jeg þekki ekki annað um þetta frv., en að þær ástæður, er það byggist á, sjeu algerlega ósannaðar hugmyndir um það, sem menn vita ekki minstu vitund um. Það er ekki ekkert nema hjátrú og bábiljur, er menn hafa hjer við að styðjast.

En setjum nú svo, að hvalveiðar hefðu þýðingu fyrir fiskiveiðar og væru skaðlegar. Frv. væri samt sem áður afar gagnslítið. Hvalir fara fram og aftur um höfin. Nyrzt í Noregi hefur verið veiddur hvalur með skutli í frá New-Foundlandi. Þetta frv. er því álíka skynsamlegt, og farið væri að friða rjúpuna í 12 landareignum í því skyni, að greiða fyrir fjölgun rjúpna.

Gætum nú hinsvegar að, hvað lagt er í sölurnar með þessu frv. Hvalveiðar hafa að vísu minkað, og um leið hafa tekjur landssjóðs af þeim minkað. Jeg heyri sagt, að útflutningsgjald af hvala-afurðum árið 1912 hafi þó numið 14 þús. kr. Auk þess greiða hvalveiðamenn hjer vörutoll og annað aðflutningsgjald og tekjuskatt. Jeg ímynda mjer, að það, sem þeir greiða í landssjóð, nemi alls um 20 þús. kr. Það er því sama sem 20 þús. kr. tekjumissir, er frv. þetta bakar landssjóði, ef það verður að Lögum. Og það væri sama sem, að demba ætti 20 þús. kr. útgjöldum á landssjóð og ekkert kæmi í aðra hönd. Auk þess gjalda þeir mikið til sveitar og veita mikla atvinnu, er landsmenn missa með slíkum lögum. sem þessu frv.

Enn er að líta á það, hvílíkur ójöfnuður það er, sem þessir menn eru beittir, er hjer eiga hlut að máli. Jeg þekki ekki þessa menn, veit ekki svo mikið sem nöfnin á þeim, svo að jeg hef enga ástæðu til að taka málstað þeirra af persónulegum ástæðum. Jeg hef heyrt sögu frá Rússlandi, sem mjer dettur í hug í þessu sambandi. Maður nokkur hafði bygt sjer myllu og bjóst að nota hana, sem lög gera ráð fyrir. En þá kom valdsmaður til hans og sagði: „Þú mátt ekki mala neitt í þessari myllu, góðurinn minn“. En hún mátti standa þar Þetta hefur verið sagt sem dæmi af rússneskum ójöfnuði. En hjer stendur eins á, hjer er nákvæmlega um sama að ræða Þessir hvalveiðamenn hafa reist hjer hús, og sett upp dýrar rekstursstöðvar, og svo á að banna þeim að nota alt saman! Hjer á að hafa í frammi þann ójöfnuð, er getur hefnt sín. Um hvern atvinnuveg geta vaknað þær hugmyndir, að hann sje skaðlegur. Með þessu móti verða menn fældir frá að koma hjer dýrum atvinnufyrirtækjum á stofn. Menn vita aldrei fyrirfram, hvaða bábiljur kunna að verða til, og hvaða atvinnugreinir því kunna að verða bannaðar.