15.08.1913
Efri deild: 30. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

109. mál, forðagæsla

Guðjón Guðlangsson, framsögnmaður:

Þótt það sje nú seint orðið, kemur nú þessi liður hallærisvarnanna fram á sjónarsviðið; áður hefur verið talað um hann hjer í deildinni, og hefur hann fengið góðar undirtektir.

Þegar um það er að ræða. að tryggja landsmenn sem bezt fyrir hallærum, er það þrent, sem aðallega þarf að aðgæta. Í fyrsta lagi þarf að safna peningum, svo að fje verði til taks, þegar hallærin koma, og á því þarf að halda til styrktar atvinnuvegunum. í öðru lagi þarf að sjá um, að peningarnir geti þá komið að tilætluðum notum, og í þriðja lagi þarf að sjá um, að eftirlitið sje gott með því, að ávalt sjeu til reiðu nægilegar hey- og kornbirgðir, enda þótt ekki sje um hallæri að ræða, og að farið sje sem bezt með það, svo að það geti komið að tilætluðum notum., til þess að fyrirbyggja hallæri. Þetta mál er svo vaxið, að það er ekki nauðsynlegt að setja það í neitt samband við hallæri, því að enda þótt við ættum víst, að aldrei yrði hallæri framar hjer á landi, þá væri þó nauðsynlegt að setja lög um þetta efni. Eftirlit það, sem farið er fram á í lögum þessum, ætti að vera trygging fyrir því, að meðferð á skepnum yrði betri en áður, því að það eykur metnað manna til þess, að hafa fjenað sinn í góðu lagi, og það mundi einnig stuðla að því, að menn sýndu meiri hyggindi en ella með það, að ætla skepnum sínum nægan forða. Af slæmri meðferð, að jeg ekki tala um horfelli á skepnum, leiðir, auk vanvirðunnar, sem því fylgir, mikið fjártjón, svo að margur bíður þess aldrei bætur, allan sinn búskapartíma. Þeir, sem ætla fjenaði sínum lítið fóður, eru auðþektir úr frá hinum, því að þeir verða aldrei nýtir menn. Mig undrar það stórum, hve mál þetta hefur komið seint fram, ekki einungis hjer á þingi, það er mest að kenna mínum slóðaskap,heldur utanþings. Orsökin hlýtur að vera sú, að menn hafa verið hræddir um, að ekki yrði hægt að koma eftirlitinu svo fyrir, að það kæmi að nokkru haldi, að það mundi mest verða á pappírnum, af því að hjer væri um svo mikið vandaverk að ræða, sem hver og einn muni bezt framkvæma sjálfur, og með vaxandi sómatilfinningu og hagnaðarlöngun muni þetta komast í viðunanlegt horf. Jeg ætla ekki að mótmæla því, að allir vilja gjarna eiga fje, en sómatilfinningin er misjöfn hjá mönnum, og oft eigi svo mikil, sem skyldi. Það er fyrst, þegar allir taka höndum saman, að árangurinn verður almennur, og ekki einungis hjá einstaklingnum. Því er nauðsynlegt að setja lög, sem ná til allra. í því frumv. sem hjer liggur Fyrir, er mikið bygt á haustskoðunum, en um þær hefur verið sagt, að erfitt væri að framkvæma þær svo að haldi kæmi. Þetta finst mjer bera vott um óskiljanlegan hugsunarhátt, því að það, sem er óframkvæmanlegt einum manni, getur verið auðvelt verk fyrir annan, sem þekkingu hefur á málinu. Áætlanagerð er að vísu mjög vandasöm, en öll stórvirki, sem gerð eru nú á tímum, eru gerð eftir áætlun. Þessvegna er það einkennilegt, að menn skuli halda, að eigi sje hægt að fara eftir áætlun um heyforða manna.

Nefndarálitið sýnir, að þetta er líka mögulegt. Jeg finn það vel, að jeg stend eigi flestum framar að því, er hæfileika til slíks verks snertir, heldur stend jeg að eins fáum mönnum framar, og þegar jeg byrjaði á þessu verki, kunni jeg vitanlega ekkert til þess, en reynslan sýndi mjer, hvernig að átti að fara, og að þetta var mögulegt. Mig undrar það stórum, að algerlega skuli hafa verið farið fram hjá heyásetningi á búnaðarskólunum. Á námsskeiðum þeirra eru haldnar ræður um flest alt, sem að búnaði lítur, nema nm þetta. Þetta hlýtur að stafa af því, að menn hafa haldið, að ómögulegt væri, að koma við áætlunum um heyásetning. En þetta er mjög vel mögulegt, og jeg álít, að þetta ætti að kenna á búnaðarskólunum. Í nefndarálitinu má ýmislegt sjá um reynslu manna og tilraunir í þessu efni. En það er ekkert um það talað, hversvegna þessar áætlanir, sem þar eru birtar, reyndust svo rjettar, sem þær reyndust. En í þeim hreppi, sem skýrslur þessar greina um, höfðu heyásetningsmenn nákvæmar töflur yfir hverja einustu heystæðu í sveitinni, og töflu yfir ýmsar fóðurtegundir, sem sýndu, hvað þurfti mikið hey að rúmmáli fyrir hverja viku af tiltekinni heytegund handa hverri búpeningstegund, og á þennan hátt gat þetta flýtt mjög fyrir verkinu og gerði áætlanirnar vissari, og ætla jeg svo ekki að útlista það frekar. Um fóðurgildi korns í samanburði við hey, hafa menn nú nákvæmar skýrslur frá búfræðingum landsins. Fyr á tímum var ekki annað brúkað til skepnufóðurs en hey, en nú eru notaðar aðrar fóðurtegundir jafnframt, og því þarf í skýrsunni sjerstakan dálk fyrir þetta, sem nefndist annað fóður, og það, sem er nefnt í skýrslunum teningsalin eftir mati, yrði þá nefnt forðaeining. Um þetta og ýmislegt annað, þessu máli viðvíkjandi, hefur ekkert verið sett í nefndarálitið, og af því, sem hjer hefur verið sagt, vona jeg, að menn sjái, að þetta eftirlitsverk er ekki svo erfitt, að það sje engum menskum mönnum fært, nema kannske galdramönnum af Ströndum. Hjer er að eins um verk að ræða, sem þarf góðrar vandvirkni við og sæmilegrar skynsemi. Þetta starf verður að álita sem trúnaðarstarf fyrir sveitina, og þeir, sem í það verða kosnir, standa jafnfætis sóknarnefndar- og fræðslunefndarmönnum og hreppsnefndum að virðingu; ætti það að vera hvöt fyrir mennina til þess að leysa verkið vel af hendi. Ætla jeg svo eigi að fara fleiri orðum um þetta frv., en jeg vona, að hv. deild sýni því að minsta kosti þann sóma, að vísa því til 2. umr. Þar sem málið hefur þegar verið athugað í nefnd, er óþarft að skipa nú nefnd í málið.