15.08.1913
Efri deild: 30. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

33. mál, málaflutningsmenn við landsyfirréttinn í Reykjavík

Steingr. Jónsson, framsögumaður:

Jeg hef litlu að bæta við það, sem sagt er í hinu stutta áliti nefndarinnar. Það er aðeins ein lítilfjörleg breyting, sem neðri deild hefur gert á frv., og er hún í því fólgin, að þessi lög skuli ekki ná til þeirra, sem þegar hafa byrjað laganám við háskólann, áður en þessi lög ganga í gildi, eða rjettara sagt þeirra, sem ljúka námi innan ákveðins tíma. Þessi breyting virðist vera sanngjörn, því að það má segja, að þeir, sem nú eru að stunda laganám, hafi tekið það fyrir með það fyrir augum, að þeir mundu geta komizt að málafærslu við yfirdóminn, þegar að náminu loknu, og það virðist auk þess meiri ástæða til þess að gera þessa breytingu, þar eð annað frv. þessu máli skylt, var felt hjer í deildinni fyrir skömmu síðan. Vjer viljum því ráða hv. deild til þess, að samþ. frv. óbreytt.