16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Sigurður Eggerz:

Jeg sje, að háttv. nefnd leggur til að 30,000 kr., sjeu veittar til pósthússbyggingar í Reykjavík. Jeg vil leyfa mjer að spyrja hv. nefnd, hvort hún viti , til, að glögg áætlun hafi verið gerð um þann kostnað, sem leiða muni af byggingu þessari. Það er meira en varhugavert, að byrja á byggingunni, áður en gerð hefur verið áætlun um, í hvaða stíl byggja skuli og hvað byggingin muni kosta; sje það vanrækt, gæti svo farið, að byggingin væri byrjuð á þann hátt, að þing ið sæi sjer ekki fært, að veita það fje, sem þyrfti til að fullgera hana. Því segi jeg það, að þingið þarf nokkurn veginn að vita fyrirfram um tilhögun byggingarinnar og kostnað við hana, áður en það fer að veita fje til hennar.

Þá er að minnast á brtill. hv. nefndar um endurgreiðsluna á tillagi Rangárvallasýslu til Garðsaukasímans. Jeg vil ekki gera árás á hinar almennu hugleiðingar hv. frsm. (Stgr. J.) um endurgreiðslu á tillagi hjeraða til símalagninga. En hjer stendur nokkuð sjerstaklega á. í áliti nefndarinnar í ritsímamálinu hjer í deild 1912 var meira að segja bygt á því, að þessi endurgreiðsla færi fram, og vil jeg með leyfi h. forseta lesa upp kaflann úr nefndarálitinu um þetta. Hann er þannig: „Ef línan til Vestmannaeyja verður 1. fl.lína, má búast við því, að Rangæingar óski að fá endurgreiddar þær 4000 kr., sem þeir hafa lagt til hennar, og býst nefndin við, að þinginu þyki rjett að taka þá ósk til greina á sínum tíma, en álítur, að það ætti þó að veitast með því skilyrði, að 2000 kr. af þeirri upphæð, væru lagðar til Víkursímans. Yrði þá ekki mjög þungt tillag það, er Skaftfellingar yrðu til hans að leggja, enda liggur fyrir, að þeir verði einir að leggja fram tiltölulega mikið fje, þegar til þess kemur, að halda símanum lengra austur. En þar sem háttv. Nd. lækkaði hjeraðstillagið til Víkursímans um 1000 kr. frá því, sem í stjórnarfrv. stóð, með tilliti til áðurnefnds framlags Rangárvallaýslu, sem deildin ætlaðist til að hjeldist, leggur nefndin til, að aftur verði upptekin tillaga stjórnarinnar og tillagið látið vera 5000 kr., ef samþykt verður, að línan til Vestmannaeyja verði „1. flokks lína.“

Jeg vona, að hv. nefnd taki þetta til athugunar og komist að þeirri niðurstöðu, að eftir því, sem undan er gengið, sje það rjett, að gefa Rangárvallasýslu eftir sömu upphæð, og gert er ráð fyrir í stjórnarfrv.

Næst kem jeg að 2. lið 9. gr. frumv. um endurgreiðslu á vörugjaldi af kolum Sameinaða fjelagsins. Það munu margir vera svo skapi farnir, að þeir vilji ekki að óþörfu taka þessa kröfu fjelagsins til greina; viðskiftum þess við oss Íslendinga hefur nú verið þannig háttað, að það hefur ekki aflað sjer hjer sjerlegra vinsælda. Það sem mjer virðist sjerstaklega athugavert hjer, er það, að málinu hefur verið komið í það horf, að það er orðið erfiðara viðfangs, en vera hefði þurft. Innanríkisráðherra Dana hefur gert þær ráðstafanir, og ráðherra vor samþykt, að nú verðum vjer að lögsækja fjelagið, ef við viljum ná þessum 5000 kr., sem ágreiningurinn er um, í stað þess að eðlilegast hefði verið, að málinu hefði verið haldið í því horfi, að fjelagið hefði orðið að lögsækja oss.

Jeg sje ekki, að innanríkisráðherrann hafi upp á eigin spýtur heimild til að halda eftir þessum 5000 kr. af tillagi Danmerkur til Íslands. Vitaskuld er þó erfitt fyrir oss nú að fást við þetta, eftir að ráðherra vor hefur samið við innanríkisráðherrann á þann hátt, sem hann hefur gert. En jeg verð að telja það athugavert, og væri ráðherra viðstaddur hjer í deildinni, mundi jeg spyrja hann að, hversvegna hann hefði gert það.

Mjer finst óviðkunnanlega komizt að orði hjá hv. nefnd, að telja það sjálfsagt, að halda fjárveitingu þessari í frv., þar sem innanríkisráðherrann hafi lofað að greiða hana. Jeg get ekki gengið inn á, að hann hafi haft rjett á, að lofa nokkru fyrir vora hönd, nema vjer hefðum gefið honum heimild til þess.