16.07.1913
Neðri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (193)

14. mál, vitagjald

Eggert Pálsson:

Eftir því sem þetta mál liggur fyrir í nefndarálitinu, verður ekki annað Séð, en að nefndin í heild sinni vilji fallast á frumvarpið. En hins vegar hafa nú komið fram raddir frá nefndarmönnunum sjálfum, sem lýsa óánægju með ýmis atriði frv. Eg var á móti þessu frv. eins og það kom fram í fyrstu, og eg er enn meira á móti því nú, eins og það lítur út með. br.till. nefndarinnar. Við erum eins og kunnugt er altaf árlega að bæta við fleiri og fleiri vitum og auka þar með kostnað landsins í þeim efnum og það er því ekki rétt að vera að veita nýjar og nýjar undanþágur frá vitagjaldi einmitt nú, þegar vitum er verið að fjölga og notin af þeim verða meiri fyrir skipin.

Það er um þrenns konar undanþágur að ræða í þessu frumv. Í fyrsta lagi undanþágu fyrir skemtiskip á tímabilinu frá 14. Maí til 15. Ágúst. Mér skilst, þó að þetta tímatakmark sé sett, að það hafi ekkert að þýða, heldur sé hér um fullkomna undanþágu að ræða, því að skemtiferðaskip koma ekki hingað á öðrum tíma en einmitt þessum, sem hér er nefndur. Eg tel það því með öllu frágangssök að fallast á þenna lið. Eg þykist skilja það rétt, að þeir sem gera út skipin, láti kostnaðinn við útgerðina koma niður á fargjöldunum, sem þeir heimta af auðmönnum þeim, er með skipunum ferðast — því að vitanlega ferðast ekki aðrir en vel efnum búnir menn með slíkum skipum — og þeir munu ekki setja svo mjög fyrir sig lítilfjörlega hækkun á fargjaldi, að hún hefti för þeirra. Og þetta vitagjald getur ekki munað miklu fyrir skipin eða ferðamennina hvern um sig, þótt það hins vegar geti munað miklu fyrir landssjóðinn að öllu samlögðu að missa það. Eg get nú að vísu trúað því, að útgerðarmönnum skipanna hafi brugðið í brún í fyrstu, er þetta gjald var af þeim heimtað, sérstaklega vegna þess, að þeir hafa ekki vitað af þessari vitagjaldshækkun þegar þeir ákváðu fargjöldin. En nú vita þeir um lögin og geta haft vaðið fyrir neðan sig og hækkað fargjöldin með tilliti til þeirra. En þótt svo ólíklega færi, að vitagjaldið hefði þau áhrif, að skemtiskipin hættu að koma hingað, þá vildi eg samt ekki láta afnema gjaldið. Eg veit það að vísu, að ferðamennirnir borga töluverða peninga inn í landið á með þeir dvelja hér, en hins vegar dylst mér ekki, að þeir gera líka tjón að ýmsu leyti. Eg er sannfærður um að margur maðurinn sleppir niður nytsamri vinnu á meðan þessi vaður stendur hér yfir.

Að því er snertir undanþáguna, sem frumvarp þetta hefir í sér fólgna, undanþáguna fyrir skip, sem leita hafnar í nauðum, þá get eg heldur ekki séð neina ástæðu til hennar, af þeirri einföldu orsök, eins og háttv. frams.m. tók fram, að slík skip hafa mesta þörf allra skipa fyrir vitana.

Þá er í þriðja lagi í br.till. nefndarinnar farið fram á undanþágu fyrir íslenzka botnvörpunga. En fyrst er að líta á það, að þessi útvegur er í alla staði fær um að bera gjaldið, og svo er það heldur ekki nefnt í nefndar álitinu, að ein einasta rödd hafi komið fram frá útgerðarmönnunum sjálfum um að létta þessu gjaldi af þeim. Þeir hafa því sýnilega sjálfir ekki talið gjaldið eftir, eða þótt það ósanngjarnt. Og fyrst þeir sjálfir hafa ekki leitað undanþágunnar, virðist óþarfi fyrir Alþingi að vera að veita hana óbeðið.

Ef frumvarpið nær fram að ganga, mun eg fyrir mitt leyti styðja þá till., sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) gerði ráð fyrir að koma með til 3. umr. um að afnema ekki með öllu vitagjald af skemtferðaskipunum, heldur lækka það. því betri er hálfur skaði en allur. En að svo komnu máli mun eg greiða atkvæði á móti frv. í heild sinni.