16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Steingrímur Jónsson, framsögum.:

Hv. þm. Arn. (J. J.) mintist á 3 aura sanngirni nefndarinnar. Það er satt, að nefndin gerði sjer far um, að líta með sanngirni á málin, og eins á það mál, sem hv. þm. Árn. ber fyrir brjósti. Hún vildi líta á það með sanngirni gagnvart hlutaðeigandi hjeruðum og með gætni gagnvart landssjóði. Það er ekki vegna hjeraðsins eða til að íþyngja því, að farið er fram á þetta, heldur vegna fordæmisins, sem það getur myndað. Það er aðalatriðið. Árnessýsla hefur greitt 1000 kr. heilar af láninu, og, hún verður ekki harðar úti í þessum efnum en önnur hjeruð. Jeg álít því sanngjarnt, að sýslunum sje endurgreitt það, sem eftir er af lánunum, og ekki heldur meira.

Hvað kostnaðinn við lagningu símalínunnar til Eyrarbakka og Stokkseyrar snertir, þá hefur símastjóri sagt það í skýrslu, gefinni í embættisnafni, að hún hafi kostað 9000 kr. með skiftiborði á Eyrarbakka, og annað hef jeg ekki að halda mjer við. Jeg trúi því, að það sje rjett, þar til sannað verður, að það sje rangt. Það dugir ekki að varpa hjer fram jafnþungri ákæru á hendur landsímastjóra og þeirri, að hann segi rangt frá þessu.

Hv. þm. V: Skf. (S. E.) skal jeg svara því, að jeg hjelt, að jeg þyrfti ekki oft að taka það fram, að það er til áætlun um kostnað við þessa pósthússbyggingu, sem hjer ræðir um (S. E.: Er til áætlun um nýtt pósthús?). Nei, en áætlun um viðbót við pósthús, og kostnaðurinn verður samur, hvort sem það verður bygt hjá gamla pósthúsinu eða á Arnarhóli. Það er að vísu nokkur kostnaðarauki við að byggja á Arnarhóli, en er aftur að sumu leyti hentugra, að byggja þar, svo að það jafnast. En sje ráðizt í að byggja alt öðru vísi, og þeirri teikningu verði breytt, er hjer liggur fyrir, þá þarf nýja áætlun, og hún yrði þá auðvitað lögð fyrir þetta þing.

Jeg er sammála hv. þm. V.-Skf. (S. E.) í um það, að það er óheppilega komið, er við þurfum að sækja rjett okkar í hendur gufuskipafjelagsins sameinaða. En það er ekki okkur að kenna. Og stjórnin gat heldur ekki hindrað það. Þetta varð að samkomulagi milli innanríkisráðherrans danska og þess „Sameinaða“, til þess að fjelagið hjeldi áfram ferðum sínum. Stjórnin íslenzka varð að ganga að þessu, en ráðherra fjekk áskilið alþingi rjett til málshöfðunar, ef því litist svo. Þetta er alt mikið álita- og vafamál, en jeg fyrir mitt leyti tel óráðlegt að fara í mál út af þessu.

Hv. þm. Barð. (H. Kr.) hef jeg áður svarað, og jeg sje ekki ástæðu til að endurtaka það. Hjer er og um svo litla upphæð að ræða, að það tekur því ekki að hata langar umræður um hana.