16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Ráðherra:

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) leggur mikla áherzlu á, að innanríkisráðherrann hafi ekki getað skuldbundið Ísland í þessu máli. Það gerði hann heldur ekki. Hann skuldbatt sig gagnvart fjelaginu, en jeg skuldbatt Ísland gagnvart innanríkisráðgjafanum til þess, að greiða upphæðina, ef dómur fjelli svo, að fjelagið ætti rjett á henni. Þetta varð að ganga í gegnum innanríkisráðgjafann, af því að hann hafði gert samninginn 1903, þótt í sambandi við Íslandsráðherra væri. Hann hefði auðvitað getað látið sjer í ljettu rúmi liggja og látið sjer nægja, að halda einhverju litlu póstsambandi milli Danmerkur og Íslands, samkvæmt stöðulögunum 1871, en hann gerði það ekki. Hann gerði það bezta, sem hann gat til að bjarga samgöngunum, með því að ganga inn á kröfur fjelagsins með reservation. Annars sýnist það veru furðu þýðingarlítið, hvort Ísland höfðar mál eða fjelagið. Hinn háttv. þm. hjelt því fram, að fjelagið þyrfti ekki að taka kol hjer. Það er langt frá því að vera rjett, því að öll þau skip, sem ekki koma beint til Reykjavíkur, heldur þurfa að fara kringum land, eru nauðbeygð til þess að taka kol hjer við land. Engin þeirra skipa, sem í póstferðum eru, eru svo stór, að þau geti birgt sig í Leith að kolum til svo langrar ferðar, báðar leiðir.