18.08.1913
Efri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

109. mál, forðagæsla

Júlíus Havsteen:

Jeg lít svo á, sem hjer sje að ræða um 4. útgáfuna af horfellislögunum.

En það sem jeg vildi sjerstaklega vekja athygli á, er hegningarákvæðin. Nefndin hefur sett, að það varði „fangelsi“, en það getur bæði þýtt einfalt fangelsi, fangelsi við venjulegt fangaviðurværi, og fangelsi upp á vatn og brauð, en með svofeldu móti gæti hegning fyrir það brot, sem hjer er um að ræða, orðið helzt til svæsin.

Í 299. gr. hinna almennu hegningarlaga frá 25. júni 1869, er hegningin fyrir grimdarfulla meðferð á skepnum, sjer í lagi húsdýrum, ekki nema sektir alt að 200 kr. eða einfalt fangelsi alt að 4 mán., og mjer finst, að nefndin hefði átt að láta sitja við hið sama hjer. Það er líka athugavert, að nefndin hefur ekki sett sektunum nein takmörk, en það væri æskilegt.

Jeg vil því, sem sagt, sitja við sömu ákvæði um þetta og nú gilda um illa meðferð á skepnum, og vildi jeg leyfa mjer

að benda háttv. nefnd á þetta til athugunar.