16.07.1913
Neðri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (195)

14. mál, vitagjald

Matthías Ólafsson:

Eg hélt naumast að háttv. þm. Ak. (M. gr.) mundi einmitt fara að minnast á fjárhagshliðina á þessu máli, því að það liggur þó opið fyrir, að hún er veikasta hliðin á því. Því að ef þessar till. verða samþyktar, þá er það auðvitað, að landssjóður hlýtur að tapa við það að minsta kosti hátt á 4. þús. kr. Og í aðra hönd er hér lítið sem ekkert, því að þetta fólk verzlar ekki annað hér í Rvík, en hvað það kann að kaupa eitthvað á Thorvaldsens-Bazarnum, og svo frímerki og póstkort, en þau eru ekki einu sinni búin til hér, Svo að hagurinn verður lítill af þessari sölu, þótt hún kynni að nema svo Sem 7–8 þús. kr. á ári, samtala. (Jón Jónsson: Segjum heldur alt að 20 þúsund) Eg hefi mínar upplýsingar m. a. frá konum þeim, sem standa fyrir “Bazarnum„, og ef hagurinn af þessari verzlun útlendinganna hér ætti að vega upp tapið, sem landssjóður biði við það, að sleppa þeim við vitagjald, þá mætti hann vera ótrúlega mikill.

Það hefir verið sagt að þetta gjald mundi verða til þess, að þessi skip hættu að koma hingað, og rökstutt með því, að þannig hafi farið í Svíþjóð, vegna sams konar ákvæða þar.

Eg skal nú ekki rengja þetta, en sé svo, þá hafa þau hætt að koma til Svíþjóðar af því, að gjaldið hefir þar verið lagt á eftir að þau fóru að sigla þangað. En hér var vitagjald komið á löngu áður en þau komu hér fyrst. Og það, að þeim “hnykti við„. hefir eingöngu stafað af því, að þau hafa ekki verið búin að átta sig á hækkuninni í lögum frá 1911. Annars verð eg að rengja það, að skipin muni að hætta að koma þessa vegna. Eg get ekki trúað því, að þeir menn, sem ferðast að gamni sínu sunnan úr Þýzkalandi og norður til Spitzbergen, séu svo sára-bláfátækir, sem háttv. 2. þm. Rvk. (J. J.) gaf í skyn, þótt honum kunni að vera betur kunnugt um heimilisástæður þeirra en mér. Að minsta kosti er það ekki að sjá á búnaði þeirra öllum, að svo sé.

Það hefir aldrei verið staðhæft heldur, að þessi ákvæði skuli gilda svo og svo lengi. Við gætum séð að okkur og gert þessar undantekningar, ef það sæist að þess þyrfti, en eg held að útgerðarfélögin færu aldrei að sjá eftir svo sem 5–6 kr. hækkun á hvert fargjald.

Því hefir verið haldið fram, að Íslendingar hafi atvinnu mikla af komu þessa fólks, en þar er eg samdóma hv. 2. þm. Rangv. (E. P.), að þeir menn, sem hennar njóta, hafi fyrir það drepið niður einhverjum öðrum störfum, sem hefðu komið alt eins að gagni þeim og landinu. Og sömuleiðis efast eg um, að komur þessar auki oss nokkurn sóma út í frá, meðan við getum ekki sýnt annað, en nú er: göturnar hérna, eins og þær eru, og svo einhvers konar trúðleika og víxlaðar bykkjur með vondum reiðtygjum.