21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

94. mál, kosningar til Alþingis

Hákon Kristoffersson, framsögum.:

Eins og hv. deild er kunnugt, var máli þessu tekið vel við 1. umr. þess hjer í deild, og vona jeg, að sama verði við þessa umr. og hina 3.

Jeg hygg, að flestir geti orðið samdóma um það, að frv. bæti að minsta kosti úr sumum þeim göllum, sem eru á hinum núgildandi kosningarlögum. Nefndin, sem um málið hefur fjallað, hefur og gert sitt til að koma því í viðunandi horf. Vil jeg þar sjerstaklega þakka hv. 6. kgk. þm. (G. B.) fyrir hans góðu bendingar, einkum þó um gerð kosningaseðilsins. Þá vil jeg snúa mjer að frv. sjálfu og breytingum nefndarinnar á því, og þá jafnframt minnast á, hvaða breytingar ætlazt er til að verði á núgildandi kosningarlögum.

1. brtill. nefndarinnar á þgskj. 461 er við 1. gr. frv., 2. málsgrein, sem er breyting á 7, gr. kosningarlaganna frá 3. okt. 1903. Þar er um það að ræða, hvernig fara skuli að, þegar sýslumaður, sem nú er lögum samkvæmt oddviti kjörstjórnar, er sjálfur frambjóðandi, og er það hjer skýrt tekið fram, hver koma skuli í hans stað, þegar svo stendur á. Álít jeg, að þessi breyting sje til verulegra bóta. frá því, sem nú er. Þá hygg jeg, að mönnum blandist ekki hugur um, að 2. gr. frv.,. sem á að verða 19. gr. kosningalaganna, sje til stórra bóta, og einnig að breyting sú, sem nefndin hefur gert á hinu upphaflega frv., sje hagkvæm.

Eins og kunnugt er, voru línurnar á milli nafnanna miklu breiðari í frv. en nú er ætlazt til. Sömuleiðis voru deplarnir í svarta borðanum ferkantaðir í sýnishorninu fyrst, en nú eru þeir kringlóttir. Þetta álít jeg til bóta, því að meiri vissa er fyrir, að fullkomlega verði stimplað út fyrir kringlóttan depil en ferkantaðan reit.

Það var ofurlílill ágreiningur í nefndinni um það, hvernig merkja skyldi seðlana. Formaðurinn var í fyrstu heldur á móti því, að taka upp stimpilinn; en við nánari athuganir hallaðist hann að okkar skoðun, enda hafa ýmsir skilríkir menn, sem athugað hafa þessa aðferð, látið það í ljós við mig, að þeim litist vel á hana. Það má vel vera, að annað betra megi finna, en þetta mun vera hið bezta, sem nú er völ á; og vona jeg að hv. deild felli sig vel við þessa grein frv. með breytingum nefndarinnar.

Jeg gleymdi að geta þess áðan við 1. gr. þessa frv., að mesta breytingin, sem lagt er til að gera þar, miðar að því, að koma í veg fyrir, að frambjóðandi sje í kjörstjórn. Flestir munu samdóma um, að það sje óheppilegt. Það er ekki langt síðan, að það vakti óánægju og olli frambjóðanda óþæginda. Við munum, að hv. þm. V.-Ísf. varð fyrir aðkasti fyrir það, að hann sat í kjörstjórn, þegar hann var sjálfur frambjóðandi, og álitið var, að kosningin mundi hafa fallið á annan mann (séra Kr. D.), ef núverandi þingm. V.-Ísf. hefði ekki átt kost á að dæma í sínu eigin máli. Með breytingum þeim, sem gert er ráð fyrir, á algerlega að vera girt fyrir, að slíkt geti komið fyrir framvegis.

Þá kem jeg að 3. gr. frv., sem á að breyta 26. gr. kosningarlaganna. Þar er undirkjörstjórn látin koma í stað yfirkjörstjórnar. Það mun vera vegna þessarar breytingar, að hv. formaður nefndarinnar (S. E.) skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Hann gat ekki felt sig við, að það vald, sem hjer ræðir um, væri flutt frá yfirkjörstjórn til undirkjörstjórnar.

H. 6. kgk. (G. B.) lagði fátt til þess, og kvaðst ekki gera það að kappsmáli. Það er jeg, sem hef haldið þessu fast fram; jeg hygg, að það megi alveg eins trúa undirkjörstjórn fyrir að fara með þetta vald eins og yfirkjörstjórn. Jeg held því fram, að undirkjörstjórnir sjeu ekki hlutdrægari en yfirkjörstjórnir; hafi aðrir orðið þess varir, þá byggja þeir á reynslu, sem jeg þekki ekki; enda sje jeg ekki, hvernig undirkjörstjórnirnar eiga að geta beitt valdi sínu til óþæginda einstaklingum hreppsins.

4. gr. frv. er svipuð 31. gr. kosningarlaganna, nema nú á að nota stimpil við atkvæðagreiðsluna, í stað þess sem nú er gerður kross með blýanti. Jeg og þeir, sem þessu halda fram með mjer, við teljum það vera til bóta. Það er kunnugt, hve mörgum hefur gengið illa að gera krossinn, og atkvæði ónýtzt fyrir þá sök. En ef þetta er tekið upp, sem hjer er farið fram á, getur það tæplega komið fyrir, að atkvæði ónýtist fyrir þá sök, að merkið sje ekki eins og það á að vera. Með þessu er þá stutt að því, að vilji einstaklinganna fái að njóta sín í þessu, og hjer því um rjettlætisverk að ræða.

5. gr. frv., sem verður 38. gr. kosningarlaganna, er að mestu leyti eins og nú, að öðru leyti en því, að nauðsynlegar orðabreytingar hafa verið gerðar, út af því, að gert er ráð fyrir að nota stimpil í stað blýants.

Þá er 6. gr. frv., sem á að . koma í stað 40. gr. kosningarlaganna. Aðalbreytingin þar er sú, að atkvæðagreiðslu megi aldrei slita, fyr en 6 stundum eftir að hún hófst. Nefndin hefur hjer breytt nokkuð frá því, sem var í frv.; þar er gert ráð fyrir, að atkvæðagreiðslan standi yfir frá kl. 12 á hádegi til kl. 10 sd. í kaupstöðum, og frá kl. 12 til kl. 7 alstaðar annarsstaðar. Meðnefndarmenn mínir stungu upp á að breyta þessu þannig, að láta vera óákveðið, hvað atkvæðagreiðsla skyldi standa lengi yfir í kaupstöðum, en í sveitum skyldi ákveðið, að hún stæði frá kl. 12–6. Það getur hugsazt, að það mæti mótspyrnu, að hafa tímann svona langan, þó varla nema hjá kjörstjórnum. Það vakti fyrir oss, að gera öllum sem hægast að neyta atkvæðisrjettar síns. Við, sem kunnugir erum í sveit, vitum, að einstaklingarnir eiga oft örðugt með að masta á mjög takmörkuðum tíma, heimilisstörfin banna það. Þessi breyting mun því verða vinsæl hjá almenningi. Og þar sem lögin gera ráð fyrir, að kjörstjórar hafi 4 kr. í kaup á dag, sýnist ekki til of mikils ætlazt, þó að þeir verji þessum tíma til að taka á móti atkvæðunum.

7. og 8. gr. frv. sje jeg ekki þörf á að ræða um; þar er aðeins nauðsynleg breyting, eftir því sem tilhagar, en um í enga efnisbreyting að ræða.

Að endingu skal jeg geta þess, að ofurlítil stílsvilla hefur komizt inn í nefndarálitið hjá mjer. En jeg veit, að velviljaðir og sanngjarnir menn muni sjá, við hvað átt er og lesa í málið, um hina hirði jeg ekki.

Læt jeg svo úttalað um málið að sinni.