21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

94. mál, kosningar til Alþingis

Guðm. Björnsson:

Jeg vil gera mitt til þess, að mál þetta verði sem minst til tafar, og vil þess vegna benda á það, að til þess að nefndin geti farið að vinna að frumv., þarf hún að fá að vita, hvað meiri hluti hv. deildar vill aðhyllast af þeim br.till., sem fram hafa komið.

Jeg ætla að drepa örfáum orðum á þessar breytingartillögur, og vík þá að 1. brtill.

Sú skoðun virðist nú ríkja um land alt, að það eigi mjög illa við, að sýslumenn skipi yfirkjörstjórn, er þeir eru sjálfir frambjóðendur. Það er og auðsætt, að sú skoðun hefur mikið til síns máls, þar sem sýslumenn fá þannig ráðið miklu umr hvaða seðlar eru taldir gildir eða ógildir.

H. þingdm. hafa eigi verið sammála um, hvernig skilja eigi brtill. nefndarinnar, hafa fett fingur út í orðalagið og óttast, að það mundi valda misskilningi. En sá ótti er ástæðulaus. Þegar „atkvæðakassar eru opnaðir og atkvæði talin“, getur þýtt bæði þegar farið er að opna og telja og þegar lokið hefur verið að opna og telja. En þegar næsta málsgrein er lesin, sjest, við hvað er átt, svo að misskilningur fær trauðla komizt hjer að.

Þá kemur breytingin á kjörseðlunum. Það tel jeg veigamestu breytinguna, sem í frv. felst. Það er eðlilegt, að lítt pennafærir menn hiki við, og þurfa að velta því fyrir sjer, hvernig þeir eigi að gera þennan kross og þetta brot á honum, sem lögskipað er. Jeg hef iðulega verið sjónarvottur að því við kosningar hjer í Reykjavík, hve lengi mönnum hefur dvalizt inni í kjörklefunum, Þeir hafa staðið þar lon og don, af því að hik hefur komið á þá, er þeir áttu að setja markið á kjörseðilinn, og árangurinn svo orðið stundum, að seðillinn hefur orðið ónýtur. Það hefði farið minni tími í þetta fyrir þeim, ef þeir hefðu getað notað stimpil. Það er miklu þægilegra og vandaminna, að mega setja stimpilinn yfir alla hvítu kringluna,eins og hjer er farið fram á. Það er alt annað að eiga að gera kross með blýant Skjálfhentum manni getur auðveldlega mistekizt það, en miklu siður að stimpla á þann hátt, sem hjer er gert ráð fyrir.

Breytingaratkvæðið um tímann getur vel verið að megi misbrúka. En í því efni er það aðalatriðið, að tryggja það sem bezt, að allir, sem vilja, geti notið kosningarrjettar síns. Jeg er sannfærður um, að það getur oft komið fyrir til sveita, að menn eigi ekki hægt með að komast snemma af stað heimanað frá sjer, og sleppi ferðinni á kjörfund með öllu, er þeir urðu síðbúnir, af því að þeir halda, þá, að það sje ekki til neins — alt verði um garð hengið, þegar þeir koma. Veður og búannir geta hamlað ferðum manna árdegis, en þær tálmanir geta horfið, er liður á daginn. Og það verður að tryggja mönnum kosningarrjett sinn, þó að eitthvað tálmi ferðum fyrra hluta dags. Það leikur varla á tveim tungum, að þau breytingarákvæði, er hjer er farið fram á, gera það betur en ákvæði núgildandi laga um þetta efni.

Jeg sje ekki ástæðu til að taka málið út af dagskrá nú. Hitt virðist mjer skynsamlegri aðferð, að greiða atkvæði um það nú, svo að nefndin sjái, hvaða breytingar hv. deild vill aðhyllast og hverjar ekki.