22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Steingr. Jónsson:

Jeg skildi alls ekki lögskýringu hv. 1. kgk. þm. (Júl. Hav.). Jeg sagði það hjer áðan um þetta mál, að löggjafarvaldið væri að afsala sjer hluta af löggjafarvaldinu, og jeg taldi þessa stefnu athugaverða. En við erum komnir inn á þssa braut í samþyktarlögunum, svo hjer er ekki um neitt nýmæli að ræða. Og jeg get samþykt þetta meðal annars vegna þess, að þessu valdi er afsalað í hendur kjósenda vorra, svo það eru sömu mennirnir, er ráða þessu til lykta og þeir, sem hafa gefið oss umboð til að fara með mál hjer í löggjafarþinginu. Og eins og við getum afsalað oss þetta mál, eins getum við afsalað það frá oss með vissum takmörkum, um t. d. að samþyktirnar gildi ekki lengur en 5 ár, þurfi því að endurnýja þær, ef þær eigi að gilda önnur 5 ár o. svo frv. Slík takmörkun er heldur ekkert nýmæli, svo ekki sje farið þar lengra í þingsögu vorri en til síðasta alþingis, þá voru vörutollslögin samþykt með slíkri takmörkun, sem sje að þau giltu aðeins í 2 ár. Og hið sama getum við sagt við Eyfirðinga.

Um Akureyrarkaupstað tel jeg að það megi öllum vera ljóst, að hann geti ráðið mestu, því hann er langfjölmennastur. Hjer er ekki að ræða nema um eina 2 hreppa í Suðurþingeyjarsýslu, og að því jeg bezt veit, ekki nema um 3 hreppa í Eyjafjarðarsýslu, svo það er áreiðanlegt, að þeir hafa hvorki kjósendamagn nje fólksmagn svo á móts við Akureyrarkaupstað, að þeir einir geti ráðið því til lykta (Júl. Hav.: Hvar verður fundurinn haldinn?), og jeg geri ráð fyrir, að fundurinn yrði í nánd við Akureyri, því þar eru flestir kjósendurnir.