22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

57. mál, girðingar

Sigurður Eggerz:

Brtill. h. n. við 11. og 12. gr. frv. er töluvert athugaverð. Í 12. gr. stendur, að landeiganda sje heimilt meðal annars, að gera girðingu yfir stigu og götutroðninga með hliði fyrir veginum. Þessu tvennu hefir h. n. slept úr upptalningu sinni yfir vegi þá, sem girða megi yfir, svo framarlega sem þar sje haft hlið á girðingunni. Afleiðingin af því, ef þessi brtill. yrði samþykt, væri sjálfsagt sú, að landeiganda væri heimilt að girða yfir stigu og götutroðninga, án þess að þurfa að hafa nokkurt hlið á girðingunni. Þetta getur orðið mjög bagalegt, t. d. þar sem fleiri bæir eiga engi saman; það gæti farið svo, að þannig yrði afgirt, að sumum bændum væri ómögulegt að ná heim heyum sínum, girðingin yrði í vegi fyrir þeim og tepti þá. Jeg vil því skjóta því til h. n., hvort hún vill ekki breyta þessu ákvæði, t. d. þannig, að girða mætti fyrir stigu og götutroðninga, en hlið skyldi aðeins hafa á girðingunni, ef hreppsnefnd skipaði svo fyrir.