22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

57. mál, girðingar

Guðmundur Björnsson:

Ég get ekki felt mig við 6. brtill. h. n.; en vil þó ekki vera meinsmaður frv., því það er að flestu leyti gott. Jeg vona því, að h. n, haldi ekki fast við þessa tillögu sína, að mönnum skuli heimilt að girða fyrir alla vegi nema flutningabrautir, af þeir aðeins hafa hlið á girðingunni, og að eigi þurfi nema leyfi sýslunefndar, til að gera hið sama við flutningabrautir. Mjer þykir það óviðkunnanlegt, að sýslunefndum sje fengið þetta vald yfir flutningabrautunum, þar sem landssjóður þó kostar lagning þeirra. Jeg kann betur við það, eins og það er í gildandi lögum, að leita þurfi leyfis stjórnarráðsins um girðingar með hliðum yfir flutningabrautir og þjóðvegi.

Jeg hef nú síðari árin ferðast um land alt, og hef fundið til þess, hvílíkur trafali er að hinum sívaxandi girðingum yfir þjóðvegina.

H. frsm. (J. J.) sagði, að girðingar yrðu ekki settar yfir þjóðvegi, nema leyfi væri fengið til þess. En þessa leyfis mun ekki jafnan hafa verið leitað. Hv. þm. V.-Sk. (S. E.) hefur skýrt mjer frá því, að hinar mörgu girðingar yfir þjóðveginn undir Eyjafjöllum muni hafa verið settar í leyfisleysi. Þessar girðingar urðu mjer til hins mesta trafala á ferð minni þar um slóðir. Jeg varð hvað eftir annað að hleypa á undan lausu hestunum á harða spretti, og fara af baki þegar að hliði kom, til að opna það fyrir þeim; síðan stökkva á bak og hleypa á spretti að næsta hliði, og víða var örskamt á milli girðinganna. Svipað kom fyrir mig sumstaðar á Norðurlandi.

Við skulum hugsa okkur, að sett væri hlið á veginn hjer austur. Hvílíkur farartálmi mundi það ekki vera, jafnvel þótt ekki væri nema á einum stað, hvað þá er víðar væri. Og þessi farartálmi eykst og margfaldast að sama skapi, sem notkun vagna fer í vöxt Það er bein óhæfa, að hafa girðingar yfir flutningabrautir og þjóðvegi, og ætti að banna það í stað þess að leyfa.

Það hefur viðgengizt, að nýjir þjóðvegir og sýsluvegir hafa verið lagðir yfir engi manna, án þess girðing hafi verið sett fram með veginum. Slíkt ætti líka að banna,. en sá, sem veginn leggur, vera skyldur til; að girða fram með honum, svo að ekki verði ágangur á engið vegna umferðarinnar. Þetta er víða lítil fyrirhöfn, þarf víða ekki nema einn gaddavírsstreng á hvern skurðbakka með veginum. Við eigum að stefna að því, að koma í veg fyrir allan farartálma á alfaravegum. Við eigum að keppa að því, að eignast góða og greiðfæra vegi, en þá megum við ekki þvergirða þá. Fólk getur ekki unað því til lengdar; en það getur orðið erfitt að ná burtu girðingunum, þegar þær einu sinni eru komnar, Það er þó skárra, eins og er í núgildandi lögum, að enginn megi setja girðingu yfir veg nema með leyfi sýslunefndar eða landstjórnar; það er að skömminni til skárra en það, sem h. n. leggur til.

Væri hæstv. ráðherra hjer viðstaddur, mundi jeg brýna það fyrir stjórninni, að gæta þess vel, að fyrirmælum laganna um girðingar yfir vegi væri vel fylgt.

Jeg vona, að h. n. geri ekki að kappsmáli þvergirðingarnar yfir vegi, því að þær eru ekki meginatriði í þessu máli; en þó þykir mjer svo mikils um vert, að ákvæðinu um það sje ekki haldið, að jeg veit ekki, hvort jeg get greitt atkvæði með málinu, ef nefndin heldur því til streitu; og þykir mér þó málið að öðru leyti harla mikilsvert.

Eins og h. 3. kgk. (Stgr. J.) sagði, snertir mál þetta bæði samgöngur og landbúnað, og þarf að forðast að leiða það þannig til lykta að það geri öðru skaða um leið og það gerir hinu gagn.