26.08.1913
Efri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Jósef Björnsson, framsögum.:

Jeg hef litlu við að bæta við umræður þær, sem fóru fram um þetta mál í gær. Aðeins vil jeg taka það fram, að við höfum athugað landhelgislínuna á Skagafirði, og liggur hún miklu utar en mörkin eru sett í brtill. á þgskj. 559; hún liggur beina línu, hjer um bil frá Hrolleifshöfða að Selnesi á Skaga, og er hjer því ekki farið fram á, að friða einu sinni helminginn af landhelgi fjarðarins, og svipað mun mega segja um Eyjafjörðinn, að samþyktin nái ekki til meira en helmings af landhelgissvæði hans. Með því að spurningin um landhelgislínuna gaf einkum tilefni til þess, að umræðunni var frestað, en nú hefur verið leyst úr henni, eins og jeg hef skýrt frá, og eins og háttv. deild hefur getað sannfært sig um af sjókorti því, sem hjer hefur verið til sýnis, þá sje jeg ekki ástæðu til, að fara fleiri orðum um málið.