26.08.1913
Efri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

57. mál, girðingar

Jón Jónatansson framsögumaður:

Það varð nokkur ágreiningur við 2. umr. hjer í deild um sumar brtill. nefndarinnar, og hefur hún nú að nýju tekið þær til athugunar, og gert til miðlunar nokkrar breytingar á því, sem mestur ágreiningurinn var um. Væntir nefndin þess, að henni hafi tekizt þannig að miðla málum, að allir h. d. m. geti nú sætt sig við frv., og það fái fram að ganga. 1. brtill. er ekki annað en leiðrjetting á máli í 8. gr.; það verður að fella burtu orðin; „tún eða . engi“ og setja. „land“ í staðinn. En tilvísunin á þgskj. 567 er ekki rjett; það á að vera 5. línu, en eigi 4. línu.

Þá hefur verið bætt við nýrri málsgrein, sem á að koma aftan við 1. málsgrein 8. greinar frv. Þetta er gert eftir bendingu h, þm. Húnv. (Þ. J.) við 2. umr. Nefndin fjelst á, að dæmi það, er hann færði til, væri rjett, að þar sem jörð liggur að landi kauptúns og verður fyrir ágangi þaðan, væri rjett, að jarðeigandi eða ábúandi ætti sama rjett til girðingaframlags, sem tún eða engi lægi á móti, og því hefur hún komið með þessa breytingu sína. 2. brtill. nefndarinnar er við 11. gr. frv., sem mestar umræðurnar urðu um síðast. Nefndin hefur gengið inn á það, að jafnan skuli leita leyfis, áður en girt er yfir akfæran veg, en þó ekki lengra en til sýslunefadar, þó um flutningabraut sje að ræða; henni fanst það mundi aðeins aukatöf, að vera að sækja þetta leyfi til stjórnarráðsins, og óþarfi, að vera að baka því ómak með þessu, enda mundi það einatt ókunnara málavöxtum en sýslunefnd, og hafa nóg annað þarfara að gera. Viðhald flutningabrauta og eftirlit með þeim hvílir nú á sýslunefndum, og er því eðlilegt, að þær skeri úr, hvort girðingaleyfi skuli veitt eða ekki, enda standa þær betur að vígi en stjórnarráðið, með að líta eftir, að ekki sje girt í yfir vegi í leyfisleysi. Auk þess er hættara við, að slept sje að leita leyfis, þó yfir vegi sje girt, ef leyfið á að sækja til stjórnarráðsins, en ef sýslunefnd á að veita það. Hinsvegar þótti nefndinni ekki ástæða til að fara lengra en að láta ákvæðið ná til akfærra vega; hún leit svo á, að það mundi ekki valda þeim farartálma, þótt girt væri yfir aðra vegi, að þörf væri á, að skylda menn til að leita leyfis til að gera það.

Þá er brtill. b. við 11. gr., um að á eftir 2. málsgrein komi ný málsgrein svo hljóðandi: „Ef girt er fyrir aðra stíga eða götutroðninga, getur hreppsnefnd, ef þess er krafizt, heimtað, að hæfilegt hlið sje sett á girðinguna“. Nefndin hefur tekið þá bendingu til greina, sem hjer kom fram við 2. umr. málsins, að varhugavert sje að nema burtu stíga og götutroðninga úr upptalningunni á vegunum, svo að ákvæði laganna gildi ekki um þessháttar vegi, og setja ekkert í staðinn. Úr því er bætt með þessu ákvæði. Það getur hugsazt, þar sem engjum er skift í skákir, að umferð sje nauðsynleg um slíkar smágötur, en þá þykir nefndinni nóg, að heimila hreppsnefndum að heimta, að hlið sjeu sett á girðingarnar, en óþarft, að heimta leyfi hennar til þess að girða megi. Nefndinni þótti því óþarfi að láta orðin: „stígur eða göutroðningur“ standa óbreytt, þar sem það gæti valdið óþægindum, en með þessu hygg jeg að svo sje frá lögunum gengið, að engin vandræði hljótist af. Um 3. brtill. ætla jeg ekki að fjölyrða. Það er aðeins farið fram á, að í stað þess, að vírinn sje hvergi minna en 75 sentim. frá jörð, þegar um stórgripagirðingu er að ræða, komi 65 sentim., sem verður að álítast nægilegt. Þá er 4. brtill. nefndarinnar, um að fella burtu úr 20. gr. ákvæðin um, að túngirðingalögin og gaddavírslögin sjeu úr gildi numin, Nefndin tók þetta atriði til athugunar samkv. bendingu frá háttv. 3. kgkj. þm., og komst að þeirri niðurstöðu, að í þessum lögum væru ýms eftirlitsákv., sem þyrftu að standa, og því væri eigi rjett að fella lögin úr gildi. Hef jeg nú minzt á breytingartill. nefndarinnar, og sje ekki ástæðu til að tala frekar um frumv. að sinni, fyr en þá umræðurnar gefa tilefni til þess, en aðeins vil jeg geta þess, að það hafa komizt prentvillur inn í frumv. á 3 stöðum, hin fyrsta í 8. gr., þar sem stendur: „tún eða engjar liggja að beitilandi annara“, á að vera „annarar“. Önnur prentvillan er í 11. gr., þar sem stendur: „nú er girðing sett yfir veg með hliði fyrir veginum“, á að vera: „með hliði á fyrir veginum“. Þriðja prentvillan er í sömu grein: „Nú liggur yfir land forn fjallvegur“ fyrir: „Nú liggur yfir land manns forn fjallvegur.“ Þessar prentvillur verða að sjálfsögðu leiðrjettar við næstu prentun frumvarpsins. Sje jeg svo ekki ástæðu til, að fara fleiri orðum um frumvarpið, en læt þetta nægja að sinni.